Upprennandi söngkona
Berta Dröfn Ómarsdóttir er ung og efnileg söngkona úr Grindavík. Hún gerði sér lítið fyrir og vann söngvakeppni félagsmiðstöðva á Suðurnesjum, Samsuð, sem haldin var í Stapa fyrir skömmu. Berta Dröfn er nemandi í 10. bekk í Grunnskóla Grindavíkur og er dóttir hjónanna Jónu Kristínar Þorvaldsdóttur, sóknarprests og Ómars Ásgeirssonar, framkvæmdastjóra Martaks. Hún er nú í söngnámi hjá Guðmundi Emilssyni og hefur jafnvel hug á að leggja sönginn fyrir sig þegar fram líða stundir.Lið Grindavíkur heillaði lýðinnMikil stemming ríkti í Stapa þegar lið félagsmiðstöðvanna reiddu fram hesta sína en þátttakendur voru á aldrinum 13-16 ára. Keppnin var tvískipt, liða- og einstaklingskeppni. Svo skemmtilega vildi til að fulltrúar Grindavíkur unnu bæði liðakeppnina og einstaklingskeppnina að þessu sinni. Gígja og Rannveig sungu lagið No Scrubs, sem tríóið TLC gerði vinsælt, og heilluðu alla upp úr skónum með góðum söng og líflegri sviðsframkomu. Nýtur sín á sviðinuBerta Dröfn söng lag Withney Houston, Greatest Love of All og hreppti fyrsta sæti í einstaklingskeppninni. Þetta er í þriðja sinn sem Berta tekur þátt í söngvakeppni Samsuðs en hún vann einnig keppnina í fyrra með lagi Brians Adams, Everything I Do. Berta segist hafa verið hálfslöpp fyrir keppnina í Stapa en hún hafi bara hellt í sig te áður en hún fór á svið og það hafi aðeins hjálpað. „Mér fannst mjög gaman að taka þátt en ég verð að viðurkenna að ég er alltaf svolítið stressuð áður en ég fer upp á svið. Þegar ég er komin á sviðið er allt í lagi, þá langar mig helst ekki að fara niður aftur“, segir Berta og hlær.Langar til að verða söngkonaBerta fór einnig sem fulltrúi Grindavíkur á úrslitakeppnina sem haldin var í Garðabæ s.l. helgi og stóð sig prýðilega þrátt fyrir hálsbólgu og kvef. „Ég söng sama lagið aftur og það gekk ágætlega“, segir Berta Dröfn en hún hefur verið í söngnámi hjá Guðmundi Emilssyni í Tónlistarskóla Grindavíkur síðan í vetur. „Mig hefur alltaf langað til að verða söngkona en ég held að það sé mjög erfitt að koma sér áfram í þessum bransa“, segir Berta Dröfn. New York, New YorkLíkur eru á að Berta Dröfn sé á leið í stóra hæfileikakeppni sem haldin verður í New York nú í lok apríl. Þátttakendur koma frá öllum heimshornum en það er John Casablanca sem stendur fyrir henni. „Keppnin er reyndar á sama tíma og samræmdu prófin, svo ég veit ekki enn hvort ég fari, en ég fer þá bara á næsta ári ef ég kemst ekki núna“, segir Berta Dröfn. „Keppendur þurfa bæði að taka þátt í skyldu- og aukagreinum og á meðal skyldugreina eru módelmyndatökur, framkoma, tískusýningar, leikur í sápuóperu o.fl. Síðan mega þátttakendur velja sér aukagrein eins og dans, förðun, söng o.fl.“, segir Berta Dröfn. Þetta hljómar spennandi og það er aldrei að vita nema stjarna Grindavíkur eigi eftir að rísa enn hærra í framtíðinni.