Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Úr körfuboltanum í hjálparstarf í Afríku
Húni ásamt dóttur sinni, sem heitir Evey Eydal Húnfjörð.
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
fimmtudaginn 25. júlí 2019 kl. 09:14

Úr körfuboltanum í hjálparstarf í Afríku

Það er ekki á hverjum degi sem maður hittir ungan mann eins og Húna Húnfjörð, sem brennur fyrir því að hjálpa munaðarlausum börnum í Afríku. Hann fékk löngun, aðeins átta ára gamall, til að hjálpa hungruðum börnum. Við hittum unga manninn að máli sem lætur sig ekki aðeins dreyma um að framkvæma hlutina heldur lætur verkin tala og leitar nú eftir fleirum sem vilja hjálpa til í litlu þorpi í Kenía.




Langaði að hjálpa öðrum

„Þegar ég var átta ára þá langaði mig að hjálpa hungruðum börnum í Afríku að veiða fisk en ég vildi frekar gera það en að senda þeim fisk. Svona hugsaði ég sem lítið barn og var ósköp eðlilegur krakki en beit þetta í mig og nú mörgum árum seinna snýst líf mitt að mörgu leyti um að hjálpa munaðarlausum börnum í Keníu og styðja þau meðal annars til mennta og margt fleira,“ segir Húni sem spilaði körfubolta með Keflavíkurliðinu og ÍR á árum áður. Hann fór í háskólanám til Bandaríkjanna á fullum styrk og nam viðskiptafræði og kenndi síðan viðskiptafræði í nokkur ár við Háskólann á Akureyri. Í dag er hann með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum en allt þetta nýtist honum þegar hann er að byggja upp líf munaðarlausra barna í Afríku, verkefni sem hann langar að fari á flug núna með aðstoð fleiri aðila.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvernig fannstu þetta þorp í Afríku?

„Það var árið 2016 sem ungur maður skrifar mér á facebook. Við áttum sameiginlega vini en ég á nokkuð marga erlenda vini vegna veru minnar í Bandaríkjunum og á ferðalögum mínum um allan heim undarfarin ár til að sækja námskeið og fá þjálfun af ýmsum toga. Þessi maður segir mér að hann og kristin fjölskylda hans séu með tíu börn á munaðarleysingjahæli sem þau reka heima hjá sér en foreldrar hans eru bæði prestar. Ég var tortrygginn í fyrstu og ákvað að prófa hann til að athuga hvort hann væri að segja mér satt. Hann spurði mig hvort ég gæti sent peninga svo hann gæti keypt úlpu handa þessum tíu börnum en þarna kólnar mjög yfir veturinn. Ég sagði honum að ég myndi aldrei senda honum pening heldur vildi ég frekar senda það sem hann vantaði og í þessu tilfelli voru það úlpur en sagðist vilja sjá ljósmyndir af börnunum í úlpunum. Ég var nú ekki alveg á því að senda honum pening strax að óreyndu enda með varann á mér og ákvað að prófa hann. Svo sendi ég honum skilaboð eftir tvo mánuði og spurði hvort hann væri búinn að fá úlpurnar sem ég sagði honum að ég hafði sent en ég var ekki búinn að senda neitt frá mér. Ef hann hefði sagt já þá hefði ég lokað á þennan mann því þá vissi ég að hann væri svikari en hann svaraði nei og sagðist ekki vera búinn að fá neitt frá mér. Þá ákvað ég að senda honum pening fyrir tíu úlpum að andvirði 10.000 krónur. Stuttu seinna fékk ég senda ljósmynd af börnunum í úlpunum og miklar þakkir fyrir gjafirnar. Eftir þetta hef ég fætt og klætt barnahópinn sem nú eru orðin 35 talsins en allt eru þetta munaðarlaus börn. Foreldrar stráksins eru með honum í þessu verkefni en ég ákvað að koma að þessu verkefni með þeim og fór í heimsókn í nóvember 2018 í þetta litla þorp í Keníu, skoðaði allar aðstæður og leist vel á. Mér fannst mjög gaman að koma og hitta fólkið og krakkana sem ég hafði verið að styðja. Börnin voru nánast mállaus á ensku en samt gátum við náð saman. Sú heimsókn kveikti enn frekar á áhuga mínum,“ segir Húni.



