Útgerðardóttir frá Gauksstöðum í þyrlurekstri
Þórunn Sigurðardóttir frá Gauksstöðum í Garði er eigandi og framkvæmdastjóri hjá þyrlufyrirtækinu Heli Austria sem m.a. hefur verið að fljúga með fólk að gosstöðvunum í Geldingadali undanfarna mánuði. Þórunn sem er viðskiptafræðingur og sjúkranuddari að mennt stundar núna nám í MBA við Háskóla Íslands.
Þórunn kemur frá útgerðarfólki á Gauksstöðum og það var gert ráð fyrir því að hún ynni við það, í staðin fór hún i annars konar útgerð. Áður en hún kom til starfa hjá Heli Austria árið 2018 þá sinnti hún svipuðum störfum í Bláa lóninu. Þar hóf hún störf á gólfinu á sínum tíma og vann sig síðan jafnt og þétt upp, í þau ellefu ár sem hún starfaði þar, í sölu- og markaðsdeildina þar sem hún sinnt mest fágætisferðamönnum, þ.e. efnameiri ferðamönnum.
Þórunn býr núna á Kjartansstöðum á Suðurlandinu ásamt sambýlismanni sínum, Axel K. Baldurssyni, og sinnir hrossarækt í hjáverkum.
Eldri konur sækja í þyrluflug að gosstöðvunum
Árið hefur byrjað vel hjá Heli Austria eftir rólega tíð á Covid-tímanum þar sem ein þyrla sinnti þeim verkefnum sem voru í gangi þá. „Við sérhæfum okkur í einkaferðum fyrir efnameiri ferðamenn og þegar mest var að gera þá voru átta þyrlur í gangi í ýmsum verkefnum. Þegar gosið hófst í mars þá hóf fyrirtækið strax reglulegar ferðir að gosinu og hefur það mælst vel fyrir hjá Íslendingum sem hafa verið í meirihluta viðskiptavina.“
Að sögn Þórunnar hefur verið gaman að sjá samsetningu viðskiptavinanna í gosferðunum. „Mikið hefur verið af eldra fólki í ferðunum sem hefur verið í einangrun síðasta árið, fólk sem á erfitt með að ganga og notar jafnvel göngugrind til að komast ferða sinna og eru eðli málsins ekki mikið að stunda útivist. Oft eru það eldri konur sem eru að bóka þessar ferðir og draga með í ferðirnar fjölskyldu og vini. Einnig hefur fólk sem er lamað eða hreyfihamlað að nýta sér þennan ferðamáta til að upplifa gosið og líklegt að það gæti ekki gert það með öðrum hætti.“
Gosið hófst á besta tíma fyrir Heli Austria að mati Þórunnar, ókeypis markaðssetning á landinu og góða innspýting fyrir sumarið sem er venjulega háannatími í þyrluflugi. Núna eru bókanir að berast erlendis frá og tilefni til bjartsýni fyrir framhaldið.
Prinsessa með lífverði í þremur þyrlum
Oft verða til skemmtilegar sögur í ferðaþjónustunni og Þórunn rifjaði upp eftirminnilega þyrluferð sem ónefnd prinsessa fór í fyrir nokkrum árum. „Prinsessan var með það marga lífverði með sér að hún þurfti þrjár aukaþyrlur bara fyrir þá. Hún hafði mikinn áhuga á samfélagsmiðlum og tók því töluvert af myndum og lifandi myndefni á meðan þyrlufluginu stóð. Í einni myndatökunni þar sem hún teygði sig út um gluggann með símann vildi ekki betur til en svo að hún missti hann þegar flogið var í nágrenni Vatnajökuls. Það kom ekkert annað til greina en að finna símann þannig öllum þyrlunum var lent og leit hafin af símanum sem síðan fannst í heilu lagi ennþá á upptöku á mjúkri mosabreiðu.“
Blindir farþegar upplifa og njóta þyrluflugs
Þórunn hefur fengið þó nokkra blinda farþega í þyrluflug sem hafa skemmt sér konunglega og upplifað spennuna og hrifninguna í gegnum samferðarfólk sitt sem hefur útskýrt og sagt frá því sem fyrir augu ber hverju sinni, einnig hefur það tekið þátt í hrifningar upphrópum samferðarfólks þegar eitthvað óvænt og fallegt ber við sjónir.
„Starfsemi Heli Austria er fjölbreytt og sömuleiðis kúnnarnir. Við höfum m.a. farið í ferðir með vísindamenn, kvikmyndagerðarfólk, skíðafólk á Tröllaskagann og ljósmyndara auk þess sem vina- og fyrirtækjahópar hafa nýtt þyrluflug í hvataferðir. Íslensk náttúra er stórbrotin að sjá úr þyrlu og myndefni sem er stöðugt að birtast á samfélagsmiðlum auglýsir fyrirtækið og ferðirnar.
Heli Austria er einnig með þrautþjálfað starfsfólk og allan nauðsynlega búnað til að eiga við sinubruna,“ segir Þórunn.
Framundan hjá Þórunni er að halda áfram að bjóða upp á góða þyrluþjónustu í nýjum þyrlum og markaðssetja landið fyrir innlenda og erlenda ferðamenn.
Texti: Jón Hilmarsson