Úr hruni í himinbláma
Af þeim fjölda fólks sem hefur flutt af landi brott síðustu ár í leit að betra lífi, hefur stór straumur legið til Noregs. Í þeim hópi eru hjónin Guðrún Eiríksdóttir og Halldór Halldórsson en þau fluttu sumarið 2009 ásamt tveimur börnum sínum og tveimur fósturbörnum frá Reykjanesbæ til Indre Kvarøy í Norður-Noregi.
Guðrún er fædd í Keflavík og uppalin í Vogunum. Hún greindist með sjaldgæfan sjálfsofnæmissjúkdóm en þá bjó fjölskyldan á Ólafsfirði og varð þess vegna að flytja aftur suður. Hún var byrjuð í sjúkraliðanámi áður en þau fluttu út en er nú í fjarnámi við Háskólann á Bifröst í viðskiptafræði með áherslu á markaðsmál.
Halldór er fæddur og uppalinn í Keflavík en Akureyringur að ætt og uppruna. Hann hefur langa reynslu af fiskvinnslu og hefur haft með höndum framleiðslustjórn á Íslandi og Spáni, og nú síðast í Noregi.
Guðrún og Halldór eiga tvö börn, Aron Inga 12 ára sem er ættleiddur frá Indlandi og Sóldísi Eyju sem er 11 ára. Hjónin hafa verið starfandi fósturforeldrar um nokkurt skeið og með þeim til Kvarøya fluttu tvö börn á unglingsaldri, strákur sem var í skólanum á staðnum og stúlka sem var búin með grunnskólann og fór að vinna. Hann fann sig ekki og fór aftur til Íslands en stúlkan var áfram í Noregi. Ári eftir að þau fluttu út tóku þau svo að sér tveggja ára stúlku í Noregi sem hefur búið hjá þeim síðan. Vegna ákvæða í fóstursamningi má stúlkan ekki koma fram í fjölmiðlum og því ekki meira um það mál fjallað hér.
Á Kvarøya bjó fjölskyldan í þrjú ár en tók sig svo upp síðasta sumar og búa þau nú í Jessheim, sem er þéttbýliskjarni skammt frá Gardermoen flugvelli við Oslo.
EINS OG Í HIMMELBLÅ
Fjölskyldan bjó uppi á Ásbrú og Guðrún var í skóla, að læra sjúkraliðann og Halldór var að vinna hjá JRJ í Reykjanesbæ sem málari. Rétt fyrir hrun var farið að renna á þau tvær grímur um stöðu mála á Íslandi og þau sáu ekki fram á að geta framfleytt sér eftir að Guðrún kæmi úr námi. Þau sáu auglýsingu í dagblaði frá lítilli eyju í Norður-Noregi þar sem auglýst var eftir barnafólki og sóttu um tvær stöður þar, Halldór um stöðu framleiðslustjóra í fiskvinnslu og Guðrún um stöðu umsjónarmanns með sumarhúsum. Þau fengu jákvætt svar og voru flutt á staðinn í júlí 2009 þar sem þeirra beið nýbyggt einbýlishús með öllum húsgögnum.
Indre Kvarøy er lítil eyja í Helgeland i Nordland fylki. Um miðja 20. öldina var eyjan miðstöð siglinga og verslunar fyrir svæðið og með ýmsa starfsemi í þjónustu og iðnaði. Nú er öldin önnur og íbúafjöldi um 60 og atvinnan snýst að mestu um vinnslu á fiski, þá aðallega laxi og krabba, en ferðaþjónusta er einnig farin að ryðja sér til rúms. Á eyjunni er lítil verslun, veitingastaður, fjölnota samkomuhús, skóli og leikskóli en alla aðra þjónustu sækir fólk til meginlandsins.
— Hvernig var tilfinningin að vera flutt á litla eyju í Noregi fjarri vinum og ættingjum á Íslandi?
G: Mjög blendin. Ekki laust við að maður fengi svolítið sjokk yfir að vera fastur á svona lítilli eyju. En það er samt eitthvað sérstakt við þetta umhverfi og manni leið eins og maður hefði fundið jarðtenginguna. Þarna voru svo mikil rólegheit og friður. Við erum í mjög góðum tengslum við foreldra mína og því var mjög erfitt í fyrstu að vera komin svo óralangt í burtu frá þeim, að geta t.d. ekki verið til staðar fyrir þau þegar þau myndu eldast.
