Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ungmenni af höfuðborgarsvæðinu fá að kynnast raunveruleikabörnum
Laugardagur 1. mars 2008 kl. 20:50

Ungmenni af höfuðborgarsvæðinu fá að kynnast raunveruleikabörnum

Unglingar í Reykjanesbæ kannast vel við verkefnið „Hugsað um barn“ sem hefur verið í grunnskólum Reykjanesbæjar síðustu fjögur ár. Námskeiðið hefur vakið mikla athygli og m.a. verið til umræðu í fermingarveislum. Þar hefur áhugi foreldra af höfuðborgarsvæðinu fyrir verkefninu vaknað, en til þessa hefur ungmennum af höfuðborgarsvæðinu og foreldrum þeirra ekki staðið til boða að komast á námskeiðið eða að sinna raunveruleikabarninu, sem ungmennin hafa farið með heim og þurft að sjá um yfir helgi. Nú er breyting að verða á og ungmennum og foreldrum á höfuðborgarsvæðinu stendur til boða að koma á námskeið í vikunni.

Námskeiðið HUGSAÐ UM BARN fer fram í Hvaleyrarskóla í Hafnarfirði fimmtudagkvöldið 6. mars og þriðjudagskvöldið 11. mars frá kl. 20:00 – 22:00. Byrjað er stundvíslega kl.20.00 bæði kvöldin og tekið á móti þátttakendum frá kl. 19:30. Hluta af námskeiðinu sitja unglingar og foreldrar saman og hluta fá unglingar og foreldrar fræðslu sitt í hvoru lagi.

HUGSAÐ UM BARN, er alhliða forvarnarverkefni, fyrir unglinga og foreldra þeirra, um lífstíl unglinga og sem hjálpar þeim að taka upplýsta ákvörðun varðandi kynlíf, vímuefni, einnig um mikilvægi góðrar samvinnu við kennara og foreldra. Unglingar fá í hendur Raunveruleiknibarnið á fimmtudagskvöldinu eftir sýnikennslu.

Raunveruleiknibarnið er stillt þannig að umönnunartími hefst kl. 19.00 á föstudagskvöldinu og lýkur um kl. 22.00 á sunnudagskvöldinu. Hluti af fræðslunni er áhrifarík fræðsla um skaðsemi áfengis og vímuefnaneyslu og hjálpar unglingum að sjá mikilvægi þess að leggja rækt við sjálfa sig og námið.

Þátttökugjald per fjölskyldu (unglingur og foreldrar, eitt gjald) er 15.000 kr. Innifalið í gjaldinu er uppeldishandbókin "Að alast upp aftur, annast okkur sjálf, annast börnin okkar" Bókin er í fullkomnu samræmi við hugmyndir Evrópsku ráðherranefndarinnar um foreldrafærni.

Fjöldi þátttakanda er takmarkaður við 20 fjölskyldur. Um kynningargjald er að ræða.

Skráning hjá [email protected] eða hjá Ólafi Grétari Gunnarssyni fjölskylduráðgjafa hjá ÓB-ráðgjöf í síma 553 9400 / 897 1122

Rétt er að benda á að sum fagfélög veita félagsmönnum sínum styrk til þátttöku í námskeiði sem þessu gegn framvísun reiknings.



Eftirfarandi er umfjöllun Víkurfrétta um verkefnið „Hugsað um barn"  sem fengið hefur góðar viðtökur:

Nemendur takast á við foreldrahlutverkið


Það var spenna og eftirvænting í loftinu í stofu 201 í Njarðvíkurskóla á dögunum. Verið var að búa nemendur í 8. bekk  undir foreldrahlutverkið, sem þau áttu að sinna eina helgi. Barnið, sem þau áttu að taka mér sér heim og annast, er í brúðulíki. Innan í dúkkunni er forritaður tölvubúnaður sem sér til þess að dúkkan hagi sér eins og ungbarn sem ber að annast sem slíkt. Hún vaknar upp grátandi á öllum tímum sólarhrings og til að sefa barnið þarf að sinna grunnþörfum þess, s.s. að gefa því pela, skipta á bleiu, láta það ropa eða rugga því í svefn. Tölvubúnaður brúðurnar sér svo um að skrá allt atferlið og hvernig viðkomandi stóð sig sem foreldri. 


