Útskriftarræða slær í gegn
Svanur Þór Smárason fer fögrum orðum um Háskólabrú Keilis.
„Mig langaði aðeins tala um þá vegferð sem ég og aðrir nemendur Keilis höfum tekist á við síðastliðið ár. Flest erum við svokölluð drop-out sem þýðir að við hættum í framhaldsskóla án þess að ljúka honum. Ég hafði sjálfur prófað marga skóla og var búinn að byrja á mjög mörgu en hafði ekki klárað neitt. Löngunin til að fara í Háskóla var farin að segja til sín og ég þurfti að klára stúdentinn sem fyrst. Ég hafði frétt af Háskólabrú Keilis og fannst það sniðug lausn fyrir mann eins og mig. Stúdentspróf á einu ári, takk fyrir það!,“ sagði Svanur Þór Smárason, í útskriftarræðu sinni frá Háskólabrú Keilis, sl. föstudag.
Svanur Þór hafði ekki farið í skóla í 15 ár og hélt að hann kynni ekki lengur að læra. Hann fer fögrum orðum um Háskólabrú Keils og segir kennarana verulega áhugasama, einbeitta og tilbúna í að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að rétt nemendum hjálparhönd.
Ræðan hefur vakið mikla athygli og mætti Svanur Þór meðal annars í viðtal í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Ræðuna má finna í heild sinni á vefsíðu Keilis.