Unglingadeildin Tígull endurvakin í Vogum
Það var heldur betur mikið um að vera í húsakynnum Björgunarsveitarinnar Skyggnis í Vogunum í síðustu viku en þangað voru komnir 30 krakkar frá 14 ára aldri og uppúr til þess að endurvekja unglingadeildina Tígul. Unglingadeildin hefur legið í dvala um töluvert skeið en nú hefur hún verið vakin upp af miklum krafti.
Á fundinum var farið yfir það helsta sem verður gert í vetur og auk þess var farið yfir það hvernig unglingastarf innan björgunarsveita virkar, en slíkt starf hefur verið starfrækt hjá björgunarsveitum á svæðinu í kring í fjölda ára og við góðan orðstír. Á næstu mánuðum verður unnið að því að koma fótum undir starf deildarinnar og verða þess vegna 4 til 5 fundir í mánuði fyrir utan ferðalög og aðrar stærri uppákomur, segir í tilkynningu frá unglingadeildinni.