Upplifir svæðið eins og alka
Markaðsaðgerðir þurfa að spila saman eins og góð hljómsveit, segir Þóranna Jónsdóttir „markaðsnörd„
Þóranna Jónsdóttir, markaðsnörd hjá Markaðsmálum á mannamáli, hefur síðastliðin ár starfað með litlum og meðalstórum fyrirtækjum og frumkvöðlum í markaðsmálum, með áherslu á ímyndarmál og markaðssetningu á netinu. Það má segja að hún sé frumkvöðull sjálf, þar sem hún er fyrst hérlendis til að veita þjálfun og ráðgjöf í markaðsmálum í gegnum netið og fyrir rúmu ári gaf hún út bókina Marketing Untangled: The Small Business & Entrepreneur's Map Through the Marketing Jungle. Þóranna er einnig „partner“ í alþjóðlegu branding stofunni Make Your Mark Global auk þess að eiga hluti í öðrum fyrirtækjum sem vinna að verkefnum á alþjóðlegum vettvangi.
Þóranna er dóttir hjónanna Jóns Björns Sigtryggssonar, tannlæknis og Magdalenu Sirrýar Þórisdóttur, hönnuðar og listakonu. Eftir að Þóranna lauk grunnskólaprófi frá Holtaskóla í Keflavík tók hún stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík og hélt svo rakleiðis til London. Þar bjó hún með núverandi eiginmanni sínum, Karli Marteinssyni, tæknistjóra hjá Bláa Lóninu, í 8 ár. Fyrstu árin þar lagði hún stund á nám í leiklist og söng og starfaði sem leik- og söngkona um nokkurra ára bil. Upp úr aldamótum vatt hún sínu kvæði í kross og fór í MBA nám í University of Westminster þar sem markaðsfræðin kveiktu brennandi áhuga hjá henni og þá varð ekki aftur snúið. Eftir að hafa starfað á alþjóðlegu auglýsingastofunni Publicis í London lá leið Þórönnu heim til Íslands, þá kasólétt af dóttur sem fæddist 2004. Þóranna starfaði svo á auglýsingastofunni Góðu fólki í Reykjavík en árið 2007 snéru þau hjónin aftur suður með sjó. Áður en Þóranna fór að starfa sjálfstætt árið 2011 vann hún að markaðsmálum hjá Sparisjóðnum og starfaði sem verkefnastjóri frumkvöðlasetursins á Ásbrú fyrir Kadeco, auk þess að eignast son árið 2008.
Hugmynd kviknar í ráðgjöf til frumkvöðla
Það var í frumkvöðlaráðgjöf á Ásbrú sem sú hugmynd kviknaði að þjónusta betur frumkvöðla og lítil fyrirtæki í markaðsstörfunum og Þóranna hóf að starfa sjálfstætt sem markaðsráðgjafi árið 2011. Síðan þá hefur margt vatn runnið til sjávar og verkefnin hafa sífellt verið að þróast og breytast. Þóranna fann fljótt að hún var mikið að vinna í sömu hlutunum með viðskiptavinum sínum og fór því að þróa efni sem hún deildi með þeim.
„Ég áttaði mig á því að það væri langbest að snúa hlutunum við, þróa þjálfunarefni í markaðsmálunum sem fólk gæti farið í gegnum og ég svo stutt við það. Þannig náði ég að þjónusta fólk betur, þjónusta fleiri og á hagkvæmari kjörum en ella. Í dag hafa nokkrir tugir aðila farið í gegnum markaðsþjálfunina en ég legg líka mikla áherslu á að byggja upp markaðsþekkingu innan þeirra fyrirtækja sem ég vinn með. Markaðsstarfið er jú það sem nær í viðskiptin og án viðskipa er enginn rekstur, svo það er fátt ef nokkuð eins mikilvægt innan fyrirtækja.“
Hver eru helstu mistök sem menn eru að gera í markaðsmálum?
