Var fyrsti íbúinn á Ásbrú
Fida Abu Libdeh flutti á Ásbrú árið 2007 og var í fyrsta hópnum sem lauk námi í háskólabrú og líka í fyrsta hópnum sem lauk námi í tæknifræði. Hún segir gott að búa í svo litlu samfélagi þar sem allir þekkja alla.
Frumkvöðullinn Fida Abu Libdeh flutti með eiginmanni sínum og elsta barni á Ásbrú haustið 2007 og var í hópi fyrstu nemenda Keilis. Þau búa þar enn og hefur margt breyst hjá Fidu síðan þá; börnin eru orðin þrjú, hún búin að ljúka háskólabrú, námi í tæknifræði við Keili og MBA-námi frá Háskólanum í Reykjavík og er búin að stofna sprotafyrirtækið geoSilica sem gengið hefur vonum framar. Næst á dagskránni er að koma vörum geoSilica á markað í Finnlandi og Þýskalandi.
Leist strax vel á svæðið
„Ég hafði lengi stefnt að því að ljúka stúdentsprófi þegar ég sá auglýsingu um háskólabrú Keilis og ákvað að kanna þetta betur. Þá vorum við að leigja okkur íbúð í Reykjavík,“ segir Fida sem strax féll fyrir umhverfinu á Ásbrú. „Það voru reyndar fáir á svæðinu þá, fáir í Keili og fá börn á leikskólanum en það hefur breyst síðan þá.“ Fida lauk háskólabrú Keilis og hóf strax að því loknu nám í tæknifræði hjá Keili og var líka í fyrsta hópnum í því fagi. Þá var dóttir hennar með þeim fyrstu sem hóf nám í leikskólanum Velli á Ásbrú. Hún segir það einfaldlega vera svona að vera frumkvöðull, þá sé fólk ekki hrætt við að prufa eitthvað nýtt. Fida segir mjög gott að búa á Ásbrú í svo litlu samfélagi þar sem allir þekki alla. Í framtíðinni langar þau fjölskylduna að búa áfram á Suðurnesjum.
Lokaverkefnið varð framtíðarstarf
Lokaverkefni Fidu í tæknifræðinni fjallaði um það hvernig mætti nýta kísil sem fellur til í jarðvarmavirkjunum. Burkni Pálsson vann á sama tíma að verkefni um það hvernig mætti hreinsa kísil. Að námi loknu, árið 2012, stofnuðu þau saman fyrirtækið geoSilica sem hefur vaxið og dafnað hratt síðan. Burkni kennir nú hjá Keili en vinnur í hlutastarfi hjá geoSilica. Í byrjun voru Fida og Burkni einu starfsmenn fyrirtækisins en þeim hefur fjölgað eru nú þrír í fullu starfi og tveir í hlutastarfi.
Afurð geoSilica er kísilsteinefni í vökvaformi. Fida segir rannsóknir sýna að kísill hafi góð áhrif á hár, húð, neglur og bein. Þá sé einnig ljóst að besta uppspretta kísils sé úr steinefnaríku vatni því líkaminn eigi auðvelt með að nýta hann. „Kísill er snefilefni sem er nauðsynlegt fyrir líkamann. Hráefnið okkar er kísill sem fellur til á háhitasvæðum og hefur valdið vandræðum í jarðvarmavirkjunum og eyðilagt tækjabúnað og borholur hjá orkufyrirtækjum. Við notum þennan kísil í vöruna okkar og það er gaman að geta nýtt auðlindina á þennan hátt,“ segir Fida.
Nýta samfélagsmiðlana við markaðssetningu
Kísillinn kom á markað í byrjun síðasta árs og var þá seldur á tólf stöðum hér á landi. Nú eru sölustaðirnir yfir eitt hundrað. Heilsa ehf. sér um dreifingu á kíslinum og var hann söluhæsta íslenska varan hjá fyrirtækinu á síðasta ári. Frá því varan fór á markað hefur geoSilica fengið fjöldann allann af verðlaunum svo óhætt er að segja að móttökurnar hafi verið góðar. Fida segir það hafa komið skemmtilega á óvart. „Ég bjóst ekki við þessu. Hugmyndin var nú bara að skapa sér vinnu og gera eitthvað gagnlegt en með dugnaði allra hérna í fyrirtækinu hefur þetta tekist vel. Við höfum skapað nokkur störf og nýtt auðlindir sem annars voru ónýttar.“
Næst á dagskrán hjá Fidu og félögum í geoSilica er að koma kíslinum á markað erlendis. Undirbúningur að markaðssetningu í Finnlandi og Þýskalandi er langt á veg kominn. „Ef okkur tekst jafn vel upp þar og hér á Íslandi þá verðum við í góðum málum. Hér höfum við notað reynslusögur og samfélagsmiðla í markaðssetningu og ætlum að nýta okkur það áfram. Fólk hefur fundið fyrir góðum áhrifum af kíslinum og sagt öðrum frá því og þannig rúllar þetta vel áfram.“
Á dögunum hlaut geoSilica tvenn verðlaun á norrænu nýsköpunarverðlaununum, eða Nordic Startup Awards. Fida og félagar hlutu verðlaun fyrir Best Bootstrapped, sem er sú starfsemi á Íslandi sem hefur sýnt mesta þróun á síðasta ári, byggt á vexti, áhrifum, sölu vöru eða þjónustu án fjármögnunar. Þau hlutu líka verðlaunin Founder of the Year, sem er sú starfsemi á Íslandi sem sýnt hefur fram á athyglisverð afrek á árinu. GeoSilica og Fida verða því fulltrúar Íslands í Norðurlandakeppninni sem verður haldin 31. maí næstkomandi í Hörpu.
Viðtalið við Fidu birtist í blaðauka um Ásbrú sem fylgdi Víkurfréttum í vikunni.