H: Svo var líka ákveðin óvissutilfinning í manni, þrátt fyrir að við værum komin með fastan punkt með atvinnu og húsnæði. Það fylgir alltaf óvissa miklum breytingum í lífinu.
G: Þetta er mjög lítið og fábreytilegt samfélag og ekki mikið í boði. Þó kom þarna bar seinna, þar sem við mæðurnar stóðum fyrir ýmsum uppákomum. Svo var líka fullt af afþreyingu, bingó, bíó, og fólkið duglegt að koma saman og búa sér til viðburði. Þetta minnti okkur óneitanlega á stemmninguna í norsku þáttunum „Himmelblå“ sem sýndir voru á RÚV og pabbi hafði einmitt orð á því þegar þau komu fyrst í heimsókn til okkar.
— Hvernig voru móttökurnar í samfélaginu?
H: Okkur var alveg ágætlega tekið. Við komum náttúrulega þarna inn sem útlendingar og í raun þeir fyrstu sem setjast að þarna, þannig að þetta var mjög nýtt fyrir alla og eins og gerist og gengur voru sumir með varann á sér. En það var ekkert út á fólkið að setja og það tók okkur vel.
G: En það var samt ekki fyrr en við vorum að flytja í burtu að maður fann hversu mikið fólkið mat okkur, þegar fólk kom og kvaddi okkur með tár í augum. Þá fyrst upplifði maður hversu velkomin við vorum í samfélaginu.
— Hvernig gekk að aðlagast þessu nýja samfélagi?
G: Okkur gekk bara vel að aðlagast og einnig samfélaginu að aðlagast okkur því við komum líka með ýmsa siði sem voru þeim framandi. Það olli t.d. engum árekstrum þó okkar börn fengju í skóinn frá 13 jólasveinum en hin börnin ekki. Krakkarnir voru mjög sátt og undu sér vel í þessu umhverfi. Í upphafi var tungumálið erfiðast, ekki allir sem töluðu ensku þarna og því oft erfitt að eiga samskipti við fólk, sérstaklega gamla fólkið sem hafði svo mikinn áhuga á að ræða málin við okkur. Þarna voru t.d. gamlir karlar sem höfðu verið á sjó á Íslandi í gamla daga. Maður átti því svolítið í basli fyrst með samskiptin en svo kom þetta smám saman.
HARÐFISKURINN SLÓ Í GEGN
— Hvers konar vinna var það sem beið ykkar á eyjunni?
G: Mitt starf fólst í umsjón með sumarhúsum og bátum á eyjunni en þar sem ferðamannatímabilið var langt komið var ég með aðstoðarmann með mér sem kenndi mér og kom mér inn í hlutina. Starfið var mjög umfangsmikið og fjölbreytt, mjög krefjandi og skemmtilegt. Ég sá um að taka á móti ferðamönnum og sinna þeirra þörfum, taka á móti pöntunum, finna nýja söluaðila og nýjar markaðsleiðir. Á veturna var rólegra og aðallega hópar sem voru með ráðstefnur en samhliða því sinnti ég bókhaldi og alhliða skrifstofustörfum tengdum þessum rekstri. Ég fann mig vel í þessu og ákvað í kjölfarið að fara í nám í viðskipta- og markaðsfræðum, hafði áður tekið námskeið í Háskólanum á Bifröst og fékk þar inni í fjarnámi í janúar 2011.
H: Ég var ráðinn sem framleiðslustjóri í vinnslu krabba, sem var mjög athyglisvert og mikill lærdómur. Það var mjög skemmtileg vinna og á þessum þremur árum þróuðum við vinnsluna mikið. Þarna gat ég byggt á þeirri reynslu sem ég hafði úr vinnslu sjávarafurða og yfirfært á þennan nýja vettvang. Þetta gekk orðið svo vel að síðasta árið vorum við búin að selja alla framleiðsluna fyrirfram, áður en vertíðin hófst. Síðar fórum við að vinna bolfisk sem kom aðallega til vegna hugmyndar minnar um að setja af stað harðfiskvinnslu. Þá tókum við lundina úr þorskinum til venjulegrar vinnslu og unnum afganginn í harðfisk, flök og bita. Ég hafði stýrt framleiðslu á harðfiski á Ólafsfirði og var öllum hnútum kunnugur við það ferli. Það er ekki hefð fyrir svona framleiðslu í Noregi og þetta vakti því nokkra athygli. Framleiðslan var seld í byggðunum í kring og sló hreinlega í gegn, við höfðum varla undan að framleiða.