Hjálpar nemendum að forgangsraða
Verkefnið kallast Hugsað um barn og er alhliða forvarnarverkefni um lífstíl unglinga.  Því er ætlað að vekja unglinga til umhugsunar um afleiðingar kynlífs og leitast við að hafa áhrif á að þeir byrji að stunda kynlíf eldri en nú þekkist og af meiri ábyrgð.
„Verkefnið hjálpar nemendum að forgangsraða og sjá mikilvægi þess að leggja rækt við námið í grunnskólanum" segir Ólafur Grétar Gunnarsson, fjölskylduráðgjafi hjá ÓB ráðgjöf og verkefnisstjóri.
Ólafur segir verkefnið ekki aðeins mjög hrifaríkt fyrir samstaf og samskipti heimilis og skóla, að auki sé hér á ferðinni öflugt siðferðisuppeldi. „Að auki gera kennarar sér grein fyrir því að það er svo miklu auðveldara fyrir nemendur að ná árangri í grunnskólanámi ef þeir eru ekki kynlífsiðkendur eða farnir að nota áfengi," segir Ólafur.

Góð samvinna við kennara
Aðspurður segir Ólafur verkefnið hafa fengið afar góðar viðtökur.
„Nemendur gefa helgi í verkefnið. Umsjónarkennar eru oft með okkur og benda á leiðir hvernig efnið styður námið og umræður sem hafa átt sér stað. Nýtt dæmi er kennari sem var með Raunveruleiknibarn yfir helgi til að geta tengst verkefninu og nemendum sínum betur.
Dæmi eru um að allir kennarar árgangsins taki þátt í verkefninu með því að leggja fyrir verkefni
í hinum ýmsu námsgreinum. Umsjónarkennarar með verkefnið í lífsleiknitímum, náttúrufræðikennarar og skólahjúkrunarfræðingur sameinuðust um kyn- og kynsjúkdómafræðslu, stærðfræðikennararnir unnu með verkefni sem tengdust því hvað það kostar að eignast barn. Í
tölvutímum var einnig skoðað hvað rekstur heimilis kostar," segir Ólafur.
Á annan tug skóla hafa tekið þátt í verkefninu og er þeim alltaf að fjölga. „Það segir mikið um verkefnið, þar sem við byrjuðum að bjóða það árið 2004. Allir skólarnir í Reykjanesbæ hafa tekið þátt, auk skóla í Kópavogi, Reykjavík og á landsbyggðinni. Fjöldi skóla hefur haft samband við okkur, m.a úr Garðabæ og Hafnarfirði," segir Ólafur.

Ný upplifun fyrir nemendur
Ólafur var inntur eftir ávinningnum af verkefninu og hvort það hefði mikið álag í för með sér fyrir heimili nemenda á meðan á því stendur:
„Ég heyrði einu sinni tvenn hjón tala saman í foreldrafræðslunni, sem boðið er upp á í verkefninu, en þau voru ekki alveg viss um hvað þau voru komin út í. Þá sagði annar faðirinn. ,,Ef verkefnið hefur þau áhrif að við getum verið afslöppuð næstu árin varðandi að verða afi og amma er ónæði eina helgi bara lítið mál."  Hitt er að nemendur eru að leggja mikið á sig og sum þeirra jafnvel að upplifa í fyrsta sinn að þurfa að setja sínar eigin þarfir og langanir til hliðar.  Ég tel viðeigandi að gefa þeim viðurkenningu fyrir það," svarar Ólafur.
Hafa verið gerðar rannsóknir á áhrifum verkefnisins fyrir þá unglinga sem taka þátt?
„Tveir nemar í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri, þær Hrafnhildur Eyþórsdóttir og Kristín B. Flygenring, fjölluðu um verkefnið ,,Hugsað um barn" í lokaverkefni sínu til B.Sc. gráðu í hjúkrunarfræði.  Tilgangurinn var að kanna reynslu unglinga og foreldra þeirra af verkefninu.  Meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum er að verkefnið hjálpaði þeim að sjá hversu erfitt það getur verið að eignast barn á unglingsárum.  Foreldrar voru almennt ánægðir með verkefnið, töldu það hafa góð áhrif á samskipi þeirra við unglingana og opnað fyrir umræður um kynferðismál."


