Public deli
Public deli

Mannlíf

Úr stríðinu í Víetnam í sjoppurekstur í Grindavík
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 28. október 2023 kl. 06:00

Úr stríðinu í Víetnam í sjoppurekstur í Grindavík

Sigldi með átján þúsund tonn af sprengiefni til Víetnam. | Mikil uppgrip í sjoppunni hjá Bangsa þegar vertíðarnar voru í gangi. | Sonur hans startaði pöbbamenningunni í Grindavík.

„Ég væri ekki til afspurnar ef skipið hefði orðið fyrir árás,“ segir Björn Haraldsson, eða Bangsi eins og hann er betur þekktur í Grindavík og víðar. Hann fór ekki hefðbundnu leiðina, var á fraktskipti sem flutti hergöng í Víetnamstríðinu og hóf síðan sjoppurekstur í Grindavík. Bangsi hefur komið að skemmtanahaldi Grindvíkinga og sat um tíma í bæjarstjórn Grindavíkur.

Bangsi er einn fárra Íslendinga sem tók óbeinan þátt í Víetnamstríðinu sem stóð yfir á árunum 1959-1975 en þegar hann var um tvítugt, ákvað hann að flytja til Bandaríkjanna og réði sig á flutningaskip sem sigldi mest fyrir herinn - með hergögn til Víet-nam. „Árni Björnsson, móðurbróðir minn, kallaður Bassi, hafði haldið vestur um haf eftir seinni heimsstyrjöldina til að gerast sjómaður á fraktskipti og ég sá þetta í hillingum og vildi breyta um umhverfi. Þessi frændi minn var kominn í land en vann ennþá hjá Sjómannafélaginu sem var þarna en það var geysilega sterkt, með um 70 þúsund félaga og það félag sá um að ráða alla starfsmenn nema yfirmenn á skipin. Bassi vann við að ráða unga menn sem vildu komast á sjóinn en hann ætlaði fyrst ekki að vilja ráða mig. Ég fór þá í mömmu hans og ömmu mína, áfram var svarið nei en þegar ég var búinn að tala við ömmu hans gaf hann sig loksins og réði mig. Ástæða þess að hann barðist svona á móti þessu var væntanlega sú að hann vissi að siglingarnar yrðu flestar til Asíu á stríðshrjáð svæði og mikil hætta stafaði af því en hann gaf sig að lokum. Oftast var siglt frá New York en stundum líka frá San Francisco á vesturströndinni. Hver sigling tók um þrjá mánuði, bara siglingin í gegnum Panamaskurðinn tók fjórar vikur og við vorum margar vikur úti á sjó með enga landsýn, það gat tekið á. Ástand manna um borð var auðvitað mjög misjafnt, menn kannski að standa í skilnaði og þá var ekki það besta fyrir þá að sjá ekkert land svo vikum skipti. Líklega er fyrsta siglingin sú eftirminnilegasta. Þá vorum við að sigla með átján þúsund tonn af sprengiefni og þurftum að sigla upp á til að komast til Saigon í Víetnam og það er nokkuð ljóst að ef við hefðum orðið fyrir árás væri ég ekki hér til frásagnar og stórt stöðuvatn hefði myndast þar. Þetta er mjög eftirminnilegur tími en það voru alltaf vopnaðir hermenn með í hverri ferð og þegar við nálguðumst strendur Asíu voru þessir hermenn með einfalda skipun, ef einhver óvinveittur nálgaðist skipið ætti að skjóta til að drepa. Við vorum 48 í áhöfn en það kom fyrir að einungis 28 skiluðu sér til baka, hvað varð um hina fréttum við aldrei. Ég myndaði vinskap við einn um borð sem ég held ennþá sambandi við, hann bjó í Chicago á þeim tíma og fékk að ferja bíl á vesturströndina og ég fékk að fljóta með, það var mikið ævintýri að keyra þvert fyrir Bandaríkin. Þessi maður er gyðingur, ég fór eitt sinn með honum til Ísrael, það var mjög eftirminnilegt. Ég var duglegur að skrifa bréf og senda heim, á t.d. um fjörutíu bréf frá fyrstu ferðinni en ég sendi þau til foreldra minna og pabbi merkti þau öll með rómverskum tölustöfum, þetta á ég enn þann dag í dag. Það gekk mikið á í þessum ferðum og í raun má ég vera guðslifandi feginn að vera til frásagnar í dag. Ég fór fyrir nokkrum árum með Teresu yngstu dóttur mína til New York þar sem West point herskólinn er. Þar er grafreitur allra þeirra fjölmörgu sem féllu í Víetnamstríðinu, Teresa fór í mikla geðshræringu þegar hún skynjaði alvöruna sem þarna var í gangi.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Amor hittir Bangsa

