Uppsett hár og hárskraut -strákarnir sjá sjálfir um hárið
Hársnyrtistofan Capello:Fermingargreiðslurnar í ár einkennast mest af uppsettu hári og fallegu hárskrauti, að sögn Jóhönnu Óladóttur, á hársnyrtistofunni Capello í Hólmgarði.„Þær sem eru með sítt hár vilja helst hafa það uppsett. Við skreytum þær með hinu og þessu, annað hvort lifandi blómum, jafnvel hálsfestum og armböndum. Svo eru þær alltaf hrifnar af semilíusteinum. Það er líka vinsælt að nota litla glansandi dropa í hárið. Þeir festast í hárinu og fást í margs konar litum. Það er voðalega sætt“, segir Jóhanna en bætir við að sumar stelpur vilji þó hafa látlausari greiðslur.Hvað með þær sem eru með stutt hár? „Við blásum yfirleitt á þeim hárið og höfum það svolítið frjálslegt. Ef þær vilja, þá látum við kannski eina til tvær fallegar spennur í toppinn til skrauts“, segir Jóhanna. Aðspurð segir hún að það sé lítið um að herrarnir panti fermingargreiðslu. „Við fáum alltaf einn og einn strák til okkar. Við þurrkum á þeim hárið og setjum í það vax eða gel. Annars greiða þeir sér bara flestir sjálfir, enda eru þeir margir hverjir orðnir nokkuð færir í því.“