Unglingar eru besta fólk!
Ertu sjálfsöruggur unglingur sem þorir að vera sjálfstæður? Eða ertu óöruggur unglingur sem lætur aðra krakka stjórna þér? Hefurðu orðið fyrir einelti? Viltu taka málin í eigin hendur og breyta stöðu þinni til hins betra?
Mánudaginn 1.nóvember klukkan 19:30-21:00 hefst 6 vikna námskeið í Púlsinum sem getur hjálpað þér. Námskeið þetta nefnist sjálfstyrking unglinga. Það verður umfram allt skemmtilegt og gaman að vera með á námskeiðinu. Þú kynnist fleiri krökkum sem vilja styrkja sig og þora að vera þeir sjálfir án vímuefna. Já, án vímuefna, því það er oft sem krakkar byrja að drekka áfengi eða jafnvel dópa til þess að þora. Væri ekki frábært að þora vera maður sjálfur og þurfa ekkert vímuefni til þess!
Á námskeiðinu verður farið í alls konar skemmtileg verkefni sem tengjast leiklist, myndlist, tónlist og orðlist. Jákvæð mannleg samskipti verða líka þjálfuð og skoðuð.
Leiðbeinendur á námskeiðinu verða Marta Eiríksdóttir, leiklistarkennari og Gylfi Jón Gylfason, sálfræðingur en þau eru mjög vön að vinna með unglingum. Viltu ekki ræða við foreldra þína og tjékka á málinu ef þig langar að vera með í Púlsinum?