Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Uppáhaldsstaðurinn eins og á annarri plánetu
Sunnudagur 29. nóvember 2020 kl. 14:21

Uppáhaldsstaðurinn eins og á annarri plánetu

– Ellert Grétarsson gefur út ljósmyndabók um náttúru og undur Íslands

Ísland - náttúra og undur er önnur ljósmyndabók Ellerts Grétarssonar á tveimur árum. Bókin er á leið í dreifingu í bókaverslanir þessa dagana en bókina má einnig nálgast í forsölu á vefsíðunni elg.is. Þar er m.a. hægt að óska eftir árituðum eintökum sem boðin eru í ókeypis heimsendingu á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu. Fyrri ljósmyndabókin, Reykjanesskagi - náttúra og undur, kom út 2018 og fékk góðar móttökur.

„Mér þetta svo gaman að mig langaði að gera aðra bók, enda átti ég nóg af efni frá ferðum mínum um okkar fagra Ísland. Elstu myndirnar eru tólf, þrettán ára gamlar en þær yngstu eru frá því í sumar. Þetta er bók sem við ætluðum að gefa út í fyrra en af ýmsum ástæðum ákváðum við að fresta því þar til núna. Fyrir vikið þá held ég að ég sé kominn með miklu betri bók og vandaðri þar sem ég gat gefið mér nægan tíma í verkefnið,“ segir Ellert Grétarsson, náttúruljósmyndari, um bókina sem hann er að senda frá sér að þessu sinni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Þetta er ekki hefðbundin landkynningarbók fyrir erlenda ferðamenn. Bókin er hugsuð fyrir innanlandsmarkað, enda er hún bara á íslensku. Þú sérð ekki myndir þarna af Gullfossi og Geysi, Stuðlagili og þessum stöðum sem við erum búin að sjá margar myndir af frá öllum sjónarhornum. Ég hef engu við það að bæta. Í staðinn langaði mig að sýna Íslandi í öðru ljósi þar sem ég er með fókusinn á stöðum og náttúrufyrirbærum sem við sjáum ekki alltof margar myndir af.“

– Hvernig hefur þú komist í tæri við þessa staði?

„Á þeim árum sem ég starfaði með Íslenskum fjallaleiðsögumönnum þá fór ég í margar spennandi gönguferðir með þeim um svæði sem maður hefði kannski ekki skoðað ella. Það er svolítið af myndum úr þeim gönguferðum. Þá hef ég mikinn áhuga á landinu og þá sérstaklega jarðfræðinni og í gegnum það grúsk allt hefur maður komist í tæri við fyrirbæri sem eru áhugaverð og forvitnileg. Í bókinni er ég m.a. að sýna furðulegar og sérkennilegar bergmyndanir. Við sjáum bergmyndanir í klettunum í Vesturdal, við sjáum bárujárnslagaða stuðlabergið í Breiðafirði og myndanir sem eru hvergi til annars staðar. Við sjáum rósamynstur í ónefndum helli hér á Reykjanesskaganum, móbergskúlurnar uppi á Laka og ýmisleg svona fyrirbæri sem ég reyni að útskýra líka. Ég er einnig með staði sem eru fáfarnir í bland við aðra staði sem við þekkjum líka. Sumir staðirnir eru ekki endilega fallegustu staðirnir á Íslandi en engu að síður mjög áhugaverðir og hafa mikil hughrif.“

– En þínir uppáhaldsstaðir í íslenskri náttúru, hverjir eru þeir?

„Þeir eru nokkuð margir og staðir sem erfitt er að gera upp á milli. Þetta eru ekki endilega staðirnir sem búa yfir stórbrotnustu og fallegustu náttúrunni. Þetta eru helst staðir þar sem maður hefur orðið fyrir mestu hughrifunum og eru eftirminnilegir.

