Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ungur og atvinnulaus
Föstudagur 4. febrúar 2011 kl. 09:39

Ungur og atvinnulaus

Alexander Róbertsson er 18 ára atvinnulaus piltur úr Keflavík. Alexander kláraði grunnskólann og hóf nám við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Hann var ekki að finna sig í skólanum og færði sig út á vinnumarkaðinn. Þar starfaði hann við hinar ýmsu greinar eins og trésmíði, húsasmíði, sölumennsku og fleira en í dag er hann atvinnulaus og þiggur bætur.

„Þetta var erfitt fyrst að vera atvinnulaus og hafa ekkert að gera. Ég sneri sólarhringnum við og það var í raun engin regla á lífinu hjá mér,“ sagði Alexander. „Í dag er ég búinn að vera atvinnulaus í um hálft ár og er á biðlista hjá Loftorkunni en þar vann ég áður en ég varð atvinnulaus.“

Alexander vaknar snemma á morgnana eins og hann væri með vinnu og reynir að finna sér einhver verkefni. „Núna er ég á vinnuvélanámskeiði til að styrkja stöðu mína á vinnumarkaðinum,“ sagði Alexander aðspurður hvað hann gerði á daginn. „Ég leita mikið til fjölskyldunnar og finn mér einhver verkefni en annars er ekki mikið um að vera.“

Virkjun mannauðs á Reykjanesi er staður fyrir atvinnulaust fólk og hefur verið vel sótt. Þar eru hin ýmsu námskeið og fyrirlestrar fyrir fólk en einnig kemur fólk þarna til að deila þekkingu og kunnáttu. „Ég hef ekki sótt mikið upp í Virkjun, þó aðeins og tel það mjög sniðugt,“ sagði Alexander að lokum.

[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024