Vatn og jörð, ís og eldur í Keflavíkurkirkju
Norræn djáknaráðstefna verður haldin í Keflavíkurkirkju 13.-15. ágúst.
Norræn djáknaráðstefna verður haldin í Keflavíkurkirkju 13.-15. ágúst. Yfirskrift hennar er Vatn og jörð, ís og eldur. Varðveitum tengslin – styrkjum þau. Hún vísar í náttúru Íslands og mikilvægi þess að varðveita tengsl milli djákna á Norðurlöndum og styrkja þau.
Djáknar vinna í söfnuðum, á stofunum og hjá félagasamtökum. Markmið starfa þeirra er að styðja fólk í erfiðum aðstæðum. Þjónusta þeirra er nefnd kærleiksþjónusta.
Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir verður viðstödd opnun ráðstefnunnar og plantar tré í garð kirkjunnar. Tréð er tákn kærleiksþjónustunnar og er lágvaxin fura. Hún er enn lítil planta en á eftir að vaxa og dafna ef hlúð er að henni. Það skiptir máli að hún sé með sterka rót til að standa af sér veður og vind. Táknið felst í að tréð vex ef að því er hlúð eins og við sjálf og þjónusta okkar við náungann. Við þurfum að vera rótföst í trú okkar og faglegum vinnubrögðum.
Á dagskránni er fræðsla til eigin uppbyggingar í starfi og kynnt eru verkefni sem hafa reynst vel í kirkjum á Norðurlöndum.
Framlag Íslands er einmitt frá starfi Keflavíkurkirkju. Það starf var kveikjan af því að halda ráðstefnuna í Keflavík.
Sr.Erla Guðmundsdóttir, prestur í Keflavíkurkirkju heldur fyrirlestur sem nefnist Kreppan og söfnuðurinn í Keflavík.
Fjallað er um kreppuna, atvinnuleysi og viðbrögð safnaðarins við því ástandi sem skapaðist haustið 2008 og fram til ársins 2013. Fyrirlesturinn er á dönsku og verður kl. 9.30 á föstudaginn 15. ágúst.
Norræn djáknaráðstefna er haldin annað hvert ár til skiptis á Norðurlöndunum og eru 10 ár síðan hún var haldin á Íslandi. Þá var hún í Skálholti.