Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Var algjör nammigrís
Einar í Sporthúsinu, þar sem hann hefur meira og minna dvalið frá því að átakið hófst.
Laugardagur 7. febrúar 2015 kl. 09:00

Var algjör nammigrís

Einar Skaftason tók áskorun vinar og lét gott af sér leiða í leiðinni.

Keflvíkingurinn Einar Skaftason var orðinn 131,9 kg og með 34,5 í fituprósentu þegar hann tók áskorun um að kveðja aukakíló og láta gott af sér leiða um leið. 29,1 kg fóru af kappanum á sex mánuðum og 74,5 sentimetrar. Einar var að sjálfsögðu nýkominn úr ræktinni þegar blaðamaður Víkurfrétta náði tali af honum. 

„Ég var búinn að berjast við þetta lengi að ná tökum á mataræði og öllum þessum pakka. Mér finnst alveg frábært að hafa loksins náð tökum á þessu, keyrt þetta í gegn og náð þessum árangri. Áskoruninni er lokið en lífsstílsbreytingin er rétt að byrja. Núna er ég bara að keppa við sjálfan mig,“ segir Einar sem er harður á því að detta ekki aftur í sama farið. „Ég mun aðeins breyta áherslunum, brenna minna en lyfta meira og styrkja mig.“ 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Einar í vinnugallanum, fyrir átak. 

Engin boð og bönn

Varðandi lífsstílsbreytinguna segist Einar hafa passað sig á að fara ekki út í boð og bönn meðan á áskoruninni stóð. „Ég borðaði allan mat, leyfði mér alla hluti í hófi og hugsaði um hvað ég setti ofan í mig. Það skiptir svo miklu máli að hafa það að leiðarljósi að njóta þess að vera til samhliða því að vinna í sínum málum. Það er besta leiðin til þess að ná lengri tíma árangri. Annars fer allt í sama farið.“  

1000 kall fyrir hvert kíló

Upphaflega var Einar hvattur af vini sínum til að huga að heilsunni. Hann segist alltaf hafa verið við ágæta heilsu en lengi verið of þungur og sífellt bætt á sig. „Þessi vinur minn var orðinn þreyttur á öllum þessum megrunum og átakskúrum sem ég var alltaf í sem sprungu svo á endanum. Hann ákvað því að leggja fyrir mig erfiða þraut og láta gott af mér leiða í leiðinni.“ Í upphafi átaksins ákvað Einar að greiða 1000 krónur fyrir hvert kíló sem hann missti. „Þetta er fyrsti reikningurinn sem ég borga sem ég vonaðist til þess að yrði sem hæstur,“ segir hann og hlær.  

„Bíddu, hvað er þetta?“

Einar ætlar að styrkja samtökin Einstök börn og segist hafa hitt foreldra langveiks drengs fyrir tilviljun þegar hann var á hlaupabretti í Sporthúsinu. „Það gaf mér alveg rosalega mikið að tala við þau og hitta son þeirra. Maður hefur gott af því að hitta fólkið sem glímir við svona erfiðleika og eru meðlimir í slíkum samtökum,“ segir Einar og tekur fram að hann hafi allan tímann fengið mikla hvatningu og aðhald, jafnvel frá ókunnugu fólki. „Fólk lítur í körfuna hjá manni í Bónus, bendir og spyr: Bíddu, hvað er þetta? Og þá hef ég afsakað mig og sagt að ég sé að kaupa fyrir soninn eða konuna. Aðhaldið er búið að vera til staðar frá degi eitt og það er bara fínt,“ segir Einar glaður í bragði.

 

Einar á leiðinni á hlaupabrettið. 

Andstæðingurinn maður sjálfur

Spurður segist Einar reyna að mæta fjórum til fimm sinnum í ræktina á viku, æfa á sem fjölbreyttasta máta og njóta þess að vera til. „Sem flugöryggisvörður er nauðsynlegt, eins og slökkviliðsmenn og lögreglumenn, að vera í góðu formi. Það er mikil vakning á mínum vinnustað og fólk hreyfir sig mikið og er margir dulegir. Isavia sér fram á að starfsfólkið geti stundað líkamsrækt.“ Hann vonar að einhverjir noti árangur sinn sem hvatningu. „Ég var algjör nammigrís og gosisti, eiginlega matarfíkill. Ef ég get þetta þá geta þetta allir. Það er bara svoleiðis. Þetta er barátta og andstæðingurinn er maður sjálfur. Það er bara hann sem þarf að sigra,“ segir Einar. 

VF/Olga Björt