Minnisstæður dagur á göngu yfir kolsvartan jökul

Ein mín uppáhaldsmynd er úr Skeiðarárjökli og tekin í gönguferð sem ég fór í með Íslenskum fjallaleiðsögumönnum árið 2012. Þetta var í mjög skemmtilegum gönguhóp. Hann var fjölþjóðlegur. Það voru þarna feðgar frá Ísrael, einn Indverji, kona frá Ástralíu og einn Hollendingur. Við löbbuðum á fjórum dögum frá Núpsstaðaskógum með allt á bakinu yfir jökulinn og Skaftafellsfjöllin og enduðum í Skaftafelli. Dagurinn þegar við löbbuðum yfir jökulinn er mér sérstaklega minnisstæður. Þetta var ári eftir Grímsvatnagos og það var mikil aska í jöklinum. Hann var á köflum alveg kolsvartur og mikil strýtumyndun. Svo rauk og gufaði úr þessu öllu og þegar við stóðum þarna og horfðum yfir jökulinn þá hugsaði ég: „Nei við erum ekki að fara þarna yfir.“ Leiðsögumaðurinn hélt það nú, þetta væri leiðin. Þegar maður var kominn út á jökulinn og í þetta landslag, þá hafði maður á tilfinningunni að maður væri staddur á annarri plánetu. Þetta var alveg magnað. Við þurftum oft að snúa við, því það voru ýmsar hindranir á vegi okkar. Hyldjúpar sprungur og svakalegir jökulsvelgir, aurbleyta eða jafnvel bara kviksyndi. Við þurftum að þræða framhjá þessu öllu og leiðin var mjög hlykkjótt og það tók allan daginn að komast þarna í gegn. Þetta var alveg magnað og þessi ferð var öll mögnuð. Sérstaklega þegar við sváfum við jökulinn og þegar maður vaknaði á nóttunni við brestina og drunurnar í jöklinum. Þetta var allt eitthvað svo kyngimagnað.

Hraut svo hátt að undir tók í fjöllunum

Ég svaf lítið í þessari ferð og ef þú skoðar myndirnar úr henni þá sérðu að fyrstu næturnar voru tjöldin þétt saman í þyrpingu en þegar myndirnar frá seinni áfangastöðunum eru skoðaðar þá sést að það eru margir metrar á milli tjaldanna. Þetta var þannig að við vorum tvö og tvö saman með tjald og skiptumst á að bera og málin atvikuðust þannig að ég lenti með Indverjanum í tjaldi. Hann hraut svo rosalega að það tók undir í fjöllunum og ég hef bara ekki heyrt annað eins. Síðustu nóttina þá gat ég ekki meira. Það var erfiður dagur framundan þar sem þurfti að fara yfir öll Skaftafellsfjöllin. Ég varð að geta sofið eitthvað þannig að ég tók svefnpokann minn og tók góða mosaþembu og lagðist þar. Ég vaknaði svo um morguninn alveg rennandi blautur því það hafði komið þoka um nóttina með náttfalli, þetta varð alveg ógleymanleg ferð og þetta er mitt uppáhaldssvæði og kannski eitthvað sem maður sér bara einu sinni.

Lónsöræfin eru líka í uppáhaldi og ég hef farið þangað tvisvar og labbað þar í níu daga í tveimur ferðum. Þetta er stórbrotið svæði með sjö til átta milljón ára gamla megineldstöð, útkulnaða, sem að jökullinn hefur grafið djúpt niður í. Bergmyndanir og litir eru ólýsanlegir. Þetta er svæði sem þú ferð bara labbandi, þangað er ekki farið á bíl, svipað og Hornstrandir.

Svo eru staðir eins og Þerribjörg við Kolmúla, vestanmegin við Héraðsflóa. Það er eftirminnileg gönguferð sem ég fór fyrir nokkrum árum með gönguhóp af Fljótsdalshéraði. Það var svakaleg ferð. Við þræddum snarbrattar hlíðar eftir örmjóum kindastíg og svo voru bara 200 metrar niður í sjó. Puðið var vel þess virði því þarna mætti manni alveg stórkostleg náttúra. Þarna er megineldstöð mikið rofin við haf. Það sem eftir stendur ofansjávar er í rauninni bara þversnið af eldfjalli. Þú sérð alla berggangana sem skera bergið þvers og kruss, ægifögur litasinfónía. Magnaður staður og hugsanlega einn af þessum stöðum sem maður sér bara einu sinni.

Afskektir staðir og ekki í alfaraleið

Í sumar fór ég og skoðaði fyrirbæri sem ég hef ekki séð áður. Lauffellsmýrar á Síðumannaafrétti. Ég labbaði þangað með drónann á bakinu og þar er eitt stórkostlegasta náttúruafstrakt sem þú finnur á landinu í þessum sérkennilegu mýrum sem eru mjög sjaldgæfar, þessi vistgerð, rimamýrar. Svo eru gervigígar þar rétt fyrir norðan. Það eru svo margir staðir sem maður gæti endalaust verið að tala um. Það er þetta sem ég er að reyna að sýna í bókinni, staðirnir sem þú hefur ekki séð á Instagram og öðrum stöðum.“

Ellert óttast ekki að hann sé að uppljóstra neinum leyndarmálum í bókinni sem verði til þess að átroðningur verði á þá staði. Þetta séu yfirleitt það afskektir staðir og ekki í alfaraleið.

Aðspurður um hvaða búnað hann sé að nota, þá segist Ellert reyna að fara eins léttvopnaður af ljósmyndagræjum í sínar ferðir. Það muni um hvert kíló í bakpokanum. Myndirnar í bókinni eru bæði teknar á ljósmyndavélar og einnig með dróna.


Sjáið miklu fleiri myndir í myndskeiðinu hér að neðan!