EFNI Í HEIMILDARMYND
— Saga ykkar varð efni í heimildarmynd sem sýnd var í norska ríkissjónvarpinu. Hvernig kom það til?
H: Það voru tveir strákar sem voru að útskrifast úr kvikmyndaskólanum í Trondheim, sem ákváðu að gera þessa heimildarmynd eftir að þeir sáu grein í staðarblaðinu í Mo i Rana um að Kvaroy væri að flytja inn Íslendinga. Þeir gerðu þetta svo í samvinnu við Mo i Rana blaðið sem fylgdi þeim svo eftir og tók viðtal við okkur. Í kjölfarið kom svo norska ríkissjónvarpið NRK og gerði frétt um þetta. Ég var ekkert yfir mig hrifinn af þessu en lét til leiðast.
G: Þeir fylgdu okkur eftir næstum hvert fótmál í þrjár vikur. Síðan fengum við frið í mánuð og þeir komu aftur í tvær vikur, fengum frið í smá tíma og komu svo til að klára þetta í þrjár vikur. Við urðum oft að fylgja ákveðnum fyrirmælum, t.d. að vera ekki að tala of mikið þegar við vorum niðri í fjöru að grilla pylsur. Þetta var mjög þrúgandi á köflum og ekki eitthvað sem mig langar að gera meira af. Myndin var svo sýnd í bíó, á einhverri stuttmyndahátíð þarna fyrir norðan og svo í NRK. Svolítið skrýtin tilfinning þegar maður tók ferjuna upp á land að versla að finna að fólk var að mæla mann út og jafnvel börn að benda á okkur og segja „mamma þarna er fólkið sem var í sjónvarpinu“. Eftir á að hyggja vorum við ekkert sérstaklega ánægð með að hafa tekið þátt í þessu og höfum til dæmis ekki horft á þessa mynd síðan. En það verður kannski skemmtilegt seinna meir að sjá hana og hún verður eflaust ágætis heimild þegar frá líður.
— Hvað varð til þess að þið fluttuð í burtu frá Kvaroya?
G: Það var eiginlega félagslíf barnanna. Þau voru að því leytinu mjög einangruð og þurfti að fara með þau upp á land til allra slíka athafna, t.d. íþrótta. Á eyjunni voru eiginlega engin börn á sama aldri og börnin okkar. Á eftir okkur komu fleiri fjölskyldur en þær voru bara með lítil börn. Það var nóg af börnum í leikskólanum en aðeins örfáir í skólanum. Strákurinn hafði því engan félaga og það fór smám saman að íþyngja honum. Það er ekkert hollt fyrir tólf ára strák að hanga öllum stundum inni í herbergi í tölvunni og hitta aldrei sína jafnaldra. Eitt sinn kom hópur af strákum á hans aldri frá Mo i Rana og voru í sumarbústað þarna á eyjunni. Honum var boðið til þeirra og þegar hann kom til baka þá ljómaði hann allur og sagði: „Mamma, getum við ekki flutt í burtu. Ég vil fara að vera með strákum á mínum aldri.“ Þá sáum við að við þyrftum að komast í samfélag þar sem börnin hefðu tækifæri á að vera með sínum jafnöldrum.
LJÓT SAGA Í ALLA STAÐI
Í júní síðastliðnum, eftir þriggja ára búsetu í Kvaroya, flutti fjölskyldan til Atløy sem er eyja sunnar á vesturströnd Noregs, rétt fyrir norðan Bergen. Þar fékk Halldór vinnu við framleiðslustjórn í krabbavinnslu en Guðrún var heimavinnandi með litlu fósturdótturina.
G: Fólkið á þessari eyju var mjög opið og tók okkur mjög fagnandi, vildu gera allt til að hafa okkur. Það var bankað upp á hjá okkur með blóm og mér var boðið að koma út í berjamó og einn hópur bauð mér m.a. að koma og dansa Zumba.
