Útför manns í Víkingaheimum sem lést fyrir 1100 árum
Útför fór fram í Víkingaheimum í gær á manni sem lést fyrir 1100 árum. Um er að ræða beinagrind af heiðnum manni. Hann fannst á Hafurbjarnarstöðum árið 1868, ásamt beinum af hundi og hesti, auk sverðs og ýmissa annarra muna. Útförin er hluti af sýningu Víkingaheima, sem mun standa næstu tvö árin.
Að sögn Elisabethar Ward, safnstjóra Víkingaheima, hafa rannsóknir sýnt að allflestir landsnámsmenn Íslands hafi verið heiðnir og að heiðinn siður hafi verið haldinn af fyrstu ættliðum Íslendinga.
„Við erum nú að endurgera kumlið frá Hafurbjarnarstöðum,“ segir Elisabeth. „Beinagrindurnar eru lagðar í trébát, sem er eftirlíking af víkingabát og sandur frá Hafurbjarnarstöðum er settur í bátinn. Sumir telja að maðurinn hafi verið grafinn í bát, en það er ekki alveg ljóst“.
Elisabeth segir að höfðingjar hafi gjarnan verið heygðir í bátum sínum og fór stærð bátsins eftir veraldlegu gengi hins látna.
Meðal gripa í Víkingaheimum er skipið Íslendingur, sem er gert eftir Gauksstaðaskipinu, víkingaskipi sem fannst við Gauksstaði í Noregi. Gauksstaðaskipið var grafið í haug og í því voru bein af manni, ásamt hunda- og hestabeinum. Að sögn Elisabethar er líklegt að Gauksstaðaskipið hafi verið síðasta fley látins manns.
Dagsetning athafnarinnar er einkar heppileg, en árleg Landvættablót Ásatrúarfélagsins eru jafnan haldin þann 1. desember og þá eru jafnan drukkin heill landvættanna.
Myndir: Hilmar Bragi Bárðarson