Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Útgáfutónleikar Jan Mayen á Paddy´s í kvöld
Fimmtudagur 23. ágúst 2007 kl. 12:07

Útgáfutónleikar Jan Mayen á Paddy´s í kvöld

Hljómsveitin Jan Mayen mun halda útgáfutónleika sérstaklega fyrir Suðurnesjamenn á Paddy´s á fimmtudagskvöldið 23. ágúst. Jan Mayen gaf út sína aðra breiðskífu nýverið og ber hún titilinn ,,So much better than your normal life.” Fyrsta stóra plata Jan Mayen, Home Of The Free Indeed, sem kom út fyrir þremur árum var frábær rokkplata sem vakti verðskuldaða athygli. Nú er arftaki hennar loks kominn segir í fréttatilkynningu.

 

Það var Eberg sem sá um upptökustjórn á So Much Better Than Your Normal Life sem var tekin upp í tveimur áföngum seint í fyrra og snemma á þessu ári. Platan hefur að geyma ellefu lög, en eitt þeirra, We Just Want To Get Everybody High, er þegar farið að 

heyrast á útvarpsstöðvunum. Smekkleysa gefur plötuna út.

 

Tónlist Jan Mayen er gítarrokk, kraftmikið og poppað í senn. Aðalsmerki nýju plötunnar eru melódískir slagarar og skemmtilegt gítarsamspil. Þetta er ekki byltingarkennd tónlist, hljómsveitin sækir áhrif hingað og þangað í rokksöguna (aðallega þó í jaðarrokkið), en útkoman er afbrigði sem er þeirra eigið.

 

Jan Mayen munu ekki troða einir upp en þeir fá til liðs við sig hina kraftmiklu suðurnesjasveit Koju. Koja hefur ekki spilað í dágóðan tíma á heimavelli og segjast ætla að mæta eiturferskir með nýjan liðsmann.

 

Tónleikarnir á Paddy´s eru einnig ágætis upphitun fyrir hið árlega Rockville Festival sem verður haldið 13.-15. september. Undanfarin tvö ár hefur hátíðin verið um Ljósanæturhelgina en skipuleggjendur hafa ákveðið að færa hana tvær helgar aftur. Það er því nóg af rokki á Paddy´s á næstunni.

 

Tónleikarnir hefjast kl. 22:00 stundvíslega í kvöld, fimmtudaginn 23. ágúst, á Paddy´s.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024