Útlínur litanna í 88-húsinu
-fyrsta myndlistarsýning Stefans Swales opnar á laugardaginn í Reykjanesbæ.
Listamaðurinn Stefan Swales opnar sína fyrstu myndlistarsýningu laugardaginn 6. mars nk. í 88-húsinu, en sýningin ber yfirskriftina Útlínur litanna og er fyrsta myndlistarsýningin sem sett er upp í húsinu. Íris Jónsdóttir sem situr í menningarmálanefnd Reykjanesbæjar mun flytja ávarp við opnun sýningarinnar. Í listsköpun sinni notar Stefán tölvutæknina í stað pensla, en allar myndirnar eru unnar á stafrænan hátt. Stefan Swales fluttist frá Svíþjóð fyrir 5 árum og hefur búið í Keflavík síðan, en hann er lærður prentsmiður. Í viðtali við Víkurfréttir svarar Stefan spurningum um listina og hvernig það sé að koma sér á framfæri í listaheiminum.
Hvað er list í þínum huga?
„List er allt sem er gert til þess eins að vekja upp tilfinningar, hvort sem þær eru góðar eða slæmar. Sumir hrista hausinn og segja um hin og þessi listaverk „Þetta er nú ekki list!“ en kannski var það einmitt það sem listamaðurinn vildi! Versta listin er list sem segir manni ekki neitt - sem skilur ekkert eftir. Því miður finnst mér of mikið um það. Ég hef ekki mjög alvarlegan boðskap í þessum verkum sem eru á þessari sýningu. Ég vil opna augu fólks með því að undirstrika eitthvað fallegt í þessu undursamlega sköpunarverki sem náttúran og lífið er. En það eru ýmsar pælingar í þessum myndaseríum sem áhorfandinn verður bara að reyna að finna út sjálfur.“
Hvaða pælingar eru það?
„Ég sé eitthvað í ákveðinni mynd, sem annar sér öðruvísi og sá þriðji sér kannski ekkert sérstakt við hana. Það finnst mér spennandi. Mér finnst að ef maður er að reyna að teikna eða mála alveg nákvæmlega eins og raunveruleikinn lítur út, þá geti maður alveg eins tekið ljósmyndir. Það getur nefnilega enginn hermt nákvæmlega eftir sköpuninni. Ég vil frekar túlka raunveruleikann á minn eigin hátt og sýna öðrum það sem ég sé í myndinni með því að lyfta því fram á nógu greinilegan hátt. Og ég sé oft eitthvað áhugavert í „symmetríunni“ í myndum og í útlínunum og hlutföllunum í þeim. Í þessum myndum hef ég reynt að hafa áhugaverða „symmetríu“ og hlutföll. Ég er viss um að svo mikið af því sem okkur finnst fallegt eða ljótt sé innbyggt í okkur í formi reglna um hlutföll og „symmetríu“. Þrátt fyrir að ég hafi takmarkað mig við útlínur og samlitaða fleti reyni ég að sýna þrívídd.“
Eitthvað dæmi um það?
„Í fjórðu myndinni í seríunni Fortíðarþrá er lítil stelpa. Hún stendur á kletti. Kletturinn er bara einn flötur, en ef maður horfir á útlínurnar á skugganum af stelpunni sem fellur á klettinn sér maður að þær eru ójafnar. Þá fær maður á tilfinninguna að kletturinn sé í þrívídd.“
Einhverjar aðrar pælingar í þessum verkum?
„Það eru margar hliðstæður að finna milli verka í hverri seríu, en eins og ég sagði áður verða áhorfendur að finna þær út sjálfir.“
Þú notar tölvutækni. Hvaða áhrif hefur stafræn tækni á listina?
„Tækni á ekki að hafa mikil áhrif á list. Listamenn fá hugmynd og framkvæma hana. Til þess nota þeir það sem hendi er næst. Flestir sem hafa séð mín verk vilja vita hvernig ég hef gert þetta. Mér finnst það ekki skipta máli, árangurinn skiptir máli. Fólk almennt hefur ekki ennþá sætt sig við tölvutækni í list. En ég er viss um að næsta kynslóð af listamönnum munu skapa list beint í tölvunni og finnast það alveg eðlilegt. Listaverk er ekkert annað en hugmynd og að leggja hana fram á einhvern hátt. Þegar maður selur list er maður að selja hugmynd.“
Getur maður átt hugmynd?
„Hvers virði er hugmynd? Hvað kostar listin í krónum per kíló? Það er mjög misjafnt. Að sjálfsögðu getur maður skrásett hugmynd alveg eins og maður gerir með vörumerki. Maður getur keypt einkarétt á ákveðnum hugmyndum. Með listaverk er það alveg eins. En verðið er mjög breytilegt og fer eftir vinsældum listamannsins og eftirspurn á markaði.“
Frá hugmynd að veruleika - hvernig lýsirðu því ferli?
„Ég var að hugsa mikið um þetta þegar ég setti þessa sýningu upp. Hvernig selur maður hugmynd sem ekki er búið að framkvæma? Listaverkin sem ég ætlaði að sýna voru í stafrænu formi og í huga mínum - en ég þurfti að selja myndirnar fyrst til að fá peninga svo ég gæti prentað þær. Þetta fannst mér þversögn - því fólk vill þreifa á því sem það ætlar að kaupa. Þess vegna er svo erfitt að selja vörur á Netinu. Ég sýndi fólki myndirnar í tölvunni og reyndi að útskýra þetta. Bjó svo til ljósmynd í Photoshop sem sýndi hvernig þetta myndi líta út uppi á vegg í hlutfalli við mig. Það gerði útslagið.“
Hvernig vekur maður athygli á sér?
„Það er kúnst í sjálfu sér. Eins og með þessa sýningu þá verður maður að mæta með alveg tilbúið koncept. Maður verður að tala við rétta fólkið, koma rétt fram og geta útskýrt hlutina vel. Svo er betra að hafa kynningargögnin tilbúin, fréttatilkynningar, boðskort, sýningarskrá og ljósmyndir af verkunum. Síðan er þetta spurning um tímasetningu. Ég get sagt að það er meira en að segja það að setja upp sýningu sem þessa.“
Hver eru þín framtíðaráform?
„Í listinni er það að þurrka út mörkin á milli þess sem maður skapar í tölvu og þess sem gert er á hefðbundinn hátt. Útlínur litanna er hluti af því. Ég sé fyrir mér að þróa hugmyndina með Cyberlistasafn eða netlistasafn og að skapa list á tölvu sem lítur út eins og hefðbundin list. Á næstunni mun ég halda áfram að teikna. Mér finnst gaman að vinna út frá einhverju þema. Ég er núna að vinna í augum og augnaráðum og vona að það verði sýning til úr því. Mig langar líka að halda sýningar úti í Svíþjóð.“
Myndin: Tölvumynd unnin af Stefani Swales.