Þegar Bangsi var á milli túra bjó hann í ferðatösku má segja, á hinum og þessum  hótelum og farfuglaheimilum í New York og eftir nokkur ár, kynntist hann konunni sinni, Guðnýju Hallgrímsdóttur en hún hafði ráðið sig í jafnráðningu [au pair] hjá gyðingafjölskyldu sem bjó í New York. Alltaf þegar Brúarfoss kom í land í New York, var saltfiskur í hádeginu á föstudögum og eftir eitt hádegið voru allir að fara upp á bar á Manhattan þar sem Íslendingar héldu mikið til, þar mættust augu Bangsa og Diddu eins og hún er jafnan kölluð, í fyrsta sinn. „Didda var ein heima á þessum tíma því fjölskyldan sem hún vann hjá fór í skíðaferðalag. Hún bauð mér í mat og síðan þá hef ég verið hjá henni, það má segja að þetta hafi verið ást við fyrstu sýn. Um það leyti sem við kynntumst vantaði mig 30 daga til að vera orðinn fullgildur háseti um borð en munurinn á kjörum var ansi mikill ef maður komst yfir ár á sjó. Ég náði að fara stuttan túr til Evrópu svo ég kæmist yfir þann þröskuld en svo átti þessum kafla að vera lokið og við Didda sigldum heim til Íslands með Brúarfossi. Mig grunar að þar hafi elsti sonur okkar, Árni Björn, komið undir. Við komum heim en þar sem kaupið hafði hækkað svo mikið en ég var með þreföld laun á við félaga mína sem voru að vinna hina og þessa vinnu á Íslandi, ákváðum við að ég myndi fara annan túr og eftir á að hyggja var það fullkomið ábyrgðarleysi! Árni fæddist svo og við fluttum aftur út og vorum í tvö ár en ég gat skipt um starf og réði mig á snekkju sem útgerðin átti. Hún var reyndar meira og minna bundin við bryggju allan tímann en svo fundum við hvernig Íslandstaugin togaði og þar með lauk þessu ævintýri í Ameríku,“ segir Bangsi.

Báran

Bangsi er fæddur og uppalinn í Reykjavík, nánar tiltekið í 101 hverfinu og gekk þar í gegnum grunn- og gagnfræðaskóla og lærði húsgagnasmíði um tíma. Hann sá ekki fyrir sér í æsku að hann ætti eftir að setjast að í Grindavík en pabbi hans hafði komið auga á tækifæri þar og var kominn með annan fótinn í Grindavík þegar Bangsi sneri aftur til Íslands. Haraldur pabbi hans hafði fest kaup á sjoppu sem hét Bára en hana stofnuðu hjónin Hjalti Magnússon og Petra Guðrún Stefánsdóttir, í kringum 1965. Á þessum árum voru rúmlega þúsund íbúar í Grindavík en þeim fjölgaði mikið yfir vertíðina og Bangsi kom fljótlega inn í reksturinn með pabba sínum þegar var sem mest að gera. „Það voru viðbrigði að koma úr milljóna manna borginni New York til sjávarþorpsins Grindavíkur haustið 1970 en það var strax mjög mikið að gera í sjoppunni. Við tókum við góðu búi Hjalta og Petru, þau höfðu verið með vinnufatnað og sjoppu. Á vertíðinni voru rúmlega hundrað bátar sem lönduðu í Grindavík svo það gefur auga leið að erillinn var mikill. Fljótlega opnaði svo Festi og þá voru böll bæði kvöld allar helgar, það var svo sannarlega líf og fjör í Grindavík á þessum árum. Við vorum bókstaflega að moka inn peningum á þessum tíma og þetta er auðvitað fyrir tíma korta, fólkið fékk borgað með ávísun og þær keyptum við gegn því að viðkomandi verslaði karton af sígarettum eða eitthvað og svo þurfti að skipta þessu í Landsbankanum sem þá var bara opinn þrjá daga í viku í nokkrar klukkustundir í senn. Það er fyndið til þess að hugsa að nú er opnunartími bankanna að minnka aftur, bara opið frá tíu til þrjú svo þetta fer greinilega allt í hringi. Við feðgarnir vorum saman í þessum rekstri í nokkur ár en svo keypti ég pabba út einhverjum árum síðar en hann féll frá sama ár og Ingi sonur minn fæddist, árið 1979 og ég rak Báruna allt fram til ársins 2007. Þegar pabbi keypti Báruna var sjoppan bara í litlum kofa má segja. Ég og Gísli bróðir sem flutti sömuleiðis til Grindavíkur á þessum árum, vorum báðir smiðir og við byrjuðum hægt og bítandi að stækka húsnæðið, sem á endanum varð um 1000 fermetrar í heildina í kringum 1980. Þá var sjoppan komin á sinn lokastað en þar sem Báran hafði upprunalega byrjað, líklega í kringum 1965, reis svo pöbb þegar bjórbanninu var aflétt árið 1989. Árni Björn, elsti sonur okkar setti Hafurbjörninn á stofn en staðurinn er sveipaður dýrðarljóma í huga margra Grindvíkinga en fram að þessum tíma hafði ekki verið neinn pöbb í Grindavík. Ég leigði næstu bil, t.d. hafa nuddhjónin Brynjar Pétursson og Svanhildur Káradóttir  alltaf verið með sína nuddstofu þar og um tíma var hárgreiðslustofa í einu bilinu. Þetta voru skemmtilegir og eftirminnilegir tímar, ég held ég hafi veitt mikla sálfræðiþjónustu á þessum tímum og þáði hana sömuleiðis, maður kynntist ótal mörgum litríkum karakterum á þessum árum en þessu ævintýri lauk svo eins og áður segir árið 2007.“

