Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ungur rithöfundur í Holtaskóla
Eyþór Ingi sigraði í Smásagnasamkeppni Kennarasambandsins. Um hundrað sögur bárust í flokki 5. til 7. bekkjar. Á myndinni er hann í bókasafninu í Holtaskóla. VF-mynd/dagnyhulda
Sunnudagur 16. október 2016 kl. 06:00

Ungur rithöfundur í Holtaskóla

Eyþór Ingi Brynjarsson, 11 ára nemandi í 6. bekk í Holtaskóla í Reykjanesbæ, vann til verðlauna í sínum aldursflokki í smásagnasamkeppni Kennarasambandsins. Verðlaunin voru veitt á Alþjóðadegi kennara, 5. október síðastliðinn. Sagan sem Eyþór Ingi samdi heitir Nýi kennarinn í Litlahól. Þetta var í annað sinn sem Kennarasambandið í samstarfi við Heimili og skóla efna til keppni af þessu tagi í tilefni af Alþjóðadegi kennara.

Eyþór Ingi segir það hafa komið sér á óvart að hafa unnið smásagnakeppnina. Þegar kennarinn kallaði hann afsíðis til að segja honum tíðindin hélt hann að kennarinn væri að fara að skamma hann. „Svo var ég mjög feginn að heyra að ég hefði unnið í keppninni. Fyrst mátti ég ekki segja neinum nema fjölskyldunni,“ segir hann. Aðspurður hvort það hafi verið erfitt að halda tíðindunum leyndum fyrir vinum sínum segir hann það ekki hafa verið neitt mál.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þemað í keppninni var „kennarinn minn“ og fjallar smásaga Eyþórs um kennara í Reykjavík sem flytur út á land í lítið bæjarfélag því hún vildi kenna fámennum bekk. „Þar kunnu krakkarnir ekki að lesa og voru pirraðir og reiðir. Hún kenndi þeim vísindi og lestur. Í tónlistartímum lét hún þau syngja upp orð og stafrófið og þannig lærðu þau að lesa.“ Kennarinn eignast tvíbura í sögunni og þá vandast málin því sá sem leysir hana af er ekki góður kennari. Þá ákveða krakkarnir að taka til sinna ráða.
Eyþór Ingi hefur gaman af því að lesa og heldur mest upp á Syrpu, bækur um Andrés Önd og félaga. Hann æfir fótbolta og tekur þátt í Skapandi starfi hjá kirkjunni þar sem mikið er um söng, dans og leiklist.

Mjög góð þátttaka var í smásagnakeppninni en tæplega tvö hundruð smásögur bárust frá börnum og ungmennum í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum. Keppt var í fimm flokkum; leikskólar, 1. til 4. bekkur grunnskóla, 5. til 7. bekkur grunnskóla, 8. til 10. bekkur grunnskóla og í flokki framhaldsskóla. Flestar sögur bárust í flokki 5. til 7. bekkja grunnskóla eða um eitt hundrað sögur.

Verðlaunasögurnar verða birtar í Skólavörðunni. Dómnefnd skipuðu Kristín Ómarsdóttir skáld, Kristján Jóhann Jónsson, dósent á Menntavísindasviði HÍ, og Bryndís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri SAMFOK. Verðlaunahafarnir fengu Kindle-lestölvu auk blóma og viðurkenningarskjals.