H: En samt fann maður að það var eitthvað undirliggjandi sem við festum ekki hönd á, eins og fólkið vissi meira en það léti uppi og við fengum á tilfinninguna að ekki væri allt með felldu hjá þessum vinnuveitanda mínum. Það kom svo fljótt í ljós. Það er í raun bara ljót saga og eiginlega andstæðan við reynslu okkar af Kvaroya. Okkur leið ekki vel þarna. Það stóðst ekkert af því sem okkur hafði verið lofað af hálfu eigandans hvað laun og húsnæði varðaði og framkoma hans gagnvart starfsfólki sínu var fyrir neðan allar hellur. Ég var yfirmaður yfir tæplega 20 manna hópi frá Litháen sem eigandi vinnslunnar hafði flutt inn til Noregs. Þeir voru á lúsarlaunum og algjörlega á valdi vinnuveitandans, voru látnir vinna myrkranna á milli sex daga vikunnar og fyrst þeir vildu nota laugardagana til að versla urðu þeir að gjöra svo vel og vinna á sunnudögum í staðinn. Fyrir þetta voru þeir að fá tæpar 9 þúsund krónur á mánuði. Þarna var til dæmis einn ungur maður sem átti að fara í sumarfrí tveim vikum eftir að ég byrjaði en svo kom eigandinn og tilkynnti honum að hann fengi ekki að fara í frí, gæti bara tekið sitt sumarfrí í janúar. Þetta var bara ljótt í alla staði og illa farið með þetta fólk. Þarna er í raun búið að koma málum þannig fyrir að fólkið er látið afsala sér öllum réttindum við undirskrift samnings. Mér leið ekki vel í þessari aðstöðu sem yfirmaður þessa fólks og vildi alls ekki taka þátt í þessu. Þá vildi svo vel til að ég fékk tækifæri á að fara í atvinnuviðtal hjá fyrirtæki sem heitir Eureka og er með aðsetur í Sørumsand, rétt austan við Osló. Þetta fyrirtæki hannar og smíðar slökkvibúnað fyrir olíuiðnaðinn í Noregi. Ég fékk það starf bara strax og við vorum svo heppin að fá strax íbúð í Jessheim og vorum flutt hingað í ágústbyrjun.
SVEKKT ÚT Í ÍSLENSKA KERFIÐ
Aðspurð um hvort þau hafi aldrei verið í vafa um þessa ákvörðun að flytja frá Íslandi svara þau bæði neitandi. En um leið eru þau mjög sár og svekkt yfir að hafa neyðst til að taka þessa ákvörðun, að þetta bankahrun sem þau höfðu ekkert með að gera, hafi splundrað þeim frá vinum og ættingjum á Íslandi.
G: Mér þykir slæmt að vera svona langt í burtu frá móður minni og föður og einnig hvað börnin varðar, því við vorum og erum í raun mjög háð þeim og þau okkur. Maður er náttúrulega með þá ábyrgð að koma börnunum á legg og þennan síðasta vetur á Íslandi stóð ég stundum frammi fyrir því að velja á milli þess að kaupa lyfin mín svo ég gæti lifað eða mat handa börnunum svo þau gætu lifað. Og þá var ekki annað en að leita sér aðstoðar hjá foreldrum sínum. Það er ekki hægt að búa við svona aðstæður.
H: Það er mjög leitt að vera settur í þá stöðu að þurfa að sækja lifibrauð til annars lands til þess eins að geta staðið undir skuldbindingum sínum. En ég sé ekkert eftir að hafa yfirgefið landið því auðvitað hefur maður fengið helling í staðinn.
G: Svo veit maður ekki hvort það verður afturkvæmt en ekki annað að gera en að halda í þá von þó erfitt sé að sjá þann möguleika eins og staðan er í dag.
ÓLÍKUR HUGSUNARHÁTTUR FRÆNDÞJÓÐA
— Hvað er að ykkar mati ólíkt með Íslandi og Noregi?
H: Hugsunarhátturinn er öðruvísi. Norðmenn eru nægjusamari, lifa fjölskylduvænna lífi með styttri vinnudegi, fara sér hægt við ákvarðanir – hugsa áður en þeir framkvæma. En að öðru leyti erum við ekki svo ólík. Sumir segja að við séum ekki frændur heldur bræður.
G: Munurinn er uppeldislegur. Heima trúum við alltaf að hlutirnir reddist og við förum bara í bankann og tökum lán, þó það hafi kannski aðeins breyst síðustu ár. Hérna er fólkið alið upp við það að þú ert ekki að fara að kaupa neitt nema safna fyrir því. Heima höfum við nóg af heitu vatni en hér þarf að spara það. Maður notaði rafmagn án þess að spá í það en hér slekkur maður á eftir sér.
— En líkt?