Vill gera heiminn betri

Húni Húnfjörð hefur mikinn áhuga á manneskjunni og hvernig hægt sé að byggja upp sjálfstraust og styrk. Hann hefur sjálfur sótt allskonar námskeið í gegnum árin á sviði jákvæðs hugarfars og fengið uppbyggjandi þjálfun hjá erlendum andlegum leiðbeinendum. Hann langar að miðla þessu til barnanna í Afríku svo þau geti hjálpað sér sjálf í framtíðinni.

„Ég vil gera heiminn betri og veit að við getum gert betur. Staðan er þannig að ég vinn í samstarfi við þessa fjölskyldu að uppbyggingu á svæðinu. Ég keypti jörðina við hliðina á þeirra en það er mjög sjaldgæft að útlendingar fái að kaupa land þarna en mér var treyst. Munaðarleysingjahæli er til staðar þarna, þar sem börnin eiga heima núna en það er þröngt enda eru þau inni á heimili fjölskyldunnar sem ég er í samstarfi við. Við viljum byggja sér húsnæði fyrir þau og skóla. Það er mun meira frelsi þarna til þess að skapa það skólaumhverfi sem við viljum. Í Keníu má ég byggja eins og ég vil og kenna eins og ég vil. Skólaganga fyrir þessi börn er möguleg vegna verkefnis okkar. Ég vil þjálfa börnin í að verða sterkir einstaklingar, frumkvöðlar og leiðtogar í framtíðinni. Ég vil kenna þeim á þann hátt að það verði. Þau munu læra allt sem hefðbundnir skólar kenna nema þau fá einnig einstaklings valdeflingu svo þau verði sterkir einstaklingar,“ segir Húni.

Skólinn mun efla nemendur á margan hátt

„Ég er hugsuður og veit ég er á undan samtíð minni en ég brenn fyrir þessu verkefni, að fá að hjálpa þessum börnum og langar að fá fleiri til liðs við okkur. Ég vil planta fræi sem verður að tré fyrir næstu kynslóð. Mig langar að vekja athygli á verkefninu og bjóða fólki og fyrirtækjum að taka þátt. Við erum byrjuð að búa til múrsteina fyrir fyrstu bygginguna sem verður með baðherbergi, þvottahúsi, einu herbergi fyrir kennara og svefnloft fyrir krakkana. Í stóra rýminu í fyrstu byggingunni verður aðstaða til að kenna á tölvur og vinna alls konar verkefni og horfa á skjávarpa. Stórt eldhús verður til að elda ofan í alla krakkana og matsalur. Í dag er allt eldað á moldargólfi og engin matsalur. Við erum einnig búin að setja saman söfnun til að bora fyrir vatni fyrir skólann og ætlum að gefa öllum vatn sem þurfa á að halda í umhverfinu í kringum skólann, því það er eitt af þeirri hugmyndfræði sem skólinn okkar stendur fyrir, að gefa aftur til samfélagsins. Vegna viðskiptafræðimenntunar minnar geri ég áætlanir og veit hvað þetta kostar allt saman. Foreldrar vinar míns segja að ég sé bænasvar þeirra því verkefnið fór verulega á skrið eftir að ég kom að því. Í skólanum sem við erum að byggja munum við kenna þeim ensku og swahili, stærðfræði, verkfræði, forritun, markaðssetningu, vöruþróun, heilun, jóga, hugleiðslu, öndun, núvitund, kælingu, sjálfstyrkingu, fjármálalæsi, grafíska hönnun svo eitthvað sé nefnt. Einnig erum við með dýr sem þarf að sjá um og þar koma börnin að. Nú viljum við bjóða fyrirtækjum að koma og verða styrktaraðilar að þessu skemmtilega verkefni, þannig að ég geti farið aftur til Keníu til að reisa skólann með þeim og byrjað að kenna sjálfur. Því fleiri sem koma að verkefninu, því fyrr getum við byrjað að byggja, að kenna og þjálfa fleiri kennara. Við bjóðum fyrirtækjum að koma að verkefninu með því að styrkja okkur mánaðarlega. Ef vel gengur þá getum við byrjað að kenna í byrjun næsta árs, árið 2020,“ segir Húni og bendir á söfnunarreikning sem félagasamtökin Skólinn Jabez í Keníu heldur utan um með kennitölu 470119-0200 og reikningsnúmer 0142-15-020037. Við getum sent greiðsluseðla beint í heimabanka þeirra sem vilja styrkja eða tekið á móti einstökum styrkjum inn á bankareikning okkar,“ segir Húni.

Hvað mun kosta að byggja skólann?

