Útskálahúsið — prestsetur byggt
Prestsetrið sem stendur á Útskálahólnum var byggt um 1890. Þá var Jens Pálsson Útskálaprestur. Hann var jafnframt alþingismaður og hafði viðtæk áhrif í því þjóðfélagi sem þá var. Jens var Útskálaprestur til ársins 1895. Útskálahúsið var á sínum tíma einstaklega myndarlegt og stórt prestsetur. Nánast má telja fullvíst að við byggingu hússins hafi þegar verið sett bárujárn á þak, sem var nýlunda þá. Þegar Útskálahúsið hafði staðið í hálfa öld voru átta torfbæir enn prestbústaðir á landinu, flestir norðan- og austanlands. Þar má nefna prestsetrin að Glaumbæ og Miklabæ í Skagafirði.
Jens tók við prestsembætti að Útskálum af Sigurði Sívertsen árið 1886. Sigurður var burðarás í samfélagi Garðs, Leiru og Keflavíkur um sína daga, alls um 50 ár. Áhrif hans náðu langt út fyrir hefðbundið preststarf. Meðal presta sem bjuggu um árabil í Útskálahúsinu má nefna Kristinn Daníelsson og Eirík Brynjólfsson með fjölskyldum sínum. Síðasti prestur sem bjó alfarið sína embættisdaga í Útskálahúsinu var Guðmundur Guðmundsson og fjölskylda. Séra Guðmundur lét af embætti árið 1986. Prestar sem eftir komu bjuggu í húsinu um skamman tíma. Þegar hér var komið sögu var húsið farið að láta mjög á sjá og stóðst vart kröfur þess tíma sem íbúðarhús. Prestbústaður var í framhaldinu fluttur upp með Útskálavegi í Presthús. Á myndum má sjá að upphaflega var ekki forstofa vestan við húsið og um tíma var kvistur sunnan á húsinu.
Útskálahúsið endurbyggt
Er hér var komið sögu voru áhöld um hvað um húsið yrði. Aldur þess stýrði því að nánast óhjákvæmilegt var annað en að endurbyggja það. Prestseturssjóður hóf það verk með því að láta fjarlægja alla innviði hússins og voru áhöld um hvort svo langt hefði þurft að ganga. Grind hússins er úr viðum sem komu með skipinu Jamestown sem bar að landi skammt frá Höfnum sumarið 1881.
Húsið hefur nú verið í endurbyggingu og gengið á ýmsu með það. Efnahagshrun og fleira borið að. Nú árið 2020 er þannig komið að endurgerð hússins má telja lokið að utan og uppbygging og frágangur innan dyra stendur yfir. Suðurnesjabær er nú eigandi hússins og þess lands sem fylgir staðum.
Jón Hjálmarsson, formaður sóknarnefndar, hefur öðrum fremur staðið að endurgerð hússins um langt skeið. Í spjalli við Jón kom fram að áður en framkvæmdir hófust þurfti að láta fara fram fornleifarannsókn á staðnum. Það var vegna þess að byggt var við húsið viðbygging sem er inngangur og stigahús að norðanverðu. Þetta var kostnaðarsöm rannsókn, sem tafði verkið í upphafi. Jafnframt var aðalinngangur að vestanverðu endurbyggður og stækkaður. Eftir að Prestseturssjóður hafði látið fjarlægja innviðina stóð grindin nánast ein eftir með því ytra byrgði sem þá var. Er hér var komið sögu var ljóst að endurbygging yrði kostnaðarsöm og langvinn. Kom til álita hvort leita skyldi ráða til að húsið yrði rifið.
Fyrir tilstuðlan heimamanna var þó þannig frá gengið að húsið yrði endurbyggt og notkun yrði tengd kirkjustarfi. Nú er endurbygging þannig á veg komin að frágangi ytra byrðist er lokið. Er mikil prýði á staðnum að þeim frágangi. Unnið er að uppbyggingu hússins innan dyra. Milligólf eru uppbyggð og einangrun lokið. Helstu lagnir eru langt komnar, þannig að hiti er á húsinu, en vinna eftir í frágangi raf- og vatnslagna. Gluggar eru frágengnir. Þá er öll veggklæðning eftir. Vinna í kjallara, þar sem verða m.a. snyrtingar og eldhúsaðstaða er komin vel á veg. Hleðsluveggir í undirstöðu hússins eru sýnilegir, fá að njóta sín og setja svip á kjallararýmið. Verklok eru á þessari stundu ótímasett. Helst er unnið út frá því að húsið muni einkum nýtast til alhliða safnaðarstarfs.
Útskálahúsið er nú mikil prýði á Útskálahólnum og er stór hluti af ásýnd Útskálastaðar. Þess má vænta að notkun hússins verið samfélagi Suðurnesjabæjar til góðs stuðnings. Sumarið 2020 er unnið að lagfæringu á landi Útskálastaðar.
Hörður Gíslason