Vantaði vettvang til þess að hafa gaman
„Stundum er lífið bara drulluerfitt og ósanngjarnt en maður þarf bara að gíra sig í gang, setja á sig varalit, mæta á staðinn og taka pláss,“ segir tónlistarkonan Fríða Dís Guðmundsdóttir en nýja platan hennar, Lipstick On, kemur 22. júlí. Platan er níu laga popp/rokk plata og er heldur frábrugðin síðustu plötu hennar, Myndaalbúm.
Fríða var í bílskúrsböndum sem unglingur og áhugi hennar á poppi og rokki fór þá að aukast. Síðan þá hefur hún verið að semja sína tónlist fyrir sig og aðra. Fyrsta sólóplata Fríðu, Myndaalbúm, kom út rétt áður en Covid reið yfir heimsbyggðina. Í kjölfarið missti Fríða móður sína og segir hún sorgarferlið hafa verið erfitt á tímum faraldurs: „Það varð til ákveðið rými til þess að vinsa úr tilfinningum og líta inn á við. Það var auðvitað ótrúlega erfitt að geta ekki knúsað vini sína.“
Fríða notar tónlistina til þess að vinna úr og tjá tilfinningar sínar og segist einfaldlega ekki geta lifað án tónlistarinnar eða listsköpunar af einhverjum toga. Hún var að semja aðra plötu þegar Lipstick On varð til og var sú plata hugsuð til að losa um tilfinningar tengdar áföllum og erfiðleikum sem hún hefur gengið í gegnum. „Ég var að semja aðra plötu til að koma þessum tilfinningum svolítið frá mér. Þá samdi ég lag sem heitir Guidelines for Dreamers. Það einhvern veginn passaði ekki inn á þá plötu, það var í raun miklu stærra heldur en ég eða einhver hugmynd um mig. Það varð svo dýnamísk orka og ég leyfði því að flæða, í kjölfarið fór ég að semja þessa plötu sem ég er að fara að gefa út,“ segir Fríða og bætir við: „Ég held að mig hafi bara vantað vettvang til þess að hafa gaman, til að gleyma mér aðeins og bara gera eitthvað skemmtilegt. Ég er ótrúlega stolt af þessu efni og hlakka til að gefa það út.“
Var alltaf staðráðin í að verða söngkona
Fríða Dís segir áhuga hennar á tónlist alltaf verið til staðar en hún telur að heimsmynd hennar hafi stjórnast á hljóðum þar til hún fékk gleraugu. „Ég fékk gleraugu þegar ég varð fjögurra ára og þá kom í ljós að ég sá ekki neitt. Ég held ég hafi þess vegna notað eyrun mikið til þess að „fúnkera“ og þannig hafi mín heimsmynd stjórnast á hljóðum. Þetta fór svo að blandast saman þegar ég fór að sjá línurnar á götunni og svona,“ segir Fríða.
Fríða og bróðir hennar, Smári, hafa unnið mikið í tónlist saman og var platan tekin upp í stúdíóinu hans, Smástirni. „Ég hefði í raun ekki getað tekið upp þessa plötu annars staðar en hjá honum. Hann hefur verið mín hægri hönd í þessum upptökum. Hann er mikið í að peppa mig áfram og það má segja að við klárum setningarnar hjá hvor öðru. Við erum svo náin, vinnum rosalega vel saman og fílum sömu hlutina,“ segir Fríða.
Fríða kemur úr tónlistarfjölskyldu og segir hún að samverustundir með fjölskyldunni hafi oft tengst tónlist. „Tónlistinni var „blastað“ hátt á mínu heimili. Við vorum mikið að spila og syngja saman. Ég átti lítinn míkrafón og var alveg staðráðin í að verða söngkona þegar ég yrði stór,“ segir Fríða.