Útstillingar í glugga verlsana skipta miklu máli
Magdalena Sirrý Þórisdóttir er mikil jólakona og handavinnukennari en hún lærði líka útstillingu og hönnun
Það er skemmtilegt jólalandið sem gleður viðskiptavini, bæði stóra sem smáa, í Krossmóa, Reykjanesbæ. Þetta er ein af þessum jólahefðum sem fólk hefur gaman af að skoða, sérstaklega litlu börnin sem geta staðið heillengi og dáðst að jólasveinunum, það er að segja, ef fullorðna fólkið þarf ekki að flýta sér, gefur sér tíma til að stoppa og anda.
Magdalena Sirrý Þórisdóttir, ávallt kölluð Sirrý, hefur séð um að skreyta anddyri verslunarmiðstöðvarinnar undanfarin tuttugu ár.
Sirrý lærði útstillingu og hönnun en í náminu lærði hún jafnframt sölusálfræði og markaðsfræði. Það er því heilmikil hugsun á bak við hverja útstillingu þegar þú færð faglærða manneskju til að stilla út vörum fyrir þig.
Við hittum Sirrý í smá jólaspjalli í Krossmóa.
Jólaland í tuttugu ár
„Ég lærði útstillingu og hönnun í Iðnskólanum í Hafnarfirði sem er tveggja ára nám en þar lærðum við allt mögulegt sem tengist því að stilla vörum fallega fram. Jólasveinalandið er verkefni sem ég tók að mér í kringum árið 2000, þegar Kaupfélag Suðurnesja hafði samband við mig út af afmæli sem þá var, og hef tekið að mér á hverju ári síðan. Á þessum tíma var hér aðeins Samkaupsverslun og við settum upp lítið jólaland í gamla anddyrinu en var síðan í horninu þar sem skósmiðurinn var. Svo stækkaði verslunarmiðstöðin og jólalandið stækkaði og stækkaði og nú erum við komin hingað í miðjuna. Þetta eru allt jólasveinar í eigu Kaupfélagsins, sumir orðnir yfir 50 ára gamlir, og notaðir voru til útstillingar í gömlu Kaupfélagsbúðunum í bæjarfélaginu. Þú manst kannski eftir þessum hérna sem andaði einu sinni en er nú hættur því, orðinn svo gamall,“ segir Sirrý og brosir um leið og hún bendir á einn gamlan jólasvein sem liggur kyrr á bakinu og sefur, allar rafmagnsleiðslur sjálfsagt bilaðar. Við göngum hringinn í kringum jólalandið og stoppum þegar hún bendir á öldungana í hópnum. Maður sér það dálítið á andlitum þeirra hvað þeir eru sumir gamlir en þeir eru misgamlir.
...Þetta eru allt jólasveinar í eigu Kaupfélagsins, sumir orðnir yfir 50 ára gamlir, og notaðir voru til útstillingar í gömlu Kaupfélagsbúðunum í bæjarfélaginu...
Flottir búðargluggar laða að meiri viðskipti
„Það skiptir miklu máli fyrir verslanir að kynna vöruna sína vel. Þú sérð alltaf þegar verslanir stilla upp vörum með fagmanneskju. Ég sé það. Þegar ég horfi í búðarglugga þá sé ég strax hvernig verslunin hefði betur getað nýtt gluggann til að stilla út vörunum sínum. Fólk áttar sig almennt ekki á þessu og stillir einhverju fram en það er ákveðin hugsun eða þema á bak við hverja útstillingu. Þegar þú ferð til útlanda og sérð glugga í verslunum þar, þá sérðu hvað þetta skiptir miklu máli. Þegar ég fer til London, New York eða annarra borga þá finnst mér gaman að sjá þessar stóru verslanir, hvað þær leggja mikið upp úr útstillingum í gluggum og hversu lokkandi það getur verið að sjá eitthvað fallegt í glugganum. Þú ferð jafnvel inn í búðina vegna vöru sem þú sást úti í glugganum,“ segir Sirrý og blaðakona samsinnir þessu hjá henni og rifjar upp til dæmis gluggana á Strikinu í Köben sem fólk stoppar við til að virða fyrir sér. Þar er allt svo vel framsett. Þetta skiptir máli.
... ég stillti upp fallegu jólaborði í glugganum, skreytti það og notaði þessar skeiðar, stillti þeim upp við hlið matardiskana og þær fóru að rokseljast...
Skeiðarnar rokseldust
„Í Stapafelli þegar ég stillti þar upp í glugga á sínum tíma man ég eftir desertskeiðum sem ekkert seldust fyrr en ég stillti upp fallegu jólaborði í glugganum, skreytti það og notaði þessar skeiðar, stillti þeim upp við hlið matardiskana og þær fóru að rokseljast. Konur komu inn í búðina og báðu um þessar skeiðar sem voru úti í glugganum. Þarna sá maður svo vel sölumátt framsetningar vörunnar í gluggum og verslunum. Það er hægt að gera svo miklu meira þegar verslun er með glugga eða rými til að stilla upp vörum sínum og fær fagmanneskju til að hjálpa sér. Salan getur aukist. Þetta er ljóslifandi dæmi um hvað útstilling getur gert fyrir vöruna sem þú ert að selja,“ segir Sirrý.
