Útileikhús fyrir alla fjölskylduna í dag - Rauðhetta sýnd í skrúðgarðinum í Njarðvík
Leikhópurinn Lotta mun sýna nýjustu leiksýningu sína, Rauðhettu í Skrúðgarðinum í Njarðvík í dag. Hefst sýning kl. 18 og þar sem hún fer fram utan dyra er mælst til þess að áhorfendur kl´ði sig eftir veðri.
Verkið er byggt á þremur sígildum ævintýrum, Rauðhettu og úlfinum, Hans og Grétu og Grísunum þremur, en Snæbjörn Ragnarsson skrifaði og samdi lög og tónlist í samstarfi við bróður sinn Baldur og Gunnar Ben.
Þetta er þriðja sumarið sem Leikhópurinn Lotta tekur sig til og setur upp barnasýningu. Sumarið 2007 var hið sívinsæla verk Torbjörns Egners, Dýrin í Hálsaskógi, sett á svið og í fyrra var það Galdrakarlinn í Oz í nýrri leikgerð Ármanns Guðmundssonar.
Miðaverð er óbreytt frá fyrri árum en miðinn kostar 1.500 krónur fyrir fullorðna og 1.000 krónur fyrir börn.
Hópurinn er á ferð um landið með sýninguna og er áætlað að sýna á yfir 50 stöðum um allt land. Nánari upplýsingar um sýningar má finna á heimasíðu hópsins www.leikhopurinnlotta.is.
Mynd: Rauðhetta og úlfurinn