Valdimar er besti söngvari landsins
Um stund fær 9,75 af 10 mögulegum
Andrea Jónsdóttir útvarpskona á Rás 2 segir Valdimar Guðmundsson vera besta söngvara landsins. Hún fjallaði um plötu vikunnar á Rás 2 nú áðan en það er önnur breiðskífa hljómsveitarinnar Valdimar, Um stund.
Um stund sem kom út í síðustu viku er plata vikunnar á Rás 2 þessa vikuna og hefur platan fengið að hljóma óspart á Rásinni undanfarna daga, líkt og heima hjá Andreu.
Andrea telur Um stund vera þemaplötu á vissan hátt, sem hafi nokkuð alvarlegan tón sem þó er rifinn upp inn á milli. Söngvarinn, Valdimar Guðmundsson, fer vel með textana og er einlægur að mati Andreu en hún fullyrðir jafnframt að Valdimar sé besti söngvari landsins. Um stund er í stuttu máli frábær plata og fær 9,75 af 10 mögulegum, segir í frétt á vef RÚV.