Vann pláss í New York maraþoninu á hækjum
Brynja Björk Harðardóttir lét gamlan draum rætast.
„Hæ vinir! Verð að deila með ykkur. Ég átti mér draum - að hlaupa New York maraþon,“ segir Njarðvíkingurinn Brynja Björk Harðardóttir á Facebook síðu sinni, en hún hljóp New York maraþonið á dögunum. Erfitt er að fá pláss í hlaupinu og komast miklu færri að en vilja svo að Brynja Björk ákvað að skrá sig í lottóið hjá þeim. Í byrjun ársins reif Brynja Björk vöðvafestu smávegis svo hún gat ekki hlaupið. „Maður er víst ekki 15 ára lengur. Þá fór ég til sjúkraþjálfa en vildi ekki betur til en að ég hrundi niður stigann hjá honum og slasaði fótinn svona rækilega með blæðingu og rifnum liðböndun. Nokkrum dögum síðar fékk ég tölvupóst með þeim gleðifréttum að ég hefði unnið pláss í New york maraþoninu og þá var ég á hækjum. Ég ákvað að gera mitt besta og reyna þrátt fyrir rifin liðbönd. Byrjaði á gönguferðum í júní og svo smátt og smátt að hlaupa. Draumurinn rættist og ég er að springa úr gleði og stolti,“ segir Brynja Björk í samtali við Víkurfréttir.
Brynja Björk hefur búið í Stokkhólmi í 10 ár ásamt eiginmanni sínum og þremur börnum, sem eru fimm, sjö og tíu ára. Hún byrjaði að æfa hlaup vorið 2012 og skoðaði myndbönd frá New york maraþoninu á YouTube og lét sig dreyma. „Þá æfði ég fyrir hálfmaraþon og hljóp það síðan. Tók svo árs frí og byrjaði aftur að hlaupa haustið 2013. Ég fylgdist með Unu Sigurðardóttur úr Njarðvík hlaupa New York maraþon í fyrra og skráði mig þá í rælni í lotteríið hjá þeim. Fékk svo góð ráð hjá Unu. Það er ekki bara hægt að skrá sig í hlaupið þvi plássin eru u.þ.b. 50 þúsund og mörg hundruð þúsund manns sem vilja hlaupa.“