Védís Hervör og Seth Sharp bjóða upp á notalega stemmningu í Bíósalnum
Hin geðþekka tónlistarkona Védís Hervör Árnadóttir mun ásamt samstarfsfélaga sínum Seth Sharp efna til tónleika í Bíósal Duushúsa næstkomandi laugardag, 18. nóvember. Tónleikarnir bera heitið „Silver”.
„Þessi hugmynd okkar byggist á því að spinna saman tvo ólíka menningarheima með því að blanda saman þekktum íslenskum og amerískum þjóðlaga- og dægurlagaperlum, þar sem þeim er jafnvel blandað saman í flutningi,” segir Védís Hervör aðspurð um efnisskrána. „Það má segja að við séum að klára verkefni sem við vorum byrjuð á en við fluttum þessa dagskrá síðasta sumar á Hótel Borg. Vegna annarra verkefna sem biðu mín úti urðum við að hætta í miðju kafi þannig að núna ætlum við að taka upp þráðinn að nýju á meðan ég er heima,” segir Védís.
Mjög góður rómur var gerður að tónleikum þeirra Védísar og Seth á Hótel Borg en uppselt var í bæði skiptin sem þeir voru haldnir. Ekki síst í ljósi þess ákváðu þau að nota tækifærið og halda áfram með þá núna. Að sögn Védísar stendur til að að halda þrenna tónleika fyrir jól og verða þeir fyrstu í Bíósalnum á laugardaginn. „Við reynum að skapa notalega og hlýlega stemmningu við kertaljós og rólegheit á köldu vetrarkvöldi, sem er kannski kærkomin birta inn í grámyglulegt skammdegið sem er á þessum tíma fram að því að fólk tendrar jólaljósin.”
Tónlistarkonan Védís Hervör hefur haft í nógu að snúast upp á síðkastið og er alltaf með einhver járn í eldinum. Hún hefur dvalið í London og unnið þar að sólóplötu sem koma á út eftir áramót. HardCell útgáfufyrirtækið hyggst dreifa disknum á Evrópumarkaði og framundan er vinna við að fylgja útgáfunni eftir, sem er helsta verkefnið framundan hjá henni.
Tónleikarnir eru sem fyrr segir á laugardaginn í Bíósalnum og hefjast kl. 20:00. Miðaverð er 1500 kr. Miðasala hefst við innganginn klukkustund áður en tónleikar hefjast.
Mynd: Védís Hervör ásamt Seth Sharp.