Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Miðvikudagur 28. febrúar 2001 kl. 10:12

Út í lífið

Krabbameinsfélag Íslands stendur á þessu ári fyrir þjóðarátaki og landssöfnun sem ber heitið Út í lífið en félagið hyggst hafa frumkvæði að því koma á laggirnar ráðgjöf um alhliða endurhæfingu fyrir einstaklinga, sem lokið hafa krabbameinsmeðferð. Landssöfnunin fer fram helgina 2.-4. mars n.k. Sjálfboðaliðar munu ganga í hús og afhendi kynningarbækling og safni peningum í leiðinni. Kiwanis og Lionsmenn verða í samstarfi við deildir Krabbameinsfélagsins út um allt land.

Markvissari endurhæfingaáætlanir
Krabbameinsfélagið mun hafa fimm manna ráðgjafahópur á sínum snærum, sem í verði læknir, sálfræðingar og sjúkraþjálfarar. Hópurinn mun starfa að eftirfarandi verkefnum:
1. Vera ráðgefandi fyrir greiningar- og ráðgjafarstöð Krabbameinsfélagsins.
2. Semja gæðastaðla fyrir andlega og líkamlega endurhæfingu þeirra, sem gengið hafa í gegnum meðferð vegna krabbameins.
3. Leita til sálfræðiþjónustu- og endurhæfingarstöðva varðandi gerð markvissra endurhæfingaráætlana fyrir slíka einstaklinga. Ráðgjafahópurinn metur síðan, með hliðsjón af gæðastöðlum, þær áætlanir, sem lagðar verða fram. Áætlanir, sem stæðust slíkt mat kæmust síðan á lista yfir þær stöðvar, sem ráðgjafastöðin gæti mælt með.
4. Hafa umsjón með því að starfsemi greiningar- ráðgjafastöðvar Krabbameinsfélagsins standist gæðastaðla og að unnt verði að mæla árangur starfseminnar með skipulegum hætti.

Ráðgjöf fyrir fjölskyldur
Að sögn Sigurðar Björnssonar hjá Krabbameinsfélaginu, mynda sálfræðingar, sjúkraþjálfarar og læknar, sem ráðnir verða til Krabbameinsfélagsins, ráðgjafateymi sem vinna að eftirfarandi verkefnum:
1. Veita viðtöl í síma eða í greiningar- og ráðgjafastöð Krabbameinsfélagsins í húsi félagsins öllum þeim, sem greinast með krabbamein og eftir slíku viðtali óska, þeim að kostnaðarlausu.
2. Meta eftir eitt eða tvö viðtöl, hvort þörf sé frekari meðferðar og ráðleggi um val á slíkri meðferð með hliðsjón af lista yfir meðferðarstöðvar, sem staðist hafa gæðakröfur ráðgjafahópsins.
3. Halda nákvæma skrá yfir verkefni stöðvarinnar, sem lúti sömu reglum og gilda um sjúkraskrár.
4. Senda skriflegar leiðbeiningar til einstaklinga varðandi áframhaldandi meðferð þegar slíkar ráðleggingar eru gefnar.
5. Senda bréf til heimilislækna og þeirra annarra lækna, sem helzt hafa sinnt krabbameinsmeðferðinni svo og þangað sem einstaklingnum er vísað til áframhaldandi endurhæfingar.
6. Ráðleggi fjölskyldum eins og kostur er og bendi á meðferðarúrræði innan heilbrigðiskerfisins.
7. Séu stuðningshópum Krabbameinsfélagsins til ráðgjafar og stuðnings.

Aukin þátttaka tryggingakerfisins
„Krabbameinsfélagið mun beita sér fyrir því að almannatryggingakerfið taki aukinn þátt í kostnaði við andlega og líkamlega endurhæfingu einstaklinga, sem lokið hafa meðferð vegna krabbameins og útskrifaðir eru af sjúkrahúsum. Slíkum málflutningi verður auðveldara að fylgja eftir þegar ferli, eins og hér hefur verið lýst verður komið í fastan farveg og tryggt er að raunhæfum gæðastöðlum sé fylgt“, segir Sigurður Björnsson að lokum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024