Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Útskáladagur á sunnudaginn
Mánudagur 19. maí 2008 kl. 16:45

Útskáladagur á sunnudaginn

Næstkomandi sunnudag, 25. maí verður Útskáladagur haldinn í annað sinn í Útskálakirkju. Það eru hollvinir Menningarseturs að Útskálum sem efna til menningarveislu í þeim tilgangi að gefa fólki kost á að fylgjast með endurbótum á gamla prestsetrinu og fræðast um framvindu verkefnisins. Með menningarveislu er minnt á þá miklu menningu og menntun sem tengst hefur prestsetrum víðs vegar um landið frá upphafi. Að þessu sinni verður boðið upp á kórsöng, einsöng og frásagnir. Kvenfélagið Gefn í Garði býður kaffi og aðrar veitingar og prestsetrið að Útskálum verður opið gestum og gangandi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á kirkjustaðnum Útskálum er unnið að uppsetningu menningarseturs í gamla prestsetrinu, sem er í endurbyggingu. Í máli og myndum verður saga prestsetranna í mannlífi fyrri alda sett fram. Sú saga á rætur sínar í starfi klaustranna en það færðist að verulegu leyti til prestsetranna við siðaskipti. Saga einstakra kirkna og prestsetra á landinu verður einnig sögð á margmiðlunarformi.

Hollvinir hvetja Suðurnesjamenn og aðra til að njóta menningarveislu að Útskálum og leggja þannig sitt af mörkum til uppbyggingar starfseminnar. Rétt er að taka fram að aðgangur er ókeypis Dagskráin hefst kl. 14:00 með söng Strætókórsins.

Sr. Sigurður Sigurðarson vígslubiskup flytur erindi, Hrefna Eggertsdóttir píanóleikari og Davíð Ólafsson óperusöngvari flytja nokkur lög, Barði Guðmundsson frá Útskálum flytur frásögn og Barnakór Garðs syngur en 25. maí er einmitt Dagur barnsins.