H: Mataræðið er að mörgu leyti líkt, einnig tungumálið og ýmsir siðir og venjur. Jólin eru t.d. mjög lík þó gamlárskvöldið sé heldur dauflegt miðað við heima. Mér finnst þetta allt mjög keimlíkt enda fellur þú í hópinn úti á götu og enginn sér að þú ert útlendingur nema þegar þú ferð að tala íslensku. Fólk ber líka að hluta sömu nöfn og á Íslandi. Allt þetta gerir veru okkar hér mun einfaldari og auðvelt að aðlagast. Manni finnst maður ekkert endilega vera í útlöndum. Þessar þjóðir hafa þróast á svipaðan hátt þar sem uppistaðan hefur verið sjávarútvegur. Því er menning og matarvenjur að mörgu leyti svipaðar. Stærsti munurinn er eiginlega þessi hugsunarháttur að eiga líf og njóta þess, ekki að vinna myrkranna á milli. Fyrirtækin hér bera mikla ábyrgð og geta sætt sektum fyrir að fólk vinni of mikla yfirvinnu. Öll vinna er hugsuð út frá sjö og hálfum tíma á dag og frekar bætt við fólki en láta starfsmenn vinna yfirvinnu, þó svo það komi fyrir þegar það eru tarnir. Svo lifum við mjög hratt á Íslandi, allt verður að gerast strax. Þú ferð í húsgagnaverslun og kaupir þér sófa og ætlast til þess að fá hann samdægurs. Hérna bíða menn rólegir vikum saman eftir að fá hlutinn afhentan.
— Hvernig horfir ástand mála á Íslandi við ykkur séð héðan frá Noregi?
H: Ég fylgist ekki mikið með. Finnst umræðan svo neikvæð og er ekki að velta mér mikið upp úr málunum heima, sértaklega í ljósi þess að ég á ekki möguleika á að flytja til baka að svo stöddu. Menn eru ekki bjartsýnir á að það séu einhverjar lausnir í deiglunni. En auðvitað tekur maður púlsinn á þessu annað slagið með blaðalestri á Netinu.
G: Við erum Íslendingar og „heima er best“ stendur einhvers staðar.
— Hvað mynduð þið ráðleggja fólki sem stendur frammi fyrir flutningi frá Íslandi til Noregs?
G: Facebook síðan „Íslendingar í Noregi“ er orðin mjög öflug og mikið af upplýsingum að fá þar. Allir eru tilbúnir að hjálpa og maður gerir það sjálfur ef maður getur. Svo er fólk oft með fyrirfram ákveðnar skoðanir þegar það kemur hingað, um landssvæði til dæmis, myrkrið og kuldann fyrir norðan, rigninguna fyrir vestan og að það sé best að vera í suðurhlutanum. En þetta er ekki alveg svona einfalt. Til dæmis eru launin hér á þessu svæði (kringum Osló) bara lægri en víða fyrir norðan og húsnæði miklu dýrara. Byggðirnar fyrir norðan og vestan eru að veita fólki ýmsa styrki til að flytja á staðinn og greiða niður húsnæði. En svo er ekki þar með sagt að þú þurfir að setjast að til frambúðar á þeim stað sem þú byrjar á og því myndi ég ráðleggja fólki að koma hingað meira með opinn hug.
H: Svo er best að vera kominn með vinnu áður en fjölskyldan flytur út því það getur tekið tíma. Það er ekkert hlaupið að því að fá vinnu og margir hafa þurft að snúa til baka til Íslands eftir árangurslausa atvinnuleit hér.
SPÁNN, NOREGUR EÐA SIGLUFJÖRÐUR
— Hvaða augum lítið þið til framtíðarinnar?
H: Framtíðin er óráðin því enginn veit hvað morgundagurinn hefur í för með sér en að svo stöddu er ekki í sjónmáli að við komumst heim alveg strax. Okkur líður vel í Noregi en okkur leið líka vel á Ólafsfirði og hefði það verið mögulegt hefði ég helst viljað vera þar áfram, en við gátum það ekki vegna veikinda Guðrúnar. Það tók tvö ár að finna út með lyfjagjöfina og það hefði aldrei gengið upp að sækja þá læknisþjónustu alla leið að norðan.
G: Ja, ég er í nú í viðskiptanámi í Háskólanum á Bifröst og ýmislegt sem kemur upp á borðið sem gæti verið tilefni til að sækja um, sumt hér sunnar í Evrópu. En svo stendur líka til að byggja hótel á Siglufirði. Hver veit nema maður bara sæki um hótelstjórastöðu þar? Maður veit aldrei og best að leyfa góðum hlutum að koma til sín og velja það besta úr.
SF