Ungmenni Vinnuskólans frædd um öryggi á bifhjólum
Um 400 ungmenni Vinnuskóla Reykjanesbæjar mættu í gærmorgun á forvarnardag um rafmagnshlaupahjól og vespur í 88 húsinu. Dagurinn var haldinn í samstarfi við Lögregluna á Suðurnesjum, Slysavarnadeildina Dagbjörgu, Bifhjólaklúbbinn Erni og Hughrif í bæ.
Ungmennin sátu fyrirlestur hjá Krissa löggu um umferðarlög sem snúa að vélknúnum tækjum og hvernig bera eigi sig í umferðinni. Ernir fjallaði um öryggi á bifhjólum og sýndi nýju öryggisvestin sem blása út ef ökumaður fellur af bifhjóli og ungmennunum var einnig sýnt myndband frá slysavarnadeildinni um öryggi á vespum og rafmagnshlaupahjólum sem unnið var af ungmennum Reykjanesbæjar.
Að lokum var boðið upp á ljúfa tóna, grillaðar pylsur og sýningu á bifhjólum Ernis.