Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Föstudagur 20. maí 2011 kl. 10:55

Útskriftarhelgin mín „Ég er ein gleðisprengja“

Ósk Jóhannesardóttir er 21. árs stelpa úr Keflavík, hún er eins og svo margir aðrir að útskrifast úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja um helgina. Skólagönguna segir hún hafa verið skemmtilega og fjölbreytta. Hún klárar skólann á fimm árum en hún fór um tíma í Iðnskólann í Hafnarfirði. „Ég hef mikinn áhuga á hönnun svo ég prófaði að fara á almenna hönnunarbraut sem var mjög skemmtilegt að prufa, mig langaði samt að fara aftur í FS og klára stúdentinn.“ Ósk býr hjá mömmu sinni í Keflavík en segist samt líka smá eiga heima hjá pabba sínum sem býr í Reykjavík. 

Ósk hefur verið að vinna í Fjörheimum með skólanum síðustu tvö ár. Það segir hún mjög skemmtilega vinnu, alltaf sé líf og fjör, frábærir samstarfsmenn og svo séu krakkarnir í Rekjanesbæ svo skemmtilegir að hennar mati. Ósk æfir dans í Bryn Ballett akademíunni, m.a Ballett og Jazz og ýmislegt skemmtilegt. „Þetta er svo yndislegur skóli, ég er svo ánægð að hafa byrjað, þetta er akkúrat fyrir mig. Frábær félagsskapur og besti danskennari í heimi, henni hefur tekist að gera mig smá klára í einu, sem er leyndó, en ef þið komið á Vorsýninguna 28. maí mun ég sýna ykkur.“

Ósk verður að vinna sem flokkstjóri í Vinnuskóla Reykjanesbæjar þriðja sumarið sitt í röð núna í sumar. Hún segist ekki geta ímyndað sér betri sumarvinnu, útivera allan daginn með fullt af yndislegum krökkum og ekki skemmir það fyrir hvað allir flokkstjórarnir nái vel saman, það sé bara einfaldlega alltaf gaman. „En síðan er ég líka að vinna kvöldstubba uppá flugvelli hjá IGS í hreinsuninni, prufa eitthvað nýtt og svo ég geti nú örugglega borgað allar skuldirnar mínar eftir útskriftarferðina. Við fórum mjög mörg af okkur sem erum að útskrifast núna með þeim sem útskrifuðust um jólin til Mexíkó í janúar, það var bara gleði útí eitt í tíu daga stanslaust og svo smá ógleði í tvo daga,“ segir Ósk létt í bragði.

Hvernig er stemningin í útskriftarhópnum?
„Þetta er svo frábær hópur. Ég er mjög ánægð að vera útskrifast með þessum krökkum. Við erum búin að ná vel saman öll og allt sem við höfum gert saman er svo skemmtilegt. Ég hvet alla til þess að vera með í dimmiteringunni og síðustu kvöldmáltíðinni og öllu því stússi þegar þið útskrifist, þetta gerist bara einu sinni á ævinni,“ segir Ósk.

Er spennan að magnast fyrir helgina?
„Já, núna er bara spennan eftir. Þetta er samt búið að vera mikið stress meðan prófin voru, ég er svoldið kvíðin, en núna þegar ég veit að þetta er að takast hjá mér er ég ein gleðisprengja. Þessi vika er líka búin að vera einstaklega lengi að líða, bið eftir einkunum og svo auðvitað eftir laugardeginum sjálfum,“ segir Ósk sem hlakkar augljóslega til laugardagsins. „Ég ætla að halda veisluna mína bara heima, langar að hafa svona kósý stemningu, ekkert of hátíðlegt. Ætli það komi ekki rúmlega 50 manns í veisluna, það er allavegana fjöldinn sem mamma er að elda ofaní svo ég vona það nú.“                                                                                                                                                                                                                            

Heldurðu að þú fáir mikið af gjöfum?

„Ég vona nú að ég fái einhverjar sætar og fallegar, annars skiptir það mig svo sem engu máli, að eiga góða stund með fjölskyldu og vinum er meira en nóg. Veit þetta er klisjukennt, en ef þið hugsið um það í alvöru, þá vitiði að það sem er klisjukennt er oft mjög rétt.“

Þegar blaðamaður spyr Ósk að því hvað hún ætli að gera í haust þá er augljóst að hún hefur heyrt þessa spurningu áður. „Þessi spurning sko, hún fer alveg með mann. En ég er ekki alveg viss, kannski vinna áfram eða jafnvel fara í Iðnskólann aftur. Hver veit hvað gerist.“

Helgin hjá Ósk:

„Á föstudaginn ætla vinkonur mínar að koma til mín og hjálpa mér að gera allt tilbúið, mamma mín verður vaktstjóri. Þrífa, baka, elda, skreyta allt þetta verður gert á föstudaginn og síðan um kvöldið ef allt er orðið klárt ætlum við stelpurnar að hafa það kósý, slaka smá á.“

Vonast eftir góða veðrinu

„Á laugardaginn þarf ég að vakna svona um átta eða níu, líklega átta þar sem ég er svo lengi að borða. Fara í sturtu setja hárið í rétta skiptingu, mála mig, klæða mig og gera allt tilbúið. Síðan fer ég að láta gera hárið mitt fallegt og enda svo uppi í skóla klukkan hálf 11 þar sem verður eitthvað stússast til klukkan tvö þegar athöfnin byrjar. Þegar athöfnin klárast fer ég heim og verð orðin stúdína. Vinur minn sem er rosa klár að taka myndir ætlar að taka nokkrar af mér svona fyrst ég var að hafa fyrir því að gera mig sæta og fína og eftir það fara líklega gestirnir að láta sjá sig, við borðum öll saman góðan mat og smá kökur í eftirrétt og síðan verður bara fagnað fram á nótt. Ég vona svo mikið að það verði gott veður, allir að biðja um gott veður, takk.“

„Síðan á sunnudaginn ætla ég að sofa út aðeins og taka því eins rólega og ég get, ég verð samt örugglega ennþá of hyper til að slappa af svo ég veit ekki alveg, kemur í ljós. Þetta verður allavegana mjög góð helgi og líklega ein sú minnistæðasta í lífi mínu, “ segir Ósk Jóhannesardóttir að lokum.


[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024