Valdimar syngur í kvöld á fjölskyldudögum í Vogum - fjölbreytt dagskrá
Fjölskyldudagar Sveitarfélagsins Voga verða haldnir hátíðlegir með ýmsum hætti dagana 13.-18. ágúst. Þetta er í tuttugasta og þriðja skipti sem hátíðin fer fram og í boði er fjölbreytt fjölskyldudagskrá. Aðgangur að öllum viðburðum á Fjölskyldudögum er ókeypis. Frítt er í golf laugardag og sunnudag fyrir alla í boði Golfklúbbs Vatnsleysustrandar.
Miðvikudagskvöldið 14. ágúst mun stórsöngvarinn úr Keflavík, Valdimar Guðmundsson og félagi hans úr samnefndri hljómsveit, Ásgeir Aðalsteinsson koma fram og syngja nokkur lög. Þá mun Þorgerður Ása Aðalsteinsdóttir flytja vísur frá norrænum slóðum við eigin undirleik á gítar. Hún hefur stundað söngnám í Tónlistarskóla FÍH og í Norræna vísnaskólanum í Kungälv í Svíþjóð. Svo mun söngfélagið Uppsigling flytja tónlist og leiða söng. Dagskráin hefst í Háabjalla kl. 17 á klettaklifri og kl. 19 verður keppt í drumbakasti.
Viðburðurinn er í umsjón Norræna félagsins í Vogum og Skógræktarfélagsins Skógfells. Gestir grilla spýtubrauð yfir eldi. Gengið úr Vogum eða ekið af Grindavíkurvegi á móts við Seltjörn og er fólk hvatt til að ganga frekar sé þess kostur. Verði veður óhagstætt færist viðburður í Álfagerði að því er fram kemur í dagskrá fjölskyldudaganna.
Meðal fleiri atriða í vikunni má nefna Hverfaleika í golfi, í pubquiz og varðeld í Aragerði. Varðeldur í fjörunni neðan við Stóru-Vogaskóla verður á föstudagskvöld þar sem enginn annar en Ingó veðurguð mætir með gítarinn.
Flugeldasýning verður laugardagskvöld og hátíðin endar á sunnudagskvöld með tónleikum í Tjarnarsal þar sem Pálmi Gunnarsson mun leika kl.20.
Dagskrá fjölskyldudaga í Vogum.