Útgerð, fiskvinnsla og upplifun fyrir ferðamenn
Nútímalegur og framsýnn rekstur hjá Stakkavík.
Fiskvinnslu- og útgerðarfélagið Stakkavík ehf. í Grindavík var stofnað í mars 1988 af Hermanni Ólafssyni, Gesti Ólafssyni, Ólafi Gamalíelssyni og Benedikt Jónssyni tengdaföður Hermanns. Fyrstu árin framleiddi Stakkavík nær eingöngu í salt og sérhæfði sig í vinnslu á stórum fiski enda allt handflatt og flakað þar sem engar voru vélarnar. Árið 1995 keypti Stakkavík sinn fyrsta bát, sem var Skáley 4-tonna handfærabátur. Nokkru seinna voru bátarnir orðnir 30 talsins, handfæra- og línubátar.
Gestir upplifa vinnslu og framleiðsluferli
Vel var tekið á móti blaðamanni þegar hann mætti í húsakynni Stakkavíkur. Það hitti á morgunkaffi hjá starfsfólki sem sat í matsalnum og var mikið spjallað og hressandi kliður. Eftir það var blaðamanni vísað í sérgerðan hlýlegan sal með mörgum dúkalögðum borðum og stólum. „Hér tökum við á móti gestum sem koma sérstaklega til að kynnast fiskvinnsluferlinu og skoða framleiðsluferlið hjá okkur. Stakkavík haslað sér völl á ferðamannamarkaði því í húsakynnum fyrirtækisins er gestum boðið að upplifa fiskvinnslu og skoða framleiðsluferlið frá því að fiskurinn kemur í hús og þar til hann er tilbúinn til útflutnings í stórum sýningarsal.” segir Hermann Th. Ólafsson, framkvæmdastjóri. Einnig er sýnd DVD mynd úr róðri á Þorkötlu GK-9, sem er í eigu Stakkavíkur, þar sem lína er lögð og dregin. „Myndin er að hluta tekin neðarsjávar þar sem hægt er að sjá viðbrögð fisksins þegar hann er veiddur. Á meðan horft er á myndina er boðið upp á gómsæta sjávarréttasúpu og ýmislegt annað sem tengt er fiskveiðum. Þetta hefur vakið mikla athygli og jákvæð viðbrögð.”
Nútímalegt fyrirtæki
Stakkavík nútímalegt fyrirtæki með allan nýjasta útbúnað bæði til sjós og lands. Það sérhæfir sig nær eingöngu í ferskum fiski til útflutnings, aðallega þorski með roði, roðlausum eða hausuðum. „Eins flytjum við út talsvert magn af steinbít og ýsu með roði eða roðlausa. Allar aukaafurðir af fisknum eru nýttar, þorskhausar gellaðir síðan þurrkaðir ásamt öðrum hausum, einnig öll bein og hryggir nýtt. Hrogn og lifur eru einnig nýtt,” segir Hermann Th. Ólafsson. Helstu viðskiptavinir Stakkavíkur eru frá Bandaríkjunum, Írlandi, Englandi, Belgíu, Sviss og Þýskalandi. Í Stakkavík starfa um 100 manns til sjós og lands.
Tveir öflugir bátar í smíðum
Miklar breytingar verða brátt á flota hjá Stakkavík því tveir öflugir bátar eru í smíðum fyrir útgerðina og verið að breyta tveimur bátum. „Eftir það mun smábátaútgerð fyrirtækisins byggjast á krókabátum af stærri gerðinni. Seigla á Akureyri smíðar bátana, sem eru tveir 30 brúttótonna krókaaflamarksbátar, 5,6 metrar á breidd og mesta lengd um 14,4 metrar,” segir Hermann ennfremur. Stakkavík er stærsta útgerðin í krókaaflamarkskerfinu með 3.112 þorskígildistonna kvóta í upphafi fiskveiðiársins, eða 7,4% af heildarkvóta krókaaflamarksbáta. „Með stækkun bátanna viljum við fyrst og fremst fá meira lestarrými til að hægt sé að ganga betur frá aflanum. Þannig aukast gæðin þegar mikið veiðist,” segir Hermann að lokum.
VF/Olga Björt