Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Upplifunin í versluninni mikilvægust
Mægðurnar Helga Steinþórsdóttir og Sigrún Inga Ævarsdóttir.
Fimmtudagur 18. desember 2014 kl. 15:00

Upplifunin í versluninni mikilvægust

Vegna mikilla anna hjá eigendum er verslunin Krummaskuð til sölu.

Verslunin Krummaskuð varð til í maí 2012 og var dekurverkefni Sigrúnar Ingu Ævarsdóttur á meðan hún nam lögfræði. Sigrún rekur verslunina ásamt eiginmanni sínum, Birgi Óttari Bjarnasyni. Hún segir segir upplifunina innandyra skipta mestu máli, hvort sem fólk kaupir hjá henni vörur eða ekki. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég opnaði ekki búð til að græða peninga, ég vildi bjóða upp á einhverja upplifun. Mér þykir óskaplega vænt um búðina og það sést þegar inn er komið. Hér er fallegt umhverfi og gott andrúmsloft, bæði fyrir þá sem kaupa eitthvað eða ekki. Upplifunin, lýsingin, lyktin, litasamsetningar og tónlistin. Þetta skiptir allt máli,“ segir Sigrún Inga sem finnst desember langskemmtilegasti tími ársins. „Það er gaman að fá bæjarbúa í búðina og það er mér hjartans mál að vera jákvæð og gera það besta fyrir bæinn okkar. Minn draumur er að Hafnargatan verði flott verslunargata sem bæjarbúar geta verið stoltir af. Það gerist ekki nema bæjarbúar taki þátt og styðji við verslun hér. Við erum ein af nýjustu verslununum við Hafnargötuna og fólk mætti taka betur á móti nýjum verslunum. Hugafarið skiptir svo miklu máli.“ Vegna mikilla anna í öðrum störfum Sigrúnar Ingu og Birgis hafa þau því miður ekki lengur tíma til að reka verslunina. „Okkur langar ekki að loka henni, við viljum selja hana.“ 

Þröngar gallabuxur vinsælar

Sigrún Inga segist vera stoltur Reykjanesbæingur og hefur trú á því að hér verði flottur miðbær í framtíðinni. „Ég er í menningarráði Reykjanesbæjar og mínar áherslur eru miðbærinn og að byggja hann upp. Ýmislegt hér sem mætti gera betur.“ Fáar verslanir í Reykjanesbæ selja herrafatnað og Sigrún Inga segist vilja að það sem hún selji sé í boði í bænum. „Áherslur í versluninni eru dömu- og herrafatnaður, en þó að miklum hluta til fatnaður fyrir herra á öllum aldri. „Mömmunum með unglingsdrengina finnst gott að koma til okkar. Umhverfið er þægilegt og þjónustan góð. Ég legg líka mikið upp úr sniðum og tel að mitt starfsfólk sé gott í að hjálpa til við val á því. Við þurfum að hafa þekkinguna. Alltof margir sem klæðast því sem þeim er rétt. Strákar eru líka að verða miklu meðvitaðri um þetta. Þröngar og mjúkar gallabuxur seljast mikið núna - og víðar skyrtur við.“ 

Mamman mikill hönnuður

Sigrún Inga kemur úr fjölskyldu þar sem mikið er um íslenska hönnun. Móðir hennar, Helga Steinþórsdóttir, á Mýr design merkið og systur hennar eru einnig miklir hönnuðir. Til að mynda hafi þau tekið til sölu textílvörur hönnuðarins Sveinbjargar sem hafi verið tekið mjög vel. „Þetta er eitt af þessum hornum í búðinni sem ég ákvað að gera. Svo er Mýr design í búðinni, hönnunin hennar mömmu, hún er alltaf að verða umfangsmeiri. Ef ég gæti bara verið með vörurnar hennar mömmu þá myndi ég gera það. En þær höfða ekki endilega til allra þó að þær höfði til flestra. Mýr design á eftir að enda sem sér búð, fötin eru svo vinsæl. Þetta eru nánast einu fötin sem ég klæðist og vegna þess að þetta höfðar svo vel til mín. Það er ekki bara af því að hún er mamma mín,“ segir Sigrún Inga og hlær.

Með brot af því besta

Sigrún Inga er mjög opin fyrir því bæta við einhverju sem henni finnst fallegt í verslunina og finnst skemmtilegt að bjóða upp á. „Ég hef líka alltaf verið opin fyrir einhverju nýju. Stundum virkar það og stundum ekki. Við erum með mjög góð verð og ég fæ marga viðskiptavini frá höfuðborgarsvæðinu. Það má segja að við séum með brot af því besta af því að við verslum við helstu heildsölur í Reykjavík. Við erum bara með skandinavísk merki í herradeildinni og mér finnst þau vönduð sem endast vel.“ Henni finnst fylgja því svo mikil vinna að fara til Reykjavíkur að versla fyrir jólin. „Hér færðu stæði beint fyrir framan verslanirnar og góða og persónulega þjónustu, nægt pláss og nægan tíma.“ 

Sígild snið sem endast lengi

Eiginmaður Sigrúnar Ingu, Birgir, segir hún vera höfuð herradeildarinnar. „Hann vinnur mikið hérna og hefur algjörlega bjargað mér þegar mér dettur eitthvað í hug. Búðin var lokuð í hálfan dag þegar við fluttum hana á milli tveggja staða við Hafnargötuna. Við erum bæði í fullu starfi og því er einnig gott að fá mömmu hingað til að hjálpa og ég er með ofboðslega gott starfsfólk. Annars gengi þetta ekki upp,“ segir Sigrún Inga. Helga kemur þarna inn í umræðuna. „Það er líka lúxus fyrir mig að vera með mínar vörur í svona flottri búð. Kjólarnir eru vinsælastir og jakkarnir. Þetta er sígildur fatnaður sem gengur í mörg ár. Sniðin eru sígild og ég er smámunasöm á efni og litasamsetningar. Svo er ég með kjólameistara sem eru snillingar í að búa til snið sem endast. það skiptir miklu máli fyrir einhvern í minni stöðu.“ Sigrún bætir við: „Mamma setur langflestar flíkurnar í þvottavél og þurrkara til að tryggja að gott sé að þrífa fötin. Þannig föt vill fólk í dag.“ 

VF/Olga Björt