Heldri árin

Eftir að Bangsi seldi Báruna tók hann um tíma við rekstri gamla Hafurbjarnarins sem þá hét Kanturinn og um tíma kom hann að bæjarstjórnarmálum Grindvíkinga en hvað er svo eftirminnilegast? „Ég taldi mig vera setjast í helgan stein þegar við seldum Báruna en ég kann illa að vera aðgerðarlaus. Fljótlega var ég kominn með börnunum mínum í rekstur á gamla Hafurbirninum sem þá hafði skipt nokkrum sinnum um nafn hjá nýjum eigendum, hét orðið Kanturinn þegar við rákum staðinn en það var fínt að loka þeim kafla líka árið 2016. Svo bauðst mér að fara á lista hjá Frjálslynda flokknum fyrir bæjarstjórnarkosningarnar árið 2006, ég hlaut kosningu og var því í bæjarstjórn Grindavíkur frá 2006-2010. Það var afskaplega skemmtilegur tími, Sr. Jóna Kristín Þorvaldsdóttir var bæjarstjóri um tíma, mér fannst mjög gott að vinna með henni en ég hafði verið meðhjálpari hjá henni í Grindavíkurkirkju í tuttugu ár. Eins og ég segi, það fór mér ekki vel að gera ekki neitt og verkefnin einhvern veginn komu til mín. Í dag búum við Didda í Grindavík en eigum áfram Auðsholtið austur í hverfi og rekum þar gistiþjónustu [airbnb] þegar við erum ekki þar sjálf. Til dæmis er árvisst hjá okkur að bjóða afkomendum í kjötsúpu þegar réttað er en Auðsholtið er við réttina í Þórkötlustaðarhverfi. Ég fer í sund á hverjum einasta degi, líklega 361 daga á ári og og ætla mér að njóta heldri áranna. Mér finnst gott að búa í Grindavík, mér finnst frábært hvernig staðið hefur verið að hafnarmannvirkjum í gegnum tíðina og verð að minnast á Margréti Gunnardóttur í þeim efnum, hún var í minnihluta á sínum tíma í bæjarstjórn Grindavíkur en hafði mjög mikil áhrif á að nýjustu varnargarðarnir voru byggðir í gegnum störf sín í hafnarnefnd Grindavíkur. Við sjáum í dag þegar botnfiskvinnslan er að færast austur af fjörðum til Grindavíkur, hvað það skiptir okkur ofboðslega miklu máli að hér sé góð hafnaraðstaða, hún er undirstaða velmegunar okkar Grindvíkinga,“ sagði Bangsi að lokum.

Svipmyndir úr Bárunni í Grindavík frá gamalli tíð.