Upphafið að stórveldinu frumsýnd í kvöld
„Hugmyndin kviknaði bara vegna þess að ég er mikill Keflvíkingur og hef verið viðloðandi körfuna lengi. Mig langaði því að gera mynd sem segir frá merkilegu tímabili í sögu Keflvíkinga,“ segir kvikmyndagerðamaðurinn Garðar Örn Arnarson sem ætlað sér að frumsýna stuttmynd sína „Upphafið að stórveldinu,“ sem fjallar um fyrsta Íslandsmeistaratitil Keflvíkinga í körfubolta karla árið 1989. „Það er fullt af krökkum í Keflavík sem hefur t.d. ekki hugmynd um hver Jón Kr. Gíslason er. Þannig að þetta er smá fræðsla um það hvernig upphafið að velgengni Keflvíkinga hófst. Áður höfðu Keflvíkingar aðeins unnið 2. deildina. Þarna voru leikmenn eins og Guðjón Skúlason og Falur Harðarson að stíga sín fyrstu skref í liðinu og mikið kynslóðaskipti voru að eiga sér stað. Þarna verður Jón Kr. þjálfari og Sigurður Ingimundarson sem nú er þjálfari liðsins var fyrirliði.“
Það sem kom Garðari aðallega á óvart þegar hann fer að skoða þessa leiki er hve stemningin var mikil á þessum árum. „Stemningin í stúkunni var svakaleg, það heyrðist varla í þeim sem voru að lýsa leikjunum,“ segir Garðar.
„Maður hafði ekki séð menn eins og Jón Kr, Nökkva, Axel Nikulásson og Magga Guðfinns spila, það var virkilega gaman,“ en Garðar tók viðtöl við nokkra af þessum leikmönnum fyrir myndina. Þeir segja m.a. frá því að mikið hafi breyst þegar bandarískur þjálfari að nafni Lee Nober kom í bæinn, en hann breytir alveg heilmiklu í körfunni í Keflavík.
Garðar telur að þeir sem hafi gaman af körfubolta gætu kannski notið þess mest að sjá myndina. „Þó að óneitanlega sé skemmtilegast fyrir Keflvíkinga að sjá myndina þá gætu flestir haaft gaman af. Kennari minn í kvikmyndaskólanum hafði mjög gaman af þessu og hann fylgist ekki mikið íþróttum.“
Fyrirhugað er að sýna myndina sem er rúmar 25 mínútur að lengd, strax að loknum leik Keflvíkinga og Njarðvíkinga sem fram fer í kvöld klukkan 19:15 í Toyota-höllinni og er öllum velkomið að njóta myndarinnar. Garðar segist hlakka til að sjá leikinn í kvöld og hann vorkennir því liði sem þurfi að mæta Keflvíkingum eftir tap þeirra gegn Grindvíkingum í Lengjubikarnum síðastliðna helgi, þar sem Keflvíkingar voru grátlega nærri því að sigra.
Upphafið að stórveldinu - 1989 Trailer from 230.Keflavík Films on Vimeo.