Vann rúmar 53 milljónir
- Ætlar að kaupa píanó og fasteign
„Ég var rosalega spenntur í tíu mínútur en samt alveg niðri á jörðinni, það þarf meira en þetta til að koma mér úr jafnvægi,“ segir Sigurbjörn Arnar Jónsson, fertugur Keflvíkingur, sem vann rúmar 53 milljónir í Víkingalottói 21. desember síðastliðinn þegar hann lýsir stundinni þegar honum varð ljóst að hann hefði dottið í lukkupottinn. Hann fékk vinninginn greiddan út frá Íslenskri getspá í síðustu viku. Sigurbjörn naut augnabliksins og prentaði út reikningsyfirlit til að eiga og fékk sér tvennutilboð á Domino´s í tilefni dagsins. Hann ákvað að reyna ekki að halda halda fréttunum af stóra vinningnum leyndum. „Það hafa allir verið mjög ánægðir með þetta fyrir mína hönd. Ég bara gat ekki haldið þessu inn í mér. Eftir að ég sagði mínum nánustu frá þessu hefur þetta ekki verið neitt leyndarmál enda engin ástæða til að óttast að aðrir viti af þessu.“
Sigurbjörn er einhleypur og á eitt barn. Hann er bílstjóri hjá Crew ehf. og fer starfs síns vegna oft á Olísstöðvarnar og þar með talið á Básinn í Reykjanesbæ þar sem hann keypti vinningsmiðann. Oft kaupir Sigurbjörn lottómiða á Olísstöðvunum, alltaf sjálfval. Oftast verður Víkingalottó fyrir valinu en líka íslenska lottóið og stundum Euro Jackpot. Yfirleitt kaupir Sigurbjörn tvo miða með jóker en laugardaginn 17. desember ákvað hann að hafa þá þrjá. Eftir að dregið var miðvikudaginn 21. desember las Sigurbjörn frétt á Vísi um að vinningurinn hefði komið á miða sem keyptur var í Básnum. „Ég var bara heima á náttbuxunum og lottómiðarnir úti í bíl og ég nennti varla að sækja þá. Svo hringdi bróðir minn og við fórum að ræða um þetta og hann hvatti mig til að sækja miðana þar sem það voru góðar líkur á að ég hefði unnið.“ Sigurbjörn fór fjórum til fimm sinnum yfir miðana til að fullvissa sig um að hafa unnið. „Ég bara hélt um hausinn á mér og hugsaði: Ég trúi þessu ekki! Svo varð ég alveg rólegur og hringdi í hluta af mínum nánustu.“ Eftir á stóðst hann ekki mátið og skrifaði við fréttina á Vísi að hann vonaði að vinningurinn hefði skilað sér á góðan stað.
Sigurbjörn keyrir áhafnir WOW air og eftir aksturinn að fimmtudagsmorgni 22. desember fór hann að skrifstofu Íslenskrar getspár og beið eftir að þar yrði opnað. Hann geymdi miðana á góðum stað í brjóstvasanum. „Hjá Íslenskri getspá var miðanum rennt í gegnum sams konar vél og gert er í sjoppum og það komu fagnaðarlæti úr henni. Svo fór ég á fund með gjaldkeranum þar sem við gengum frá formsatriðum og mér var tilkynnt að vinningurinn yrði greiddur út fjórum vikum síðar, 18. janúar.“
Vinningshöfum hjá Íslenskri getspá stendur fjármálaráðgjöf til boða en Sigurbjörn afþakkaði hana enda kveðst hann vera umkringdur fjármálasérfræðingum. Á Þorláksmessu sagði Sigurbjörn nokkrum góðum vinum frá vinningnum. Á aðfangadagskvöld gaf hann fjölskyldunni veglegri gjafir en vanalega og sagði þeim svo frá vinningum eftir að pakkarnir höfðu verið opnaðir. Það fyrsta sem Sigurbirni datt í hug að fjárfesta í fyrir sjálfan sig var fasteign og píanó. „Mig hefur dreymt um að eignast píanó í mörg ár og ætla að láta það eftir mér núna.“ Sigurbjörn hefur aðeins leikið á píanó í gegnum tíðina. Hann var við nám í Danmörku í nokkur ár og í skólanum voru bæði píanó og flygill sem hann lék á. Hann er búinn að kíkja við í Tónastöðinni og kynna sér úrvalið. „Ég er mjög hrifinn af „boogie woogie-tónlist“ sem er píanóblús og undirtegund af jazzi. Sá sem aðstoðaði mig í Tónastöðinni er góður píanóleikari og við tókum saman smá dúett og það var mjög gaman.“ Sigurbjörn á íbúð í fjölbýlishúsi og ætlar að selja hana og nýta lottóvinninginn til að fjárfesta í góðri fasteign í Keflavík. Hann segir ekkert annað koma til greina en að búa í Keflavík enda sé hann af þriðju kynslóð Keflavíkinga. Verst er þó að lítið sem ekkert af fasteignum eru í boði þar sem eftirspurn eftir fasteignum á Suðurnesjum gríðarleg um þessar mundir. Sigurbjörn ætlar að staðgreiða eignina og kveðst þakklátur að vera í þeirri stöðu að þurfa ekki að greiða af fasteignaláni í framtíðinni.
Sigurbjörn er einlægur aðdáandi Elvis Presley og því er á stefnuskránni á næsta ári að fara í nokkurra daga ferð til Bandaríkjanna og koma við á Graceland, heimili rokkkóngsins í Memphisfylki.
Á Þorláksmessu keypti Sigurbjörn leikföng og fór með til Fjölskylduhjálpar. Þaðan var þeim komið til barna fyrir aðfangadagskvöld. „Sonur minn fór með mér að kaupa leikföngin og það var mjög góð tilfinning að afhenda þau. Þau hjá Fjölskylduhjálp vantaði einmitt leikföng fyrir jólin. Upphæðin sem ég vann í lottóinu er það há að það er nú ekki annað hægt en að deila henni með öðrum, sérstaklega degi fyrir jól,“ segir Sigurbjörn léttur í bragi.