Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Vann til verðlauna í myndasamkeppni MS
Mánudagur 13. júní 2005 kl. 16:33

Vann til verðlauna í myndasamkeppni MS

Sóley Reynisdóttir, nemandi í 4.HS í Heiðarskóla í Reykjanesbæ, vann til verðlauna í myndasamkeppni Mjólkursamsölunnar, sem var í tilefni alþjóðlega skólamjólkurdagsins sem var fyrr í vetur. Munu verðlaunamyndirnar verða notaðar í kynningarefni MS fyrir skólamjólk.

Allir fjórðu bekkir á landinu tóku þátt í keppninni og hlutu 10 krakkar viðurkenningu fyrir myndir sínar. Formaður dómnefndar var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, en ásamt henni voru Guðlaugur Björgvinsson, MS/MBF, Hildur Ósk Hafsteinsdóttir, skólamjólkurfulltrúi, Hólmgeir Karlsson, Norðurmjólk og Sigurður Mikaelsson, MS/MBF í dómnefndinni.

Bekkur Sóleyjar hlaut í verðlaun 25.000 krónur sem hann notaði í bekkjarferð. Bekkurinn fór saman til Reykjavíkur í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn og í keilu.  Margir foreldrar komu með og var mikið fjör. Lagt var af stað um miðjan dag og byrjað á því að fara í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn þar sem margt skemmtilegt var skoðað, selir, kindur, o.fl. dýr ásamt því sem farið var í vísindaveröldina og nokkur leiktæki.

Eftir að hafa verið í Húsdýragarðinum dágóða stund var brunað í Keiluhöllina í Öskjuhlíð og nemendur gæddu sér á pizzu, sem tók nú ekki langan tíma enda allir vel svangir eftir fjörið og auðvitað voru allir spenntir að byrja í keilunni. Það varð úr mikil og góð keppni þar sem kom í ljós að nemendurnir voru nú bara nokkuð færir í þessari skemmtilegu íþrótt, bara næstum eins og þeir hefðu aldrei gert neitt annað.   Eftir skemmtilegan leik var haldið heim á leið, allir ánægðir með vel heppnaðan dag sem allir eiga eftir að muna lengi.

Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO, hvetur til hátíðahalda á alþjóðlega skólamjólkurdeginum sem haldið er uppá 29. september ár hvert. „Holl mjólk og heilbrigðir krakkar“ var yfirskrift dagsins í fyrra, en verkefnið í keppninni fólst í að teikna mynd að eigin vali. Markaðsnefnd mjólkuriðnaðarins vildi með keppninni vekja athygli barna, foreldra og starfsfólks á mikilvægi mjólkur í daglegu fæði barnanna.

Myndir 1: Sóley ásamt Ástu Katrínu Helgadóttur, deildarstjóra yngra sviðs í Heiðarskóla, og umsjónarkennara sínum Heiðrúnu Björk Sigmarsdóttur. 2: Myndin sem Sóley teiknaði fyrir keppnina. 3: Dómnefndin að störfum.

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024