Vakning í heilsurækt
Líkamsræktarstöðvar GYM heilsu eru m.a. í Grindavík og Vogum.
„Eldri borgarar er sá hópur sem kemur til með að stækka gríðarlega á komandi árum,“ segir Kjartan Már Hallkelsson hjá GYM heilsu sem er í Grindavík og Vogum.
„Ég kláraði íþróttakennarann frá Laugarvatni 1998 og byrjaði að vinna hjá Svíum í sundlaug Kópavogs. Þá voru þeir að byggja upp fyrirtæki á öllum Norðurlöndunum sem hét Nautilus og var svona keðja af líkamsræktarstöðvum,“ segir Kjartan Már um hvernig hann byrjaði í þessum geira. „Ég keypti mig fljótlega inn í það dæmi, svo stækkuðum við og opnuðum í Suðurbæjarlaug í Hafnarfirði. Við fórum í tíu stöðvar þegar mest var; í Vestmannaeyjum, Selfossi, Grindavík, Hellu og víðar. Þannig að þetta hefur þróast mikið og tekið breytingum á þessum 23 árum. Síðan seldu Svíarnir fyrirtækið til fjárfestingarfélags og við það breyttist nafnið í Actic, 2008 keypti ég ásamt annari fjölskyldu allt fyrirtækið og þá breyttist nafnið í þriðja sinn, varð að GYM heilsa en hefur verið rekið á sömu kennitölu frá upphafi. Í dag rekum við fjórar stöðvar; í Hafnarfirði, Grindavík, Vogum og á Álftanesi.“
– Hvernig gengur þetta?
„Þetta gengur sem betur fer alveg ágætlega, við höfum verið réttu megin við núllið. Við höfum gert þetta á gamla mátann, við skuldum ekki og höfum farið varlega í alla hluti. Það hefur borgað sig – sérstaklega eins og árar núna.“
– Hefur þetta ekki verið erfitt ár?
„Jú, svona fyrir flesta. Þetta er svona allt í lagi hjá okkur, þar hefur verið mikill samdráttur, og verður það líka á þessu ári – en við förum í gegnum þetta.“
Samkeppnin alltaf að aukast
– Er ekki hörð samkeppni í þessu?
„Jú og samkeppnin er alltaf að aukast, fjölbreytnin er að aukast og að sama skapi er markaðurinn að stækka. Það eru alltaf fleiri og fleiri að hreyfa sig. Við erum með ákveðið módel, við erum tengd sundlaugunum og höfum sérhæft okkur í heilsurækt tengdum sundlaugum, höfum unnið með sveitarfélögunum. Það hefur verið mjög farsælt og verið ábótasamt fyrir báða aðila. Við höfum getað boðið árskort á verði sem aðrir geta ekki boðið, innifalið í því að heilsurækt, kennsla á tæki, aðgengi að kennara og sundlaug.
Janus [Guðlaugsson] er með sinn hóp hérna í Grindavík og það hefur gengið virkilega vel. Það er gaman að sjá eldra fólkið koma og efla heilsuna.“
– Finnst þér vera vakning í heilsurækt?
„Já, algerlega – og þessi hópur, eldri borgarar, þetta er sá hópur sem á eftir að stækka gríðarlega á komandi árum. Það er virkilega gott að geta sinnt þessum einstaklingum, þeim líður betur og þetta er þjóðhagslega hagkvæmt en aðalatriðið er að þessu fólki líður betur, andlega og líkamlega. Þú sérð að á hjúkrunarheimili kostar eitt pláss samfélagið fjórtán milljónir á ári, það margborgar sig að hjálpa fólkinu að halda heilsunni eins lengi og það getur. Allir græða.“
Alltaf tilbúin að skoða spennandi tækifæri
– Eru einhverjar hugmyndir hjá ykkur að fjölga stöðvum?
„Við skoðum bara hvað er í gangi hverju sinni. Ef við sjáum spennandi tækifæri þá reynum við að fara í það en annars erum við frekar jarðbundin og viljum hafa hlutina í lagi frekar en að fara út í einhverja áhættu. Það er gríðarleg samkeppni á markaðnum og hún fer frekar vaxandi, margir eru skuldsettir og ég held að þetta tímabil hafi ekki farið vel í þá rekstraraðila. Það þarf ekki mikið til að rugga skuldsettum skútum.“
– Geta einkaþjálfarar og slíkir aðilar verið með kennslu hjá ykkur eða eruð þið algerlega á ykkar vegum?
„Já, við erum á okkar vegum en ef það er áhugi hjá einkaþjálfurum að koma þá er það alveg í boði. Þeir geta þá bara rætt um það við okkur og við gerum samkomulag okkar á milli.“
– Er eitthvað svoleiðis í gangi núna?
„Ekki eins og er, ekki nema Janus og hans hópur, en það geta allir sem vilja fengið þjálfun. Ég sé um það sjálfur og það er innifalið í árgjaldinu. Fólk getur fengið prógram sem hentar því.“
– Ráðleggið þið líka með mataræði og slíkt?
„Við förum ekki mikið út í það – ég er eiginlega hættur því, þetta er svo einstaklingsbundið,“ segir Kjartan Már að lokum.