Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Úr skipstjórn í kvikmyndaleik
Sunnudagur 29. september 2013 kl. 07:00

Úr skipstjórn í kvikmyndaleik

Oddur Sæmundsson er einn af kunnustu aflaskipstjórum Suðurnesja. Hann hefur nú sagt skilið við skipstjórastólinn um stund og gerst leikari en þá aðallega í aukahlutverkum. Nýjasta verkið sem Oddur tekur þátt í er auglýsing frá Símanum. Þar bregður hann sér í hlutverk Jay Leno í The Tonight Show. Annar Keflvíkingur, Davíð Guðbrandsson, leikur einnig í auglýsingunni þar sem sögð er saga af hljómsveitinni Coldplay.

„Það var bara haft samband við mig og ég beðinn um að taka þátt í þessu verkefni og ég sló til,“ segir Oddur, sem er ekki að vinna við kvikmyndagerð í fyrsta skipti. Á síðasta ári starfaði hann í margar vikur með ekki ómerkari manni en Ben Stiller að framleiðslu kvikmyndarinnar The Secret Life of Walter Mitty.

Þar var Oddur með skip sitt, Stafnes KE, í stóru hlutverki í myndinni. Þá mátti Oddur safna miklu skeggi eins og reyndar öll áhöfnin. „Við vorum allir eins og villimenn,“ segir Oddur og hlær. Honum er ekki kunnugt um hvort honum bregði fyrir í kvikmyndinni sem verður jólamyndin í ár og á hvíta tjaldinu í Bandaríkjunum 25. desember.

Oddur er bara í landi þessa dagana en Stafnes KE er hins vegar í verkefnum við olíuleit norðan við Svalbarða. Þar er skipið til aðstoðar stærri olíuleitarskipum og fylgist m.a. með ísröndinni og tekur sjávarsýni og ýmislegt annað. Skipið verður í þessu verkefni í 3 mánuði að þessu sinni en framundan er vinna næstu 2-3 árin við olíuleit sem skipið á möguleika á að taka þátt í.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024