Upphaf aldauðans - sýningar og vinnustofur um örlög geirfuglsins
Listasafn ASÍ stóð fyrir vinnustofu barna á stéttinni við innganginn að Listasafni Reykjanesbæjar þriðjudaginn 8. desember 2020. Til að hægt væri að uppfylla kröfur um smitvarnir var vinnustofan haldin undir berum himni.
Þátttakendur voru sextán börn í Pennahópnum sem eru elstu nemendurnir í leikskólanum Vesturbergi. Kennari á námskeiðinu var Þór Sigurþórsson, myndlistarmaður, og honum til aðstoðar Gísli Pálsson, mannfræðingur og höfundur bókarinnar Fuglinn sem gat ekki flogið.
Börnin steyptu saman geirfuglsegg úr gifsi, teiknuðu geirfugla af báðum kynjum með bleki og skríktu af gleði þegar þau heyrðu hljóð geirfuglsins úr síma kennarans.
Talið er að síðustu geirfuglarnir hafi verið drepnir í Eldey undan Reykjanesi árið 1844. Það má segja að vinnustofa barnanna hafi verið sögulegur gjörningur á þessum stað þar sem sagt er að síðustu geirfuglarnir hafi staldrað við í Duus-húsi á leið sinni til Kaupmannahafnar.
Verkefnið er m.a. styrkt af Barnamenningarsjóði, Myndlistarsjóði og Safnasjóði.
Dagur Jóhannsson vann heimildarmyndband um vinnustofuna. Gerð myndbandsins er samstarfsverkefni Listasafns Reykjanesbæjar og Listasafns ASÍ.