„Var heillaður af sjónvarpi í æsku“
Keflvíkingurinn Skarphéðinn S. Héðinsson er háttsettur innan tæknideildar Disney- og ABC-sjónvarpssamsteypunnar. Hann hlaut Emmy-verðlaun nú á dögunum en mun þetta vera í annað sinn sem Skarphéðni hlotnast sá heiður. Skarphéðinn fluttist til Seattle í Bandaríkjunum fyrir rúmum 20 árum til að læra tölvunarfræði og hefur ílengst þar í landi allar götur síðan.
Núna býr hann skammt fyrir utan Los Angeles ásamt bandarískri eiginkonu sinni og tveimur börnum. Hann er yfirmaður hjá Disney og ABC og undir honum starfa um tugir fólks.
„Við fengum Emmy verðlaunin fyrir netútsendingu ABC á Óskarsverðlaununum í vetur. Við settum up 30 HD myndavélar út um allt rauðateppið og bak við verðlaunasviðið. Með forriti okkar á Apple iPad gat notandinn svo horft á uppáhalds leikarann sinn upplifa það að vinna Óskarinn. Okkar verk er að taka efni sem venjulega fer í sjónvarpsútsendingu og snara því yfir í stafrænt form og dreifa yfir netið. Við hönnum alla ferla og forrit sem tengjast því verkefni.“
Hvernig tilfinning er það að fá slíka viðurkenningu fyrir störf sín ein sog Emmy verðlaun, og það í annað sinn?
„Það er mjög gaman og sérstakt fyrir gamlan tölvunarfræðing. Þeir sem þekkja mig vel vita hversu heillaður ég var af sjónvarpi og allri sjónvarpstækni í æsku. Segja má að bæði Emmy verðlaunin séu fyrir brautryðjandastarf við útsendingu á sjónvarpsefni fyrir Internetið þannig að þetta passar allt vel saman.“
Er eitthvað skemmtilegt verkefni á teikniborðinu hjá þér þessa stundina?
„Já það er ekki mikið staldrað við. Dreifing á öllu sjónvarpsefni yfir Internetið er bara tímaspursmál og aðal verkefni okkar er að finna hagstæðustu leiðirnar til að koma því í gagn,“ sagði Skarphéðinn að lokum.