ÚTIVISTARÁTAKIÐ HEFST Á BUSABALLI FS Í KVÖLD
Á hverju hausti fer af stað samvinnuverkefni lögreglu, útideildar, Fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar, verkefnið Reykjanesbær á réttu róli og Foreldrafélag grunnskólanna (foreldrarölt) þar sem reynt er eftir megni að aðstoða foreldra við að fara að lögum um útivistartíma barna og unglinga. „Það var ákveðið að Reykjanesbær myndi ekki setja sérreglur um útivist barna og ungmenna, eins og mörg bæjarfélög hafa gert hér á landi, heldur aðeins framfylgja þeim lögum sem í gildi eru“ sagði Stefán Bjarkason tómstundafulltrúi Reykjanesbæjar. „Útivistartímatakmörk barna og unglinga hefur oft verið ásteytingarsteinn hjá fjölskyldum og flestir foreldrar fengið að heyra að allir fái að vera úti, nema börnin þeirra. Þessu átaki er ætlað að hjálpa foreldrum að segja að hr. Allir sé kominn inn, löngu kominn inn. Átakið hefst sem sagt á busaballi Fjölbrautarskóla Suðurnesja og verður athvarfinu komið fyrir í íþróttavallarhúsinu við Vallarbraut í Njarðvík.