Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Föstudagur 6. desember 2002 kl. 14:26

Útgáfutónleikar á Ránni; Gargandi snilld!

Útgáfufyrirtækið Geimsteinn var með útgáfutónleika á Ránni sl. fimmtudag þar sem kynntar voru þrjár plötur sem fyrirtækið hefur gefið út á þessu ári. Mikið fjölmenni var á Ránni og skemmti fólk sér konunglega enda góðir tónlistarmenn sem sáu um að skemmta.Fyrstir á sviðið voru ungir tónlistarmenn úr Keflavík sem kalla sig Rými. Þeir spiluðu fjögur lög af frumburði sínum, Unity, for the first time, sem kom út fyrr á þessu ári. Það er ljóst að þessir strákar eiga eftir að vekja meiri athygli í framtíðinni enda fínir tónlistarmenn. Kröftugir drengir sem spila gott og vel útpælt rokk.
Það voru fleiri sem þekktu trúbadorinn sem næstur steig á stokk, Bjartmar Guðlaugsson, enda kallinn löngu orðinn frægur fyrir skemmtilega texta. Bjartmar lék nokkur lög af nýju plötu sinni, Vor, ásamt nokkrum gömlum og góðum. Bjartmar hefur litlu gleymt og er enn hnitmiðaður og góður textahöfundur. Nýju lögin eru auðveld hlustunar og hitta í mark.
Síðastur á sviðið var kóngurinn sjálfur, Rúnar Júlíusson, í nýjum búningi, án gítarsins og bassans en með hljóðnemann að vopni. Fálkanir og Gálan sáu um undirspil og tóku þeir lög af nýju plötunni, Það þarf fólk eins og þig, sem fengið hefur frábæra dóma. Ef fólk vissi ekki af hæfileikum hljóðfæraleikaranna fyrir þetta kvöld veit fólk af þeim núna, þvílíkir snillingar. Frá fyrstu mínútu átti Rúnni salinn, sem var orðinn þéttsetinn þegar leið á kvöldið. Hann hefur aldrei verið betri og tók sig vel út í hlutverki töffarans með hljóðnemann. Nýji diskur kappans er sá besti hingað til enda er hann með öfluga tónlistarmenn á bakvið sig sem leika af fingrum fram. Að lokum tók Rúnni nokkra gamla slagara og var ekki laust fyrir því að fólki kítlaði í iljarnar enda létu nokkrir sig vaða út á dansgólfið.
Í heildina litið voru þessir tónleikar pottþéttir, góð tónlist og mikil skemmtun.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024