VF í 40 ár: Unnið að kappi við Myllubakka
Stórvirkar vinnuvélar Íslenskra aðalverktaka hafa verið áberandi í Reykjanesbæ þetta sumarið. Nú er unnið af kappi við nýja Myllubakkann neðan Hafnargötunnar í Keflavík. Þar er verið að hlaða snyrtilega grjótgarða en nýi bakkinn á að vera tilbúinn á Ljósanótt eftir nítján daga þar sem mikil hátíðarhöld fara fram.
Svo segir í frétt í Víkurfréttum fimmtudaginn 21. ágúst 2003.
Aðalsvið Ljósanæturhátíðarinnar verður á bakkanum. Þar á eftir að leggja göngustíga, tyrfa, leggja nýjan akveg og einnig verður dragnótabátnum Baldri KE komið fyrir til frambúðar neðan við DUUS húsin á nýju uppfyllingunni.
Meðfylgjandi mynd var tekin fyrir helgi þar sem unnið var á stórri beltagröfu við að raða grjóti í varnargarð. Stór hjólaskófla flutti einnig til myndarlega stóra steina sem eiga uppruna sinn í Helguvík. Jú, það verður fjör á Myllubakka næstu daga við að ganga frá svæðinu fyrir stærstu hátíð ársins á Suðurnesjum.
Samtímasaga Suðurnesja í fjóra áratugi
Á þessu ári fögnum við þeim tímamótum að Víkurfréttir hafa komið út í 40 ár. Frá fyrsta tölublaði Víkurfrétta sem kom út 14. ágúst 1980 hafa komið út nærri 1900 tölublöð, síðurnar yfir 20.000 og fréttirnar næstum óteljandi. Til að fagna afmæli Víkurfrétta á þessu ári ætlum við reglulega að glugga í gömul blöð og rifja upp fréttir, sýna ykkur gamlar myndir og jafnvel að heyra í fólki og taka stöðuna eins og hún er í dag.
Víkurfréttir eru aðgengilegar frá stofnun á timarit.is og þar er hægt að finna allt efni og auglýsingar sem hefur birst á síðum blaðsins.