Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Uppáhaldsplötur Fríðu Dísar Guðmundsdóttur
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
þriðjudaginn 20. október 2020 kl. 20:37

Uppáhaldsplötur Fríðu Dísar Guðmundsdóttur

Fríða Dís Guðmundsdóttir (1987) hefur starfað sem tónlistarmaður frá unga aldri. Hún hefur verið í hljómsveitum á borð við Klassart, Eldar og Trilogiu en hóf nýverið sólóferil sem á hug hennar allan. Fríða gaf út sína fyrstu sólóplötu, Myndaalbúm, í byrjun febrúar 2020 hjá útgáfufyrirtækinu Smástirni. Ekki hefur gefist tækifæri til að fylgja plötunni eftir með fyrirhuguðu tónleikahaldi því fljótlega eftir útgáfu plötunnar skók kórónufaraldurinn heimsbyggðina og öllu tónleikahaldi slegið á frest. Fríða hefur þó ekki setið auðum höndum því henni hefur gefist rými til að einbeita sér að lagasmíðum og vinnur nú hörðum höndum að sinni annari sólóplötu.

Fríða Dís hefur alla tíð haft mikla ástríðu fyrir tónlist og hefur einnig mikinn áhuga á barnamenningu en hún var að bætast í hóp tónlistarkennari hjá Tónagulli sem sérhæfir sig í vönduðum tónlistarnámskeiðum fyrir ung börn og foreldra. Þar að auki vinnur hún að lagi fyrir börn sem mun einnig koma út sem barnabók og stefnir hún á útgáfu 2021. Þar að auki syngur Fríða raddir á nýrri barnaplötu Ingu Bjarkar Ingadóttur, söngkonu og lýruleikara sem sérhæfir sig í músíkmeðferð. Fríða er einnig með hliðarverkefni í smíðum sem nefnist The Boathouse Lullabies (Vögguvísur við vatnið), vögguvísur sem eru ekki endilega ætlaðar börnum heldur er um að ræða tónlist fyrir svefninn sem allir ættu að geta notið.

The Beatles: Abbey Road

Þessi plata er hluti af kjarnanum mínum og þekki ég hvert orð, bassaslag og gítarriff eins og handabakið á mér. Platan var mikið spiluð á mínu heimili sem barn og ég bókstaflega át upp plötusafnið hans pabba sem unglingur. Hér eru lagasmíðar hljómsveitarinnar í mikilli þróun, Come Together, Something og I Want You (She’s So Heavy) eru lög sem búa yfir ótrúlegum töfrum. Lagasmíðar Ringos á plötunni eru kannski hennar helsti akkilesarhæll en Ringo bætir það þó upp með framúrskarandi og fáguðum trommuleik eins og t.d. í Sun King.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Beck: Midnite Vultures

Ég vissi ekki hvert hugurinn ætlaði þegar ég heyrði þessa plötu fyrst. Hvert lag er eins og smásaga með ófyrirsjáanlegri framvindu sem hrífur þig með í safaríkt ferðalag. Drifkrafturinn og spilagleðin er í algleymingi, textasmíðarnar eru spennandi og ferskar og Beck sýnir á sér nýjar hliðar og hæðir með falsettu sem fær hárin til að rísa – en svo koma lög á plötunni eins og Beautiful Way sem taka þig heim og minna þig á af hverju þú féllst fyrir Beck til að byrja með.

Alex Turner: Submarine Soundtrack

Tónlistin í kvikmyndinni Submarine eftir Joe Dunthorne frá 2010 er einstaklega heillandi og dreymandi. Lagasmíðarnar eru lágstemmdar, allt að því kæruleysislegar, og fanga svo vel hina ljúfsáru melankolíu sem nær mér inn að beini. Hljóðheimurinn umvefur mann og rödd Turners er bæði sannfærandi og dáleiðandi. Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég hef rennt þessari plötu og mun halda því áfram út lífið.

Khruangbin: Con Todo El Mundo

Ég heyrði fyrsta lagið með þessari hljómsveit í hátalarakerfi veitingastaðar í Halifax í Kanada sumarið 2018. Ég notaði tónlistarforritið Shazam til að finna út hvað hljómsveitin héti og kolféll fyrir tríóinu og hefur þessi plata verið límd við plötuspilarann síðan. Con Todo El Mundo er allt í senn kunnugleg, dularfull og framandi. Hljóðfæraleikurinn er einstakur, hljóðheimurinn minimalískur með sækadelískum undirtóni og allt að því fullkominn. Eins og í lögum Alex Turner fyrir Submarine er platan stútfull af stemmningu og andrúmslofti frá umhverfinu en platan var að stórum hluta samin og hljóðrituð í hlöðu fyrir utan Texas.

Mort Garson: Mother Earth’s Plantasia

Þessi plata frá árinu 1976 eftir raftónlistarfrumuðinn Mort Garson er hugsuð sem fantasía fyrir plöntur. Platan á sér skemmtilega sögu þar sem hún átti upphaflega að fylgja með blómakaupum blómabúðar í Los Angeles og náði því ekki þeirri áheyrn sem hún átti skilið. Platan átti þó síðar eftir að verða eftirsótt költ-plata enda á þetta meistaraverk sér engar hliðstæður. Fyrir það fyrsta er konseptið stórkostlegt en það eru þó dulmagnaðar lagasmíðarnar sem innsigla gæðin. Mother Earth’s Plantasia er instrumental-plata útsett fyrir hljóðgervla. Ég hlusta á þessa plötu daglega til að kjarna mig og græða.

Fríða sendi nýlega frá sér fyrsta lagið af væntanlegri plötu. Lagið heitir More Coffee og Fríða semur bæði lag og texta ásamt því að útsetja lagið, syngja og leika á bassa, hennar eftirlætishljóðfæri. Upptökurnar fóru fram hjá Smára Guðmundssyni í Stúdíó Smástirni og hjá Stefáni Erni Gunnlaugssyni í Stúdíó Bambus. Smári spilar á gítar, Halldór Lárusson sér um trommuleik og áslátt og Stefán Örn spilar á píanó og orgel ásamt því að syngja raddir og hljóðblanda. Sigurdór Guðmundsson hjá Skonrokk Mastering sá um hljóðjöfnun. Upphaflega átti lagið að koma út í sumar og í lok maí hófu þau Fríða og Smári bróðir hennar að grunna lagið í Stúdíó Smástirni. Örfáum klukkustundum síðar fékk móðir þeirra alvarlega heilablæðingu með þeim afleiðingum að hún lést á Landspítalanum í Fossvogi tveimur dögum síðar. Skyndilegur móðurmissirinn var mikið áfall, upptökurnar voru settar á ís og við tók erfiðasta en jafnframt lærdómsríkasta sumar í lífi hennar. Það var áskorun að hefja upptökur að nýju á fallegum haustdegi í byrjun september en í því fólst einnig mikill léttir. Að hennar sögn voru fáir sem elskuðu kaffibollann sinn jafn heitt og móðir þeirra og erfðu systkinin kaffiástina í beinan kvenlegg. Þó að móðir þeirra hafi upplifað mikla erfiðleika og sorgir á sinni ævi var viðhorf hennar og viljastyrkur aðdáunarverður, það var alltaf „the high road or no road“ og sú mantra hefur gefið þeim systkinum styrk til að halda sínu striki. Með laginu More Coffee langar Fríðu að minna fólk á að þó á móti blási sé mikilvægt að missa ekki sjónar af því sem veitir manni gleði, dusta hversdagsvandamálin af herðunum, fá sér góðan kaffibolla og elta draumana.

Myndbandið má sjá hér að neðan.