Uppselt á Magnús Þór - Aukatónleikar
-Söngvaskáld á Suðurnesjum
Uppselt er á lokatónleika tónleikaraðarinnar Söngvaskáld á Suðurnesjum en þeir fjalla um tónlistarmanninn Magnús Þór Sigmundsson.
Því hefur verið ákveðið að bæta við aukatónleikum sunnudaginn 9. apríl og er miðasala hafin á hljomaholl.is.
Magnús Þór Sigmundsson er kunnastur fyrir samstarf sitt með öðru söngvaskáldi af Suðurnesjum, Jóhanni Helgasyni, en saman störfuðu þeir sem Magnús & Jóhann, Pal brothers og í hljómsveitinni Change. Seinna skildu leiðir og hefur magnús Þór gefið út fjöldann allan af sólóplötum meðal annars ætlaðar börnum. Mörg laga Magnúsar Þórs hafa notið vinsælda og má þar nefna blue Jean Queen, Ást, Alfar, Jörðin sem ég ann og Ísland er land þitt sem stundum er kallað hinn þjóðsöngur Íslands.
Tónleikarnir verða haldnir í Bergi í Hljómahöll þar sem kynnt verður sagan á bak við tónlistina í heimilislegri stemmningu. Kynnir og handritshöfundur er Dagný Gísladóttir, söngvari er Elmar Þór Hauksson og útsetningar og píanóleikur er í höndum Arnórs B. Vilbergssonar sem nýverið hlaut Menningarverðlaun Reykjanesbæjar.