Lífið er samræmt próf
Út frá hvaða atferli daglegs lífs leggið þið helst í fræðslunni?
„Við ræðum aðallega við unglingana út frá fjórum megin þáttum og drögum fram  kosti þess að huga að heilbrigði til að þau geri sér grein fyrir ábyrgð þeirra sjálfra á heilsu og námi og hvernig þau þurfa að vera ábyrg í hegðun og samskiptum við hitt kynið.
Við ræðum um þau námsskilyrði sem þau skapa sér sjálf og viðhorf þeirra til námsins. Við segjum þeim að í raun geti þau litið á hvern dag sem samræmt próf í því að vera ábyrgur einstaklingur. Samræmdu prófin þeirra verði ekki aðeins í maí 2010, heldur allar stundir og alla daga þangað til. Hvenær þau færu að sofa í kvöld og hvað þau fá sér í morgunmat í fyrramálið. Hvernig þau koma fram við foreldra sína og hvort annað.
Mörg eru mikilvægar fyrirmyndir fyrir yngri systkyni og skyldmenni. Þau þurfa að vera með foreldrum sínum í liði og hugsa um velferð fjölskyldu sinnar. Mamma og pabbi þurfa sinn svefn og sofna ekki vel fyrr en þau væru sofnuð. Samkvæmt landlækni þurfa unglingar 8,5 - 10 klukkustunda svefn. Líklega væru þau og foreldra þeirra viðkvæmust á föstudagskvöldum. Rannsóknar gefa það í skyn að fólk og þá líka unglingar safna svefnskuld yfir vikuna og rétta hana af um helgar. 
Við ræðum við þau um að setja sér markmið og skoða árangur. Við tengjum umræðuna mikið við heilsu og næringu því samkvæmt skilgreiningu Evrósku ráðherranefndarinnar á foreldrafærni er fyrst talið upp næring. Við teljum það mjög viðeigandi. Ef þörfinni fyrir næringu er mætt, svefninn er í lagi, mataræði og samskiptahæfni innan fjölskyldunnar er í lagi , þá er vindurinn í bakið," segir Ólafur.


Mikið álag og áreiti á unglinga
Hvað telur þú að helst skili sér til krakkanna úr fræðslunni sem verkefninu er ætlað að skila?
„Það er ekki gott að segja og auðvitað miðast það við aðstæður hvers og eins en yfir heildina finnst okkur mjög mikilvægt að opna umræður um afleiðingar kynlífs.
Unglingar eru eru hræddir og óöruggir og velta fyrir sér hvernig þeir geti náð þeim árangri að bíða með kynlíf og vímuefni til 18 ára aldurs eða að lámarki að lokum grunnskóla. Áreitin og álagið er mikið og jafningjahópurinn sterkur þegar kemur að því að taka ákvarðanir af þessu tagi. Það getur verið erfitt á gelgjunni að standast hópþrýstinginn. Við sem að verkefninu stöndum vonum að umræðan ein styrki þau
í því að nota hið kærleiksríka orð NEI og útskýra fyrir þeim að maður þarf að umgangast það af virðingu. Einnig förum við í það á mannamáli afhverju þau þurfa að hugsa um svefninn og mataræði til að geta sinnt námi sínu og haft styrk til að meta áhættuna eða  segja nei þegar  þau finna fyrir þrýstingi. Sama á við  um þegar við útskýrum útivistarreglurnar," svarar Ólafur.

NEI til árangurs 
„Rauði þráðurinn í hópavinnunni er að unglingarnir vilja ná árangri og líða vel. Unglingar kunna að meta umhyggju, aðhald og eftirlit foreldra þegar til lengri tíma er litið og þeir skilja að þegar þau biðja um eitthvað sem setur velferð þeirra í hættu þá er mikilvægt að foreldrar segi nei svo þau nái árangri og svo að þeim geti liðið vel. Jákvætt viðhorf foreldra til náms og hvatning foreldra sem fylgt er eftir með stuðningi við jákvæða hegðun eru áríðandi þættir fyrir foreldra," segir Ólafur.
Hver eru skilaboð ykkar til foreldra þeirra barna sem tóku þátt í verkefninu?
„Kannski er  ástríkt hjónaband besta gjöfin sem foreldrar gefa börnum og að vera hönd í hönd í uppeldinu. Hvort sem þau búa saman eða ekki. Þeir foreldrar sem sjá að miklu eða öllu leyti um uppeldið þurfa að annast sig sjálf sérstaklega vel, m.a. með því að verða sér út um stuðning í uppeldinu og samskiptanæringu við fullorðin einstakling," segir Ólafur að lokum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024