Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Varð alltaf veik á Þorláksmessu vegna spennufalls
Laugardagur 23. desember 2017 kl. 06:00

Varð alltaf veik á Þorláksmessu vegna spennufalls

- Halla jólabarn vill helst setja jólaskrautið upp í október

Halla Þórðardóttir eða Halla Togga býr í Grindavík ásamt Sigurjóni manninum sínum og sonum þeirra í Grindavík. Hún er annálað jólabarn og þarf maðurinn hennar oft á tíðum að stöðva hana þegar hún ætlar að setja jólaskrautið upp í október. Máni sonur þeirra fæddist í desember og segir Halla að hann sé meira jólabarn en hún, en sjálf var hún oftast veik á Þorláksmessu eftir spennufall aðventuhátíðarinnar. Halla heldur í gamlar hefðir á jólunum en hefur prófað nýjungar við matarborðið og hefur komist að því að hamborgarhryggurinn sé jólamaturinn þeirra. Halla svaraði nokkrum jólaspurningum fyrir okkur.

Hvers vegna ertu svona mikið jólabarn?
„Ég veit það bara ekki. Ég skil ekki af hverju ALLIR eru ekki svona mikil jólabörn.
Ég hef bara alltaf verið svona mikið jólabarn. Þegar ég var yngri varð ég undantekningarlaust veik á Þorláksmessu/aðfangadag vegna spennufalls.
En ég myndi segja að gleðin sé bara svo mikil, í dimmu amstri hversdagsleikans og rútínu lifnar allt við, ljósin, fegurðin og ilmurinn meira að segja. Gleðin og spennan var of mikið fyrir litlu mig að höndla en nú í dag er þetta hamingjusamasti tími ársins.
Þegar aðrir sjá stress og geðveiki sé ég glimmer gosbrunna og hamingju.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvenær byrjar þú að skreyta fyrir jólin?
„Ég vil helst byrja að skreyta í október. En ég reyni að hemja mig til 1. nóvember. Ef kallinn minn er á sjó í nóvember eru útiljósin komin upp í lok október.“

Hver er uppáhalds jólahefðin þín?
„Þetta er erfið spurning. Fyrir utan allt sem kemur börnunum við er það að skreyta jólatréð og að heyra kirkjuklukkurnar í útvarpinu á aðfangadag. Það var eins og að bíða eftir flugeldasýningu hjá okkur sem barn. Ég man enn eftir því hvernig hjartað sprakk út í hamingju.“

Áttu þér uppáhalds jólaskraut?
„Uppáhalds jólaskrautið er dagatalið hennar ömmu minnar. Hún saumaði það út sjálf og ég fékk það eftir hennar tíma. Jólasængurfötin frá ömmu Sigurjóns eru ómissandi á jólunum hjá okkur, hún handmálaði þau og á aðfangadag eru þau alltaf nýþvegin og fín. Það jafnast ekkert á við það að skríða upp í hreint ból á aðfangadag og matarstellið hennar er líka uppáhalds.“


Hvað ertu með í matinn á aðfangadag?
„Ég hef prófað að breyta út frá hamborgarhryggnum með hreindýri, önd og gæs. En humar, hamborgarhryggur og ís er minn og okkar jólamatur.“

Hvað er uppáhalds jólalagið þitt?
„Ég á nokkur uppáhalds jólalög, „Þú og ég og jól“ með Svölu, „Ég hlakka svo til“,  „Dansaðu vindur“ og „All i want for Christmas“, það lag á sérstakan stað í hjarta mínu en þann 19. desember fyrir tólf árum síðan þá lágu leiðir okkar Sigurjóns saman.“

Bakar þú smákökur fyrir jólin?
„Já, ég baka alltaf sörur og nóg af þeim, þeim bakstri fylgja alltaf lakkrístopparnir og svo fer það bara allt eftir því í hvernig stuði ég er. Svo sl. fjögur ár bættist við enn stærra jólabarn í fjölskylduna svo hér er alltaf ein afmælisveisla á aðventunni.“

Ertu með einhverja skemmtilega jólasögu handa okkur?
„Ég á þær alveg nokkrar, en held að ég eigi fleiri þýðingarmikil tímamót frá þessum tíma. Eins og ég kom að áðan hittumst við maðurinn minn fyrir tólf árum á þessum tíma og akkúrat átta árum síðar fæðist okkar yngsti drengur, hann Óskar Máni, undir gulum fallegum desember mána.“