Var ekkert að hugsa um framtíðina
– Anna María Guðlaugsdóttir var tuttugu sentimetrum hærri en strákurinn við hlið hennar á kirkjugólfinu.
„Ég var fermd sunnudaginn 8. apríl klukkan 10:30 í Keflavíkurkirkju af séra Birni Jónssyni. Við vorum tuttugu stelpur og, ef mig minnir rétt, sautján strákar sem fermdumst saman þennan morgun. Farið var inn í kirkjuna að aftan og við klædd í hvítu kyrtlana og síðan gengið út og aftur inn í kirkjuna að framan í röð. Árgangur 1959 var stór. Fermt var bæði fyrir og eftir hádegi marga sunnudaga.“
Gengum inn tvö og tvö saman
„Ég man að þegar ég labbaði inn kirkjugólfið þá var pilturinn við hliðina á mér, Ásbjörn Jónsson heitinn, hátt í tuttugu sentimetrum lægri en ég. Sumir strákar á fermingaraldri voru ekki búnir að taka út vöxtinn. Þegar ég hitti hann mörgum árum síðar var hann orðinn hærri en ég.
Skórnir mínir voru hvítir og tíu sentimetra háir og kjólinn minn mjög stuttur. Það borgaði sig ekki að beygja sig mikið. Mamma saumaði kjólinn minn, hann var dökkblár með hvítu silkibandi. Stærsta gjöfin mín var skatthol sem einnig nýttist sem skrifborð. Ég fékk einnig gullúr, hringa og margt fleira sem ég var mjög ánægð með. Einnig fékk ég mörg heillaskeyti.“
Svaf með rúllur í hárinu
Anna segir að stelpurnar hafi allar farið í hárgreiðslu. Hárið sett upp og slöngulokkar féllu niður á axlir. „Oft voru settar rúllur í hárið deginum áður og sváfum við með þær. Síðan var að mæta eldsnemma í greiðslu og sett í hárið þvílíkt af hárlakki því greiðslan átti að halda, hvort sem úti var rok eða snjóhríð. Fermingin mín fór fram á sunnudagsmorgni og veislan var eftir hádegi, kaffi og kökur. Altarisgangan var á mánudagskvöldi og þá var seinni veislan. Vinkonurnar komu einnig það kvöld. Veislan var haldin heima hjá mér og mikill undirbúningur fór fram. Stólar voru fengnir að láni frá vinum og ættingjum, hjónarúmið tekið í sundur til að geta haft veisluborðið þar inni, stóla og borð.“
Bróðir vinkonu var skírður sama dag
Anna man vel eftir fermingunni því vinkona hennar, Þóra Steina Þórðardóttir heitin, var í upphlut og hélt á bróður sínum, honum Þorvaldi, undir skírn. „Ekki er langt síðan ég minntist á þetta við Þorvald, eða við útför Þóru Steinu sem lést 4. nóvember árið 2018. Oft hugsa ég til þess hvað skarðið er orðið stórt í árgangi okkar, margir farnir.“
Trú, von og kærleikur
Hún man nokkuð eftir fermingarfræðslunni – svona nokkurn veginn, margt að læra utan af. „Við þurftum að taka próf. Ekki fannst manni það neitt sérlega skemmtilegt. Ég held að í dag sé þetta meira lifandi og skemmtilegra. Leitt að kristinfræði skyldi vera tekin út úr skólakerfinu. Í dag eru alls konar trúarbrögð á Íslandi en ég held að það gleymist stundum hver þjóðtrú okkar var og er. Við megum ekki gleyma því hvað kristin trú stendur fyrir. Á þeim tíma sem ég fermdist þá fannst mér ég vera frjáls, var ekkert að hugsa um framtíðina. Þá fannst mér meiri friður í öllu umhverfinu. Í dag ríkir órói í umhverfi okkar, náttúrunni og í mannfólkinu sjálfu. Mikið vildi ég að mannfólkið færi að huga meira að framtíðinni varðandi þá sem á eftir koma, vernda náttúruna, gróðursetja og í leiðinni eignumst við hugarró. Mín einkunnarorð eru trú, von og kærleikur.“