Uppskeruhátíð krakkanna
Gaman að geta fermt á hefðbundinn hátt, segir Baldur Rafn Sigurðsson, sóknarprestur í Njarðvík
„Þetta er uppskeruhátíð fyrir krakkana og við byrjuðum með fyrstu fermingu síðasta sunnudag í Innri Njarðvík og eins og alltaf eru fermingar vorboðinn,“ segir Baldur Rafn Sigurðsson, sóknarprestur í Njarðvíkurprestakalli.
Alls verða um 100 börn fermd í Njarðvík, fyrst í Njarðvíkurkirkju í Innri Njarðvík og síðan færast athafnir í Ytri Njarðvíkurkirkju. „Við byrjuðum með tvö holl og endum á skírdag. Fermingarfræðslan gekk vel og við fórum með ungmennin m.a. í Vatnaskóg þar sem þau svöruðu spurningum og fengu fræðslu. Svo voru sungnir sálmar og lög auk en svo var auðvitað mesta fjörið á kvöldvökunum. Það verður gaman að geta fermt á hefðbundinn hátt núna eftir tvö ár í faraldri. Þá voru þetta örfermingar getum við sagt. Fermingar eru alltaf vorboði, mikil gleði og fjölskyldurnar koma saman sem verður kærkomið eftir erfiða tíma í heimsfaraldri,“ segir Baldur Rafn.
„Fermt hjá fjölmennum Pólverjum
Samfélag Pólverja er stórt á Suðurnesjum en um 3700 manns búa í Reykjanesbæ. Fjöldi þeirra er svipaður og allir bæjarbúar í Suðurnesjabæ og aðeins fleiri en Grindvíkingar. Pólskir prestar hafa starfað innan þeirra raða og fermt pólsk börn. Í nokkur ár leigði pólska samfélagið Ytri Njarðvíkurkirkju til ferminga. Lang flestir Pólverjar eru kaþólskir. Þeirra hefðir eru aðrar og fræðslan byrjar þegar krakkarnir eru 8 ára. Síðustu ár hafa athafnir á vegum Pólverja og annarra útlendinga sem eru búsettir í Reykjanesbæ og nágrenni verið í Jóhannesarkirkju á Ásbrú en hún hét áður Chapel of light. Þar hefur verið fermt og þá hafa útfarir einnig verið þar.