Finnst gaman að skapa
Það heyrist á öllu að Sirrý er smekkmanneskja, mjög fær í höndunum og hefur gott auga fyrir hlutunum en er hún ekki einnig lærður handavinnukennari?
„Jú, ég lærði handavinnukennarann á sínum tíma, eitthvað sem heitir í dag textílmennt, og kenndi handavinnu í nokkur ár. Sú menntun hefur breyst mikið. Þegar ég var að kenna þá lærðu börn að prjóna, hekla, sauma út og sauma fatnað í saumavél en nú er þetta í miklu minna mæli þar sem kennslustundum í verklegum greinum hefur fækkað svo að það er ekki eins mikill tími til að kenna börnunum flókið og krefjandi handverk. Ég man þegar ég var tólf ára þá bjó ég til borðrenning, löber, sem ég saumaði út með harðangur og klaustri. Þennan dúk er ég með á borði uppi í sumarbústað og horfi stundum á hann og get ekki alveg ímyndað mér að tólf ára barn gæti þetta í dag en auðvitað vorum við þjálfuð upp í því að gera svona á þeim tíma. Það er hægt að kenna börnum allt mögulegt. Ég prjóna mikið í dag, hekla og sauma og hef því alltaf eitthvað fyrir stafni, sit aldrei auðum höndum. Svo smíða ég í bústaðnum ásamt eiginmanninum en þar er allt meira og minna smíðað af okkur hjónum. Ég hef gaman af því að smíða og smíðaði til dæmis trégirðinguna utan um jólasveinalandið, sem var létt verk. Í útstillingunum þarf maður nefnilega að geta gert nánast allt sjálfur. Svo spila ég golf í frístundum og hef gaman af því,“ segir Sirrý en eiginmanninn, sem smíðar með henni, þekkja sjálfsagt margir en hann heitir Jón Björn og er tannlæknir í Keflavík.
Föndrar með barnabörnunum
„Þegar ég búin að stilla upp jólalandinu hér fyrir Nettó, rétt áður en aðventan hefst, þá byrja ég að undirbúa jólin heima hjá mér. Nú byrja ég að búa til jólakortin sem ég sendi vinum og vandamönnum en þau eru um 90 talsins, hefur eitthvað fækkað en samt ekkert mjög. Mér finnst það skapa jólastemningu hjá mér að búa til jólakortin sjálf og hef alltaf gert. Ég nota til dæmis jólakortin frá árinu áður og bý til ný kort úr þeim eða nota alls konar efni sem ég á bæði pappír, tuskur, tölur og alls konar glingur. Það er gaman að endurvinna og sjá hvað verður úr þeirri sköpun, ekkert jólakort eins. Ég var einu sinni með námskeið heima hjá okkur, í bílskúrnum, þar sem ég kenndi fólki að búa til ný kort úr gömlum og jólamerkimiða. Núna eru það barnabörnin sem koma til ömmu að búa til jólakort og föndra, svo útbúum við jól í skókassa í nóvember. Þá tölum við um að það sé í lagi að gefa dót sem þau ekki nota lengur, ég kenni þeim að vera örlát. Þau fara í gegnum dótið sitt heima og koma með dót sem þau vilja senda börnum úti í heimi sem eiga ekkert. Við eigum saman góðar stundir í kringum þetta hjá okkur, ég og þau.“
Kyrrð og friður um jól
„Vafstrið í kringum jól finnst mér skemmtilegt. Ég hugsa þá til bernskujólanna þegar ég var að alast upp í Hafnarfirði, rétt hjá nunnuklaustrinu. Þegar mamma var að útbúa matinn á aðfangadag kom afi og fór með okkur í kirkju. Ég hef verið svona tíu ára þegar við vinkonurnar fórum að stunda messu hjá nunnunum í klaustrinu á aðfangadagskvöld en þar var kvöldmessa klukkan tíu. Ég man hvað það var mikill hátíðleiki hjá þeim þetta kvöld, það var þessi kyrrð og ró. Við stelpurnar skildum ekkert af því sem sagt var en það var bara svo fallegt að sitja þarna í litlu kapellunni þeirra og finna jólaandann svífa yfir vötnum,“ segir Sirrý og bætir við: „Þetta einfalda líf er svo fallegt og ég sæki meira í það með árunum. Ég fer á jólatónleika þar sem ég á von á þessari kyrrð og ró, til dæmis í Dómkirkjunni í Reykjavík um sexleytið á Þorláksmessu sem er einstaklega jólaleg kirkjustund. Þá er kirkjan oft lýst upp með kertaljósum og nokkrir strengjahljóðfæraleikarar, jafnvel nokkrar söngraddir, sem sjá um tónlistina í rökkrinu. Svona tónleika myndi ég vilja fara á í Keflavíkurkirkju á Þorláksmessu, það væri yndislegt að upplifa þessa tónleikakyrrð þar í þeirri fallegu umgjörð kirkjunnar.“