„Helstu mistökin sem ég sé eru annars vegar að halda að hægt sé að kaupa bara einhvern annan til að sjá um markaðsmálin. Þetta er allt of mikið kjarnaatriði í fyrirtækinu þínu til að vera með leiguliða í þessum málum. Jú, þú getur keypt ýmsa þjónustu, en þú þarft sjálfur sem eigandi og framkvæmdastjóri að hafa góðan skilning á markaðsmálunum og vita hvað þú ætlar að gera. Ég er ekki að tala um að þú þurfir svo að gera allt sjálfur, en þú þarft að skilja heildarmyndina og hvaða þjónustu þú ert svo að kaupa, hvað hún á að gera og geta metið hvort það sem þú ert að kaupa er að virka.”
Að sögn Þórunnar eru önnur mistök að hugsa fyrst um taktík en leggja ekki nógu góðan grunn að markaðsstarfinu.
„Ég fæ til dæmis rosa oft fyrirspurnir um hvernig eigi að nota Facebook í markaðssetningu og hvar fólk eigi að auglýsa og slíkt. Það er ekkert hægt að vita það nema að grunnurinn sé á hreinu. Hver er markhópurinn? Þú þarft að þekkja hann og skilja til að vita hvað hann vill, hvernig best er að ná til hans og hvar best er að ná til hans. Hver er samkeppnin og hvað er hún að gera? Ef fólk spyr af hverju það á að kaupa af þér frekar en samkeppnisaðila, þá getur þú ekki svarað því neitt af viti nema að þekkja samkeppnina. Þú þarft líka að skera þig úr á markaði og þú getur það ekki ef þú veist ekki hverjir hinir eru. Brandið er kjarnahlutur sem allt of oft er vanræktur og fólk er ekki meðvitað um eða meðvitað að byggja upp og stýra. Brand er það sem fólk hugsar um fyrirtækið þitt, vöru eða þjónustu og þær tilfinningar sem það ber til þess - í raun „ímynd" - þó að ég vilji ekki nota það orð þar sem mér finnst það ekki ná alveg nógu vel yfir merkingu orðins „brand". Brandið skiptir öllu um það hvort fólk kaupir af þér eða ekki, svo þá er um að gera að nota það markvisst.“
Þóranna segir mikilvægt að láta markaðsaðgerðir spila saman.
„Þetta er eins og hljómsveit. Ef þú bara fyllir herbergið af hljóðfærum og fólki sem ekki kann á þau, þá færðu bara hávaða og læti. Það þarf að velja réttu hljóðfærin, rétta fólkið, það þarf að vera búið að plana hvað eigi að spila, í hvaða tóntegund o.s.frv. og setja nótur á blað til að fá yndisfagra tónlist sem laðar rétta fólkið að. Þetta eru engin stjarneðlisfræði, en þetta er eitthvað sem þarf að vinna almennilega.“
Hvað er það sem þú ráðleggur fólki helst?
„Að byrja á grunninum og stefnumótuninni. Algjörlega frá A til Z. Í dag vinn ég ekki með fólki fyrr en það er búið að fara í gegnum markaðsþjálfunina mína einfaldlega vegna þess að ég veit að það er það sem þarf. Þess vegna þróaði ég hana. Hún leggur grunninn að góðu og áhrifaríku markaðsstarfi. Ég hef enn ekki fengið til mín viðskiptavin sem þurfti ekki að fara og vinna betur í grunninum. Fyrir mér er það líka ákveðin sía. Ég veit að ef fólk setur það fyrir sig að vinna þessa vinnu þá er það heldur ekki rétta fólkið fyrir mig að vinna með.“
Hvað er spennandi í þessum fræðum í dag?
