Vantar fleiri hendur í slysavarnastarfið
Hefurðu áhuga á að starfa í góðum félagsskap? Slysavarnardeildin Dagbjörg býður fleiri velkomna til starfa með þeim í Reykjanesbæ í húsnæði Björgunarsveitar Suðurnesja í Njarðvíkunum. Konurnar eru á öllum aldri og karlmenn eru einnig velkomnir en Dagbjörg starfar sem bakhjarl Björgunarsveitarinnar. Kristbjörg Gunnbjörnsdóttir er núverandi formaður Dagbjargar.
Svo gaman að vera saman
„Við hittumst reglulega en formlegir félagsfundir eru einu sinni í mánuði. Það er alltaf gaman að hittast og við gerum margt uppbyggilegt saman. Eins og t.d. í kvöld þá buðum við upp á frían fyrirlestur um jákvæð samskipti og jákvætt hugarfar með íþróttasálfræðingnum Daníel Guðna Guðmundssyni, ráðgjafa og eiganda fyrirtækisins Heilbrigt hugarfar. Svo förum við í ferðalag saman og heimsækjum aðrar deildir. Árshátíð, ráðstefnur og landsmót að ógleymdu landsþingi tengir okkur saman á landsvísu,“ segir Kristbjörg og maður fær það á tilfinninguna að það sé mjög skemmtilegt að starfa með þessum konum.
Vertu snjall undir stýri
„Svo þetta sé ekki bara vinna þá höfum við þetta skemmtilegt en aðalhlutverk deildarinnar er jú að koma í veg fyrir slys og óhöpp á meðal almennings. Það er nóg af verkefnum. Eitt af stóru verkefnum okkar er að hvetja bílstjóra til að aka án þess að tala í farsíma eða senda skilaboð undir stýri. Við höfum einnig séð um merkingar hér og þar. Við erum t.d. í samstarfi við Geopark um að taka út slysagildrur á fjölförnum ferðamannastöðum meðal annars á Reykjanesi. Við erum að sinna eldri borgurum og hjálpa þeim með slysavarnir á heimilunum. Á Ljósanótt erum við með bækistöð þar sem fólk getur leitað til okkar. Við sjáum um mat fyrir Björgunarsveitina og tökum við börnum sem verða viðskila við foreldra sína þessa helgi. Á sumrin erum við með hálendisvakt og einnig í Skaftafelli. Það er engin einmana sem starfar með okkur,“ segir Kristbjörg brosandi.
Næsti fundur verður mánudagskvöldið 12. nóvember klukkan 20:00 og allir hjartanlega velkomnir sem vilja kynna sér þennan góða félagsskap.
Þetta er bara svo gaman
Stöllurnar Guðbjörg Jónsdóttir og Ragnheiður Ragnarsdóttir eru sammála um að þessi félagsskapur er ómissandi og starfið með slysavarnardeildinni Dagbjörgu gefi þeim mikið. Þær hafa verið viðloðandi hjálparstörf í hálfan mannsaldur.
Slysið kveikti löngun til að hjálpa öðrum
„Ég hef verið í 45 ár með Björgunarsveitinni og var ein af stofnfélögum Dagbjargar árið 2004 og er ennþá virkur meðlimur hjá báðum. Ég var alltaf skáti en pabbi minn var með skátana í Njarðvík. Svo gerist það að bróðir minn ferst af slysförum á sjó þegar ég var tíu ára en þeir voru að prufukeyra trillu þegar slysið varð. Þá urðum við fjölskyldan vitni að því hvað björgunarsveitir um land allt brugðust vel við og sýndu mikla samstöðu. Það var svo góð tilfinning, að vita að alls staðar voru björgunarsveitir að leita að þeim sem voru um borð í trillunni. Ég er ennþá í Björgunarsveitinni og er með skápinn minn frammi þar sem ég geymi fötin sem ég fer í þegar það er útkall. Í gamla daga þegar börnin mín voru lítil þá hlupu ættingjar undir bagga svo við hjónin gætum bæði farið í útköll,“ segir Guðbjörg Jónsdóttir.
Mig langar að hjálpa fólki
„Ég var fyrst í skátunum sem lítil stelpa og var ég með þeim fram eftir aldri en byrjaði í Björgunarsveitinni Stakk þegar ég var átján ára gömul en þá var Gugga formaður,“ segir Ragnheiður Ragnarsdóttir og lítur brosandi til Guðbjargar. „Ég er búin að vera í 35 ár í Björgunarsveitinni og í slysavarnardeild Dagbjargar frá stofnun. Mér finnst bara svo gaman að hjálpa náunganum og vera til staðar. Við lærum líka svo mikið þegar við förum í gegnum allar æfingarnar og þjálfunina sem fylgir þessu sjálfboðastarfi. Ég er núna t.d. að hjálpa til við að þjálfa leitarhundinn okkar og það er alveg nýtt fyrir mér,“ segir hún.
Okkur verður að líða vel saman
Þær stöllur í slysavarnardeild Dagbjargar fengu í heimsókn þetta kvöld Daníel Guðna Guðmundsson sem sagði þeim hvernig bæta mætti mannleg samskipti og vellíðan. Hann er íþróttafræðingur og jafnframt íþróttasálfræðingur að mennt og rekur ráðgjafafyrirtækið Heilbrigt hugarfar.
Allir vilja hafa gaman
„Ég sé að það er mjög gaman hjá ykkur hérna en það er einnig mjög áríðandi þegar fólk kemur saman. Fólki líður betur saman þegar allir eru jákvæðir. Við viljum öll vinna á stað þar sem okkur líður vel. Samskipti hafa breyst mikið á síðastliðnum árum og fara meira fram í gegnum tölvur og síma núna sem er þægilegt fyrir þá sem þjást af félagsfælni og kvíða. En það getur stundum valdið misskilningi því manneskjan notar einnig líkamstjáninguna til að gera sig fullkomlega skiljanlega. Blæbrigði og líkamstjáning skipta miklu máli þegar við tölum saman,“ segir Daníel og bendir á að við þurfum að fá að vera við sjálf með öðrum, að fá að sýna hvað í okkur býr en þá verðum við fyrst að finna til öryggis. Okkur verður að líða vel saman til að blómstra.
Taktu stöðu með þér
„Jákvætt hugartal og að taka stöðu með okkur sjálfum er mikilvægt. Við getum verið voða góð við aðra en gleymum svo okkur sjálfum. Góðar minningar geta kallað fram góða líðan. Það vita það allir að jákvæðni opnar fyrir betri samskipti, það er miklu léttara að ná árangri þegar við erum jákvæð. Bros er smitandi. Hrós er hvetjandi. Svo er að virða skoðanir annarra, við erum ekki öll eins,“ segir Daníel með áherslu og bætir við að við getum alltaf byrjað upp á nýtt. Fortíð okkar þarf ekki að endurspegla framtíðina. Við getum breytt lífi okkar með meiri jákvæðni og opnara hugarfari. Þora að stíga út fyrir þægindahringinn, leyfa sér að læra eitthvað nýtt og að taka áskorunum gæti gert lífið okkar skemmtilegra.