„Áætlun okkar gerir ráð fyrir að þetta muni kosta um 15 milljónir íslenskar krónur, það er að byggja húsin og allt sem þarf innandyra, rafvæða með sólarrafhlöðum, fá aðgang að hreinu vatni og fráveitu sem framleiðir metangas. Það verður grænt tún í miðjunni sem við notum sem aðstöðu til kennslu utandyra. Þegar allri byggingarvinnu lýkur, áætlum við að við þurfum á milli 200.000 til 300.000 kr. á mánuði til að viðhalda svæðinu, kaupa mat og nauðsynjar fyrir skólann. Þarna reiknum við með að geta hýst 50 börn, fætt þau og klætt og menntað þau. Það er allt mun ódýrara í Keníu en hérna á Íslandi og þess vegna er hver króna mun meira virði þar,“ segir Húni.

Af hverju er þetta ekki kennt í skólum?

Í bæklingi frá Húna vegna verkefnisins stendur eftirfarandi:

„Þekkir þú einhvern sem hefur klárað skólagönguna og þá fyrst hefur viðkomandi farið að læra eitthvað sem skiptir máli í lífinu? Ég er einn af þeim. Ég, Húni Húnfjörð, kláraði viðskiptafræðinám í Bandaríkjunum árið 2002 og tók svo meistaragráðu við Háskólann á Akureyri í alþjóðaviðskiptum árið 2009. Það var nú samt ekki fyrr en árið 2012 þegar ég fór að læra frá þjálfurum um allan heim, sem voru búnir að áorka merkilegum hlutum í lífinu, að ég fór að læra eitthvað að gagni. Þegar ég læri eitthvað nýtt í dag sem nýtist mér í lífinu, þá spyr ég alltaf ; Af hverju er þetta ekki kennt í skólum?“



Dæmisögur úr starfinu í Afríku


„Einn daginn ákvað ég að kenna krökkunum reiki heilun og tók það um það bil 15-20 mínútur að útskýra fyrir þeim hvernig við hjálpum öðrum að heila sig. Svo næsta dag var ég að horfa á krakkana spila fótbolta þegar einn drengurinn datt og meiddi sig svo illa á hnénu að hann gat ekki staðið upp. Ég ákvað að bíða átekta og sjá hvað krakkarnir myndu gera fyrir hann og var þá að hugsa um heilunina sem ég hafði kennt þeim. Þegar krakkarnir sáu að ég var að horfa á þau, mundu þau eftir kennslunni deginum áður, hlupu að drengnum og lögðu öll hendur yfir hnéð á honum. Eftir um það bil 30 sekúndur, stóð drengurinn upp án þessa að haltra. Ég vissi að börn eru öflug en þetta kom mér samt skemmtilega á óvart. Annan daginn var ég að vinna með þeim í sjálfstyrkingu. Ég bað þau að koma inn á mitt gólfið og spurði þau hvernig þau ætli að breyta heiminum þegar þau yrðu eldri. Þarna stóð Cynthia og hvíslaði að hún ætlaði að gera það með því að verða kennari. Ég heyrði ekki hvað hún sagði og spurði aftur. Eftir nokkur skipti voru krakkarnir farnir að hvetja hana til að tala hærra og loks sagði hún hátt og skýrt að hún ætlaði að verða kennari. Þá bað ég hana að sýna mér hvernig hún mun bera sig þegar hún er orðin kennari. Hún byrjaði þá að ganga um gólfið, með hangandi haus, axlirnar niðri og bogið bak. Ég sagði henni að nú væri hún orðinn kennari sem væri að breyta heiminum til hins betra, frábær kennari og börnin sem hún væri að kenna væru svo þakklát fyrir hana. Þá rétti hún úr sér, tók stærri skref og brosti. Hún gekk um gólfið eins og þetta væri nú þegar búið að gerast. Þvílík breyting sem varð á henni á þessum stutta tíma. Henni leið vel með sjálfa sig eftir að fá að upplifa sýnishorn af framtíð sinni. Næstu daga, var hún allt önnur, glaðari og stoltari en hún hafði áður verið. Árið 2017 fundum við þessa sömu Cynthiu á götunni og engin vildi neitt með hana hafa. Hún var yfirgefin af foreldrum sínum sem lítið barn og hafði verið á götunni í nokkurn tíma áður en við fundum hana og tókum hana inn í fjölskylduna okkar hjá Jabez. Í dag gengur hún um eins og sigurvegari og hlakkar til að byrja að breyta heiminum til hins betra,“ segir Húni Húnfjörð.