„Úúúúú svo margt! Það er til dæmis brjálæðislega spennandi að sjá hvað tæknin er að gera litlum fyrirtækjum kleift að gera ótrúlega hluti. Hlutir sem voru brjálæðislega dýrir og bara fyrir stórfyrirtæki fyrir nokkrum árum eru núna algjörlega á færi minni fyrirtækja að nýta, eins og sjálfvirkni í markaðssetningu (e. marketing automation). Netið heldur bara áfram að vera rosalega spennandi og eiginlega alveg merkilegt hvað það eru mörg fyrirtæki sem hanga enn bara í hefðbundum auglýsingamiðlum eins og prenti, útvarpi og sjónvarpi þegar netið getur skilað svo miklu miklu meiru. Efnismarkaðssetning (e. content marketing) er síðan algjörlega komin til að vera og býður upp á ótrúlega spennandi möguleika til að byggja miklu traustara langtímasamband við viðskiptavininn heldur en hefðbundnar auglýsingar. Þau verkefni sem ég er í byggjast rosalega mikið á að nýta þessa hluti í botn sem er hrikalega spennandi.“
Nú hefur ímynd Suðurnesja verið veik og umræðan nú snýst um að snúa vörn í sókn. Hvað myndir þú ráðleggja Suðurnesjum?
„Ég vil sjá meiri metnað fyrir hönd svæðisins. Minna væl og meira að rífa okkur upp á rassgatinu og gera hlutina almennilega. Ekki bíða eftir að aðrir bjargi okkur (ríkið, stóriðja, sveitarfélögin, völlurinn eða hver sem er) heldur bjarga okkur sjálf. Ég vil sjá miðbæ Reykjanesbæjar lifna við - það er niðurdrepandi að horfa á hann í dag. Það gerist ekki nema með metnaði til að gera betur. Hætta að kvarta og vera tilbúin að leggja á sig það sem þarf til að bæta hlutina.
Ég fæ reglulega símtöl frá fólki sem talar um að það þurfi að bæta ímynd svæðisins og gera eitthvað í málunum og að það sé með hóp fólks á bak við sig sem vill það sama. Ég hef alltaf sagt að ég sé boðin og búin til að leggja mitt af mörkum ef fólk er tilbúið í slaginn. Það virðist hinsvegar af einhverjum ástæðum ekkert verða úr hlutunum. Þegar fólk hringir í mig er ég farin að spyrja bara hreint út: „Vilt þú og þeir sem standa að baki þér gera eitthvað í þessu og fá mig með, eða ertu að hringja til að biðja mig að gera þetta fyrir ykkur?" Ef fólk er tilbúið í vinnuna, þá er ég tilbúin að vera með. Ég veit að svæðið hefur allt til að bera og að við erum ekki síðri en nokkurt annað svæði á landinu. Það er fyrst og fremst ímyndin sem er vandamálið. Ég segi alltaf: „Hringdu bara í mig þegar þið ætlið að hittast til að plana“ - ég fæ aldrei neitt símtal. Ekkert fundarboð. Mikið væri nú gaman ef eitthvað af þessum símtölum leiddi nú loksins til þess að eitthvað væri gert. Það er svo ótalmargt sem hægt er að gera - sem þarf ekki að kosta mikla - eða jafnvel neina - peninga. Það þarf bara viljann í verkið. Ég bauð til dæmis stjórnendum Reykjanesbæjar á sínum tíma að vinna með þeim að ímyndarmálum bæjarins en fékk engar undirtektir.“
„Ég upplifi svæðið oft eins og alka“
„Ég upplifi oft svæðið eins og alka. Þar til alkinn er tilbúinn að gera eitthvað í sínum málum þá get ég ekkert gert. Þegar alkinn er tilbúinn í meðferð, þá er ég fyrsta manneskjan til að bjóðast til að keyra hann á Vog. Ætli það sé ekki breytingin sem ég vil sjá - að alkinn geri sér grein fyrir vandamálinu og sé tilbúinn að fara að taka á því af alvöru - ekki bara á yfirborðinu og ekki bara með því að kvarta. Þá er ég tilbúin að styðja hann með ráðum og dáð.“
Þóranna hefur verið dugleg að halda fyrirlestra víða, meðal annars í frumkvöðlasetrinu í Eldey og hún hélt